- Advertisement -

Álfheiður Ingadóttir þá og nú

Jóhann Þorvarðarson:

Ég kalla eftir umræðu um þróun mála hjá Landsvirkjun og svarað verði hvernig það getur átt sér stað að lykilstarfsfólk og stjórn gangi um þjóðareignina eins og um einkaeign sé að ræða. Að lokum legg ég til að Vinstri græn kalli sig Hægri græn, nafnið er á lausu.  

Hvorki hósti né stuna heyrist frá Álfheiði Ingadóttur fyrrum þingmanni Vinstri grænna varðandi spillinguna sem hertekið hefur Landsvirkjun, en hún situr í stjórn orkurisans fyrir hönd VG og er því þátttakandi í stefnumótun fyrirtækisins. Sem slík þá ber hún beina ábyrgð á útvistun á sölu heildsölurafmagns og að fyrir valinu sé sérstakur vildarvinur Sjálfstæðisflokksins. Þetta gæti útskýrt grafarþögn Álfhildar.

Þegar grannt er skoðað þá er ekkert annað í gangi hjá ráðafólki innan Landsvirkjunar en að keyra í gegn fullþroskaða einkavinavæðingu í sölu heildsölurafmagns í eigu Landsvirkjunar. Gjörningurinn er settur í söluvænar umbúðir gagnvart landsmönnum um að í gangi sé nýsköpun og þróun. Alþjóð áttar sig vonandi yfirdrepshættinum, hræsninni.

Í þessu sambandi þá er ágætt að rifja hana Álfheiði, og Vinstri græn, aðeins upp því í  september árið 2008 þá hafði þingmaðurinn Álfheiður sig mikið í frammi á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn var djúpt sokkinn í einkavæðingu á heilbrigðiskerfinu og í gangi var tilraun til að gera kerfisbreytingar á Sjúkratryggingum sem auðvelda myndi þá þróun. Við það tilefni þá sagði Álfheiður Ingadóttir orðrétt beint úr ræðustól Alþingis „Tilgangurinn er alveg augljós og menn eru að pakka þessu inn í söluvænar umbúðir gagnvart almenningi“. Sem sagt, 15 árum síðar þá er þessi sama manneskja og Vinstri græn orðin samdauna uppgerðarsiðseminni og einkavinavæðingu Sjálfstæðisflokksins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Umpólunin minnir mig á tvo fyrrum forseta Bandaríkjanna, Ronald Reagan og Donald Trump, sem þóttust vera demókratar eða þar til að þeir föttuðu að þeir gætu persónulega grætt meira á því að boða gervimennsku með því að ganga í lið með villta hægrinu. Það sem verra er við framgöngu Álfheiðar í dag en Sjálfstæðisflokksins fyrir 15 árum er sú staðreynd að engin pólitísk umræða hefur farið fram um það hvort einkavæða eigi Landsvirkjun eða hluta hennar. Afar lítill hópur stjórnarmanna og lykilstarfsmanna Landsvirkjunar makkar nú með framtíð þessa fjöreggs þjóðarinnar.

Ég kalla eftir umræðu um þróun mála hjá Landsvirkjun og svarað verði hvernig það getur átt sér stað að lykilstarfsfólk og stjórn gangi um þjóðareignina eins og um einkaeign sé að ræða. Að lokum legg ég til að Vinstri græn kalli sig Hægri græn, nafnið er á lausu.  


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: