- Advertisement -

Æ fleiri koma um borð

Það eru ekki nýjar fréttir að Samtök atvinnulífsins umgangist staðreyndir af lítilli virðingu.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þeim fjölgar ört sem blöskrar tíðar rangfærslur Samtaka atvinnulífsins um hagmál landsins. Nýjasti aðilinn er Jónas Atli Gunnarsson ritstjóri Vísbendingar og blaðamaður á Kjarnanum. Hann skrifaði fína grein sem birtist í dag þar sem hann gagnrýnir samtökin fyrir að rangtúlka tölur um launamál og setja fram misskilning. Nýjasta útspil samtakanna er orðrétt svona „Í heimssögunni heyrir líklega til undantekninga að svo miklar launahækkanir mælist á sama tíma og atvinnuleysi eykst svona skarpt“.

Jónas segir réttilega að hækkun launavísitölunnar á árinu sé vegna veiru-kreppunnar, en ekki þrátt fyrir kreppuna. Hann heldur svo áfram og útskýrir að flest störf hafi tapast í þjónustugreinum með sterka tengingu við ferðaþjónustuna, en þar eru lægstu launin greidd í hagkerfinu. Það var því viðbúið að launavísitalan myndi hækka vegna mikils atvinnuleysis í þessum greinum. Minna er af láglaunafólki í reiknidæminu. Í fjármálahruninu þá skapaðist mikið atvinnuleysi í fjármálageiranum sem borgar há laun og þá var viðbúið að vísitalan lækkaði í kjölfarið. Hér skiptir sem sagt máli hvaða hópar kreppan bitnar mest á. Áhrifin á launavísitöluna eru ólík. Samtökin höfðu ekki áhuga að greina hlutina til skilnings heldur báru saman epli og appelsínur og staðhæfðu bull út í loftið. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í grein Jónasar er birt stöplarit til að sýna að hækkun launavísitölunnar við núverandi aðstæður er ekki íslenskt fyrirbrigði eða undantekning. Í þessari grein set ég fram samskonar mynd, en tek tillit til verðbólgunnar. Þannig ber ég saman raunhækkanir á meðan Jónas skoðar nafnbreytingar launa.

Eins og sjá má þá sker Ísland sig hvorki úr né er landið undantekning á heimsvísu. Og raunhækkun launavísitölunnar er hófleg. Lengst til hægri á myndinni má síðan sjá hækkun tölunnar innan Evrópska efnahagssvæðisins (EEA). Heilt yfir þá er raunbreytingin lægri á Íslandi. Það eru ekki nýjar fréttir að Samtök atvinnulífsins umgangist staðreyndir af lítilli virðingu. Þar á bæ gildir að tilgangurinn helgar meðalið alveg eins og hjá Morgunblaðinu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: