- Advertisement -

AÐ VERA EKKI FRAMSÓKNARMAÐUR

Jóhann Hauksson skrifar:

„Faglega var staðið að öllu,“ endurtók Lilja Alfreðsdóttir á Alþingi í gær þegar rædd voru málaferli hennar og ríkisins gegn umsækjanda um stöðu ráðuneytisstjóra sem helguð var Framsóknarmanni.

Lilja valdi flokksgæðing til starfans sem Framsóknarflokkurinn skuldaði líklega vinargreiða eða fylgdarlaun. Hlutdrægnin er eins og sjúkdómur á kerfinu því allt ferlið, frá auglýsingu starfans, skipun hæfnisnefndar og til ráðningu, var hannað fyrir útvalinn gæðing. Látalætin og fjaðrafokið er skrum til þess fallið að kasta ryki í augu skattgreiðenda sem borga brúsann.

Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor, sagði eitt sinn í athugun sinni á pólitískum stöðuveitingum:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Störf hjá hinu opinbera geta verið hluti af lögmætum sigurlaunum í stjórnmálum, þetta leiðir til sóunar, óskilvirkni og skorts á hæfni í opinbera geiranum. Að baki liggur dulin þörf stjórnmálamanna fyrir að útvega störf handa fólki sem þeir telja að verðskuldi slíkt að launum fyrir pólitískan stuðning.“

Gunnar taldi einnig (2006) að skipulag Framsóknarflokksins byggði meira á fyrirgreiðslu en til dæmis skipulag Sjálfstæðisflokksins.

Rétt eins og Framsóknarflokkurinn misnotar stöðu sína nú til að hygla flokksgæðingi hefur flokkurinn einnig komið „óæskilegum“ mönnum án flokksskírteinis frá störfum í stjórnarráðinu. Aðstaðan í stjórnarráðinu er notuð til að umbuna og tyfta. Tilraunir framsóknarráðherra til að stjaka embættismönnum úr starfi til að rýma fyrir flokksgæðingum hafa líka kostað skattgreiðendur stórfé rétt eins og málaferli Lilju nú í skjóli ríkisins. Gott ef umræddur Páll stóð ekki álengdar sem aðstoðarmaður Finns Ingólfssonar og síðar Valgerðar Sverrisdóttur í því máli sem hér skal rakið:

Í desember árið 2005 skipaði Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskipta- og iðnaðarráðherra, Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóra í iðnaðarráðuneytinu án auglýsingar.

Þegar Valgerður réði Kristján hafði Björn Friðfinnsson, ráðuneytisstjóri í viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu, beðið þess árum saman að fá að taka á ný við embætti sínu. Björn hafði fengið leyfi frá störfum árið 1993 til þess að gegna stöðu framkvæmdastjóra ESA, eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel. Finnur Ingólfsson, sem varð viðskipta- og iðnaðarráðherra 1995 í samstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins kallaði Björn heim árið 1996 til að gegna ráðuneytisstjórastarfinu á ný. Björn flutti búferlum heim, en þegar til átti að taka þóknaðist Finni ekki að fá hann aftur í ráðuneytið. Þrátt fyrir sérstaka samninga við fjóra ráðherra varð engu um þokað og fór Björn aldrei aftur inn í ráðuneytið. Heimildir eru fyrir því, að Finnur og Valgerður hafi lagt á ráðin um að Björn fengi starfið sitt ekki aftur meðan þau fengju einhverju þar um ráðið.

Málinu lyktaði með réttarsátt þar sem ríkið var knúið til þess að greiða Birni óskert ráðuneytisstjóralaun til sjötugs, en auk þess tveggja milljóna króna í miskabætur, sem teljast háar.

Jakob Möller, lögfræðingur, sótti málið gegn Valgerði og ríkinu fyrir Björn sem nú er látinn. Jakob sagði að lokinni réttarsátt, að hvergi væri að finna hnökra á embættisfærslu Björns og því væri málið illskiljanlegt:

„Það eina sem ég get látið mér detta í hug er það að Björn hafi það til saka unnið, sem og einnig langstærstur hluti þjóðarinnar, að vera ekki framsóknarmaður.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: