
Jóhann Þorvarðarson:
Mótþróaröskun forsætisráðherra er við það að þurrka heila stjórnmálahreyfingu út af kortinu á sama tíma og hún heldur áfram eigin afneitun, réttlætingu, tilfærslu og göfgun svo ég tali nú ekki um frávörp forsætisráðherrans.
Það dylst engum lengur að Katrín Jakobsdóttir er til í hvað sem er í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Nema auðvitað að viðurkenna mistök. Nýjustu dæmin: yfirlýst traust til dómsmálaráðherra þrátt fyrir álit Umboðsmanns, rafbyssuvæðing lögreglunnar, útlendingafrumvarpið, Íslandsbankasalan og Lindarhvolsleyndin bætast bara við langan útsölulista Vinstri grænna. Katrín setur persónulegan metnað ofar stefnumálum Vinstri grænna og nýtur þar einlægs stuðnings frá Svandísi og Guðmundi Inga.
Í tilraun sinni til að breiða yfir eigin bresti og málefnasvik þá segir Katrín aðra flokka ráðast að Vinstri grænum svona eins og að hún sjálf eigi enga sök á því að félagsfólk VG yfirgefa hreyfinguna í rútuförmum. Allt er öðrum að kenna nema henni sjálfri. Ræða hennar á afar fámennu flokksþingi VG er vitnisburður um að Katrín býr í einhverjum hliðarveruleika enda er það þekkt taktík þeirra sem ekki geta gengist við eigin dómgreindarbrest, mistökum og blindni gagnvart framagirnd að kenna öðrum um. Innan sálfræðinnar þá flokkast hegðun Katrínar undir það sem kallað er „Varnarhættir“. Þar má finna undirflokka eins og afneitun, réttlætingu, tilfærslu og göfgun.
Katrín sakar aðra flokka um að skila auða í mikilvægum málum án þess að nefna eitt einasta dæmi þvælu sinni til stuðnings enda þvaðrar hún gegn betri vitneskju. Hún segir stjórnmál snúast um möguleikann á að móta samfélagið. Katrínu og Vinstri grænum hefur svo sannarlega tekist að móta samfélagið eftir höfði bláa fálkans, Sjálfstæðisflokknum. Þetta hefði ég sjálfur ekki geta kjarnað betur.
Mótþróaröskun forsætisráðherra er við það að þurrka heila stjórnmálahreyfingu út af kortinu á sama tíma og hún heldur áfram eigin afneitun, réttlætingu, tilfærslu og göfgun svo ég tali nú ekki um frávörp forsætisráðherrans. Að saka aðra um svik og tómlæti er dæmigert frávarp.