- Advertisement -

Afsiðun forsætisráðherra

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Væri hún þá komin í félagsskap með tveimur þjóðþekktum áhrifamönnum, sem dvelja ekki alltaf í raunheimi.

Það var meiriháttar misgjörð gagnvart þjóðinni þegar Katrín Jakobsdóttir skipaði son fyrrum ráðherra VG í embætti seðlabankastjóra. Og það þrátt fyrir að hún þekkti vel þátt Ásgeirs Jónssonar í fjármálahruninu. Hann var nefnilega í forsvari lúðrasveitar, sem endurómaði ímyndun um að á Íslandi væri allt í sóma. Að fólk græddi á daginn og grillaði á kvöldin. Alhæfing Ásgeirs fáeinum sekúndum fyrir hrun fjármálamarkaða um að betri tíð með blóm í haga væri í vændum er síðan skráð með feitu letri í samtíðarsögu landsins.

Það var einnig þekkt, þegar Ásgeir leiddi hagdeild Kaupþing banka, að ýmsar greiningar og spár frá honum áttu enga stoð í raunheimi. Þær voru hluti af fjölskrúðugum áróðri um að Ísland væri langbest í veröldinni. Og að íslenskir bankar væru öðrum bönkum fremri. Kaupþing banki fannst ekkert ráðlegra en að fá Monty Python stjörnuna John Cleese til að auglýsa að hjá Kaupþing væru menn snöggir að taka ákvarðanir með ullarvettling um hönd.

Gæði ákvarðana var aukaatriði enda kom á daginn að bankinn var holur að innan eins og skolprör. Markaðsvirði Kaupþings banka var falskt skráð með kaupum á eigin bréfum í gegnum siðlausa trúðaleppi eins og dómar staðfesta. Lausafjárstöðunni var síðan haldið uppi með auknum lántökum erlendis með yfirboðum á vaxtakjörum. Spilað var á innistæðueigendur, sem höfðu það hlutverk að hámarka arðsemina miðað við gefna áhættu. Samhliða jókst áhætta bankans hröðum skrefum án þess að hið gagnslausa Fjármálaeftirlit undir stjórn Jónasar Fr. Jónssonar gripi inn í. Blekkingarleikurinn var vel rómaður af ráðafólki því ofurmenni eins og Ásgeir voru lykilstjórnendur hjá bankanum. Saklaust fólk sat aftur á móti eftir sviðið innan að kviku.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Aðilum sem vöruðu við ástandinu var bent á af kúlulánadrottningunni Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að verða sér út um endurmenntun.

Aðilum sem vöruðu við ástandinu var bent á af kúlulánadrottningunni Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að verða sér út um endurmenntun. Dýralæknirinn Árni Mathiesen og þáverandi fjármálaráðherra sagði svo í ræðustól Alþingis að gagnrýnendur kæmu ekki auga á veisluna og ættu að hætta öfundinni.

Kúlulánadrottningin þurfti aldrei að bera ábyrgð á milljarðaláninu. Dýralæknirinn seldi sín stofnbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar á grundvelli innherja upplýsinga, ef ég man rétt, og komst undan fjártjóni. Alveg eins og Össur Skarphéðinsson, sem átti bréf í SPRON. Öll voru þau með innanbúðartengsl og því gott aðgengi að upplýsingum, sem ekki voru komnar fyrir almenningssjónir!

Frægasti meðspilari Ásgeirs í lúðrasveitinni er auðvitað Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti. Hann sagði útrásarvíkingana snjallari en aðra tvífætlinga. Frómt er þegar hann meitlaði eftirfarandi orð í stein á erlendri grundu „you ain´t seen nothing yet“. Að þessu sögðu flaug forsetinn heim í þotu bankasnillinganna og sötraði Champagne. Þetta reyndust orð að sönnu, en með öfugum formerkjum. Ímyndanir Ólafs Ragnars og Ásgeirs voru nefnilega ekkert annað en dónalegur skáldskapur. Það er því ekki að undra að báðir hafa tekið upp á því að rita skáldlegar sögur í seinni tíð. Það fer báðum vel enda fær ímyndunarveikin útrás við skriftirnar.

Frá seðlabankastjóra koma reglulega frumsamdar skrýtlur, sem atar orðspor bankans auri.

Staða seðlabankastjóra er þó alvarlegri enda er skáldavefur hans spunninn upp í Svörtuloftum Seðlabankans á meðan forsetinn fyrrverandi blekar sín skrif á eigin kostnað og ábyrgð. Frá seðlabankastjóra koma reglulega frumsamdar skrýtlur, sem atar orðspor bankans auri. Hlægilegastur er brandarinn að stolnir textar og sögulegar túlkanir seðlabankastjóra um landnám Íslands séu hans eigin hugarsmíð. Í hans hliðarveröld þá má vera að þetta sé satt, en ekki í raunheimi eins og hefur verið staðfest af tveimur hlutlausum prófessorum.

Eitt af fyrstu verkum Ásgeirs, sem seðlabankastjóri, var að græðgisvæða kórónuveirufaraldurinn snemma árs árið 2020. Honum rann blóðið til skyldunnar enda alinn upp við vettlingatök græðginnar hjá Kaupþingi. Hann stóð hreykinn að ákvörðun, með einu pennastriki, sem jók útlánagetu banka um 12 prósent án þess að setja fjárgirðingar um féð. Hann kom síðan fram í fjölmiðlum þar sem hann sagði að ákvörðuninni væri ætlað að örva fasteigna- og byggingamarkaðinn. Samhliða var stýrivöxtum landsins húrrað niður í sögulegt lágmark. Ásgeir fullyrti síðan í fjölmiðlum að lágir vextir væru komnir til að vera. Miðjan varaði við háskaleik Ásgeirs. Það sem í vændum var gat ekki dulist neinum, nema þeim sem ávallt eru með slæðu fyrir öllum skilningarvitum, að græðgisvæðingin myndi enda illa.

Er nú svo komið að uppsöfnuð verðbólga á Íslandi frá upphafi umrædds faraldurs er miklu meiri á Íslandi en allt í kringum okkur. Að leita víðar bætir ekki samanburðinn. Fullyrðingin um að lágir vextir væru komnir til að vera er hrunin með braki og bresti. Þeir eru hvergi hærri en hér á landi meðal þróaðra hagkerfa. Mörg heimili og fyrirtæki létu blekkjast af Ásgeir því fólk vildi geta treyst Seðlabankanum. Hinir sömu mara nú í hálfu kafi í drekkjandi skulda- og afborgunarsúpu seðlabankastjóra. Blóðug skuldaólin þrengir æ harðar að barka skuldara á meðan græðgisöflin drekka freyðandibleikt kampavínið. Almúginn stritar fyrir gírugan aðalinn með blessun frá Katrínu og Ásgeiri, kramartvennunni.

Þetta er eins og að biðja brennuvarg að slökkva eld, sem hann sjálfur kveikti.

Nú þegar hið fyrirséða nær loks augum og eyrum forsætisráðherra þá dettur Katrínu ekki í hug að axla ábyrgð á skipun Ásgeirs enda haldin mótþróaröskun að eigin sögn. Hún velur frekar að höggva í sama knérunni og boðar auknar álögur á almenning og fyrirtæki. Kafa á dýpra í pyngjuna í álfatrú um að það slái á verðbólguna. Boðuð úrræði eru röng þegar mið er tekið af rót verðbólgunnar. Aðgerðirnar munu aftur á móti kynda undir aukna bólgu að öllu öðru óbreyttu. Aðilum verður þröngvað í að spæna upp sparnaðinn þar sem hann er að finna. Eða þar til fólk sér svart vegna andnauðar.

Yfirlýsing ráðherra um að væntanlegt fjárlagafrumvarp aðstoði seðlabankastjóra í að ná verðbólgunni niður úr veldisstiganum er sama flónskan og kemur reglulega frá Ásgeiri seðlabankastjóra. Þetta er eins og að biðja brennuvarg að slökkva eld, sem hann sjálfur kveikti. Hegðun af þessum toga er kölluð meðvirkni og afneitun á eigin misgjörðum.

Hryggilegt er til þess að hugsa að landinu er stjórnað í álfatrú fólks sem axlar aldrei ábyrgð á eigin axarsköftum. Katrín Jak reynist nú þjóðinni dýrkeypt og ætti að sjá sóma sinn í að halda sig við ritun skáldsagna í framtíðinni, sem ku vera hennar nýjasta iðja. Væri hún þá komin í félagsskap með tveimur þjóðþekktum áhrifamönnum, sem dvelja ekki alltaf í raunheimi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: