- Advertisement -

Að vera með tangarhald á ráðherra!

Þá kemur sér vel að eiga góðan vin hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Frásögnin í grein minni Ráðherra í samkrulli við Kaupfélag Skagfirðinga?hér á Miðjunni er ekki tæmd. Það er meira frá að segja.

Feðgarnir Daði Einarsson bóndi úr Dalasýslu og Ásmundur Einar Daðason ráðherra stofnuðu einkahlutafélagið Íslenskar Búrekstrarvörur ehf í nóvember 2009 að Lambeyrum í Dalasýslu. Hvor um sig fór með 50% hlutafjár. Upphaflegur tilgangur var sala á rekstrarvörum til bænda. Ráðherrann tók sæti í stjórn ásamt því að vera framkvæmdastjóri með prókúru. Sunna Birna Helgadóttir eiginkona ráðherrans tók sæti í varastjórn. Að níu mánuðum liðnum ganga hjónin út úr fyrirtækinu. Starfseminni og nafninu var breytt, Daði Einarsson ehf. Í kjölfarið hóf firmað sauðfjárbúskap á Lambeyrum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En svo er ekkert að frétta fyrr en í apríl árið 2012. Þá stofnar faðir ráðherrans Þverholtabúið ehf. sem er umfjöllunarefni áður nefndrar greinar. Þremur árum síðar tók eiginkona ráðherrans sæti í varastjórn Þverholtabúsins og tók við prókúru. Sú skipan er óbreytt enn í dag.

En hvernig getur bóndi keypt eitt stærsta kúabú landsins með 500.000 krónur fjárframlagi? Maðurinn hafði aldrei áður verið með mjólkandi kýr á sinni könnu. Og ekki var rekstrarsaga hans að hjálpa. Hann hafði rekið Lambeyrabúið ehf. sem fór í þrot. Það voru réttu tengslin sem auðveldaði málið. Arion banki lánaði Þverholtabúinu 265 milljónir, en það vantaði enn þá upp á kaupverðið.  

Þá kemur sér vel að eiga góðan vin hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Það mátti auðvitað ekki fara hátt og því tók kaupfélagið á sig krók. Við lestur ársreikninga firmans sem feðgarnir stofnuðu saman kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Árið 2012 gefur kaupfélagið út skuldabréf upp á um það bil 17 milljónir til Daða Einarssonar ehf. Árið eftir gefur kaupfélagið út annað skuldabréf upp á 9 milljónir með veði í mjólkurkvóta sem endaði hjá Þverholtabúinu. Þriðja lánið leit síðan dagsins ljós upp á 12 milljónir. Ég hef ekki náð að rekja hvaðan það lán kom.

Samtals eru þetta 39 milljónir. Hugsanlega allt frá KS, en það komu örugglega 26 milljónir frá  Skagfirsku sveitinni. Árið 2015 þá eru þessar skuldir horfnar úr bókum Daða Einarssonar ehf. án útskýringa. Ársreikningarnir eru svo illa framsettir að ómögulegt er að bakreikna snúningana. Allar líkur eru þó á því að þetta hafi verið flutt yfir á Þverholtabúið um sama leyti og ráðherrafrúin Sunna Birna Helgadóttir tók við prókúrunni. Síðan endar lánið hjá Þverásbúinu ehf. sem er í eigu Fóðurblöndunnar sem er dótturfélag KS. Ekki amalegt að eiga svona góða vini. Hvernig ætli ráðherrann komi til með að launa greiðana við fjölskylduna? Þarna er ákveðið tangarhald sem ráðherra má ekki vera í.

Svo má upplýsa að Daði Einarsson ehf. er hætt rekstri. Árið 2016 fékk fyrirtækið álíka aðvörun og Þverholtabúið fékk frá KPMG endurskoðun um að vafi væri á gjaldhæfi fyrirtækisins. Fyrirtækið hélt áfram rekstri í eitt ár til viðbótar. Bæði fyrirtækin fóru í gegnum sama mynstrið.

Hér endar ekki sagan. Ráðherrafrúin stofnaði nýtt firma SBH1 ehf í febrúar 2015 (nafninu síðar breytt í Sólheimabúið ehf). Í upphafi var allt hlutafé að fjárhæð 22,5 milljónir í eigu frúarinnar. Fyrirtækið tók um 70 milljón króna lán til kaupa á jörðinni Sólheimar í Búðardal þar sem búreksturinn fer fram. Í ársreikningi ársins 2017 er faðir ráðherrans Daði Einarsson sagður eigandi alls hlutafjár firmans. Í reikningum fyrir árið 2018 er hlutur Daða komin niður í 50% og Valdimar Einarsson sagður eiga hinn helminginn.

Öll árin frá stofnun Sólheimabúsins er niðurstaða rekstrarreiknings neikvæð (tap). Reikningarnir fyrir árið 2018 sýna samt ekkert uppsafnað tap. Þessi liður er bara gufaður upp! Þar með er allur reikningurinn rangur. Svo eru langtímaskuldir óbreyttar milli áranna 2017 og 2018 þó það liggi fyrir sem upplýst að borga eigi af lánum árlega og að lánin safni árlegum vöxtum. Ársreikningur ársins 2018 er klárlega falskur. Rifjast nú upp að sjaldan er ein báran stök!

Ég er búinn að skoða alla ársreikninga Þverholtabúsins ehf., Lambeyrabúsins ehf., Daða Einarssonar ehf. og Sólheimabúsins (SBH1 ehf) og hef aldrei séð aðra eins óreiðu!   Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: