- Advertisement -

Aðeins um karlrembu Alþingis og Þórhildi Sunnu

Alþingi sýnir mikla tvöfeldni og jafnvel óheiðarleika í þessu máli.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Margir muna þegar Steingrímur forseti stóð öskrandi og berjandi í ræðustól Alþingis á dögunum þegar hann ásakaði samþingmann um kunnáttuleysi. Margir muna líka þegar forsetinn uppnefndi Davíð Oddsson druslu og gungu. Þessi framganga samrýmist ekki eftirfarandi siðareglum Alþingis:

 Alþingismenn skulu:

  •  5a rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika.
  • 5c ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni.
  • 7  Þingmenn skulu í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.

Álit nefndanna er ekki áfellisdómur yfir Þórhildi Sunnu heldur spegill á ógeðslega karlrembu sem marínerar Alþingi.

Mál forsetans hefur ekki verið tekið fyrir hjá siðanefnd þingsins né forsætisnefnd. Virðist þingheimur sáttur við þann búning sem forsetinn setti tjáningu sína í og hvernig hann kom henni á framfæri. Öll holningin var sem sagt í lagi þegar hann tjáði sig. Gott hjá þingheimi að setja svona glæsilegt viðmið!

Örfáum dögum eftir þingfrestun í júní stóð Steingrímur forseti síðan að áliti forsætisnefndar vegna kvörtunar ofur-rukkarans og ökuþórsins Ásmundar Friðrikssonar varðandi tjáningu Þórhildar Sunnu og Björns Leví um hans mál.

Í álitinu segir að Þórhildur Sunna hafi brotið gegn ofangreindum siðareglum. Er fjallað um að Þórhildur Sunna hafi ekki sett tjáninguna í réttan búning og holningin hennar hafi ekki verið sæmileg. Ekkert er fundið að innihaldi tjáningarinnar enda ná siðareglurnar og þingsköp ekki utan um slíkt. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en að allt fas Þórhildar Sunnu hafi verið ófágað. Já, það er betra að vera eins og forsetinn, baða út skönkum, öskra yfir þingheim og ásaka aðra um kunnáttuleysi. Það er þinglegur búningur.

Ég held að allir geti tekið undir að Þórhildur Sunna býr yfir ágætri framkomu og góðri tjáningu. Þannig kemur hún mér fyrir sjónir, skörp kona. Það skýtur því skökku við að segja Þórhildi Sunnu hafa brotið siðareglurnar, en ekki forsetinn. Alþingi sýnir mikla tvöfeldni og jafnvel óheiðarleika í þessu máli gagnvart ungri konu sem kjörin var með glæsibrag til setu á Alþingi.

Af 7 manna forsætisnefnd voru 6 karlmenn og þar af voru 5 með meðalaldurinn 62 ár.

Af 7 manna forsætisnefnd voru 6 karlmenn og þar af voru 5 með meðalaldurinn 62 ár. Eina konan studdi álitið, en það var Inga Sæland sem er 60 ára. Yngsti karlmaðurinn í nefndinni, Jón Þór Ólafsson 42 ára, greiddi einn atkvæði gegn niðurstöðu karlaklúbbsins.

Skipan siðanefndarinnar vekur einnig athygli. Formaðurinn er öldungurinn og framsóknarráðherrann fyrrverandi Jón Kristjánsson. Hann uppfyllti ekki hlutleysiskröfur vegna fyrri starfa og er vanhæfur til setu í siðanefnd Alþingis. Hann er að fjalla um mál sem snúa að pólitískum andstæðingum eða samherjum. Í nefndinni sátu tveir karlar og ein kona.

Í forsætisnefnd situr hinn 57 ára gamli karl og formaður Fjárlaganefndar Willum Þór Þórsson. Hann er næst yngstur í forsætisnefnd, en hann sækir augljóslega sín viðhorf til gamla karlrembutímans.

Álit nefndanna er ekki áfellisdómur yfir Þórhildi Sunnu heldur spegill á ógeðslega karlrembu sem marínerar Alþingi.

Í tveimur nefndum sem komu að málinu voru karlmenn 80% nefndarmanna. Mætti halda að árið 1915 sé runnið upp að nýju. Núna þurfa konur að hnykla lýðræðisvöðvann, spúla karlrembuna út um leið og þær ánýja stöðu sína á Alþingi!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: