- Advertisement -

Að vera sviptur heimsmeistaratign

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Svo mikið er ruglið við ríkisstjórnarborðið að sóttvarnaryfirvöld treysta sér ekki lengur til að leggja fram útfærða aðgerðaráætlun til sóttvarna.

Vandræðalegasta atvik íþróttasögunnar kom þegar kanadíski spretthlauparinn Ben Johnson var afhjúpaður fyrir notkun árangursbætandi lyfja á Ólympíuleikunum árið 1988. Í kjölfarið var hann sviptur gullverðlaunum í hundrað metra spretthlaupi. Síðar voru gullverðlaun heimsleikanna árið á undan einnig rifin af þorparanum. Á þessum árum þá var Johnson titlaður hraðasti spretthlaupari sögunnar. Hann var öðrum fremri. Svo sterk var löngun hlauparans í viðurkenningu að hann var tilbúinn að stytta sér leið, svindla.

Þessi saga rifjaðist upp þegar staðfest er að ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jak að leyfa óheftan innflutning deltaveirunnar er ekkert annað en risavaxið dómgreindarleysi. Ráðherrarnir settu sjálfa sig í sömu stöðu og Ben Johnson, þráðu viðurkenningu. Vildu upplifa sigurtilfinninguna. Finna endorfínið flæða um líkamann og vera álitin öðrum fremri. Það átti víst að vera gott veganesti inn í komandi kosningar. Núna er allt í hönk og endorfínið komið í mínus. Veldisvöxtur er á veirunni, Landspítalinn nálgast hættustig, skólahald í uppnámi, fyrirtæki loka vegna smita og þjóðhátíð var aflýst.

Svo mikið er ruglið við ríkisstjórnarborðið að sóttvarnaryfirvöld treysta sér ekki lengur til að leggja fram útfærða aðgerðaráætlun til sóttvarna. Vilja ekki setja nafn sitt við bullið og óeininguna sem ríkir við stjórn landsins. Mikið er gott að það er stutt til kosninga. Fall blasir við. Ráðherrarnir verða sviptir sigurtilfinningu öðru sinni eins og var með Ben Johnson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: