- Advertisement -

Áframhaldandi árásir Fréttablaðsins og Helgi Magnússon

Ekki löngu eftir útgáfu skýrslunnar þá vék Helgi úr stjórn LV.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Fréttablaðið getur ekki hætt að fjalla ómálefnalega um árásir á stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) og alveg sérstaklega á formanninn, Ragnar Þór Ingólfsson. Endurtekið er fjallað um ásakanir að VR misbeiti valdi sínu þegar það er í raun að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV). Í þessu samhengi þá birtir blaðið í dag skoðun ónafngreinds aðila um að hætta sé á því að lífeyrissjóðum verði beitt í pólitískum tilgangi án þess að það sé útskýrt nánar hver sá pólitíski tilgangur er. Meira er reynt að skilja lesendur blaðsins eftir með þá tilfinningu að eitthvað sé öðruvísi en það á að vera og að VR sé óábyrgt í sínum störfum. Þessar ásakanir hafa verið hraktar og má benda á ákvörðun Neytendastofu númer 59/2019 þar sem staðfest er að stjórn LV tók ólögmæta ákvörðun um mitt ár 2019. Fréttablaðið fjallar aldrei um ákvörðun Neytendastofu, telur væntanlega að slík hlutlaus umfjöllun varpi of réttsýnu ljósi á VR og Ragnar Þór.

Jafnframt , þá minnist Fréttablaðið aldrei einu orði á hvort ýmis samtök fyrirtækja og fulltrúar þeirra í stjórnum lífeyrissjóða misbeiti áhrifum sínum innan stjórna lífeyrissjóða. Nú, eða noti innherjaupplýsingar í auðgunarskyni. Einn af aðaleigendum Fréttablaðsins Helgi Magnússon (hluthafi í Bláa lóninu) á sér sögu innan stjórnar LV. Í skýrslunni „Lífeyrissjóðir og hlutafélög“ sem kom út árið 2015 kemur fram að Helgi, sem þá var stjórnarmaður í LV, hafi jafnframt setið í stjórn N1 og Marels og verið sjálfur hluthafi í fyrirtækjunum. Á sama tíma var LV hluthafi í umræddum fyrirtækjum. Blaðið fjallar ekkert um hvort svona skipan bjóði upp á misnotkun í pólitískum tilgangi eða í persónulegu auðgunarskyni. Ekki löngu eftir útgáfu skýrslunnar þá vék Helgi úr stjórn LV.

Saga Helga innan lífeyrissjóðakerfisins endar svo sem ekki hér því hann sat í stjórn gamla Íslandsbanka árið 2004 fyrir hönd Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Á sama tíma keypti hann hlutabréf í bankanum. DV fjallaði ítarlega um kaupin og kallaði þau kaup ársins vegna ofsagróða sem Helgi fékk án þess að leggja út krónu í upphafi. Þeir sem vilja lesa frásögn DV á þessum viðskiptum geta lesið hana hér.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: