- Advertisement -

Almannavörnum fórnað með stæl

Þetta er rándýr blekkingarleikur um leið og verið er að leika sér með almannavarnir landsins.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Gjaldeyrisvarasjóðir landa sem eru mjög háð utanríkisviðskiptum hafa það eina hlutverk að tryggja greiðslur fyrir innfluttar lífsnauðsynjar á tímum markaðsbrests af ýmsum toga. Sjóðirnir eru almannavörn fyrir vel smurð utanríkisviðskipti á tímum óvissu og truflana. Á Íslandi þá hefur varasjóðurinn verið misnotaður í þeim tilgangi að trufla frjálsa verðmyndun krónunnar á markaði með reglubundnum inngripum. Um leið er verið að blekkja þjóðina að litla Ísland geti rekið eigið myntkerfi með farsælum hætti. Aldargömul hagsagan sýnir að almenningur hefur greitt fyrir krónudekrið dýrum dómi í formi mikils framfærslukostnaðar, langra vinnudaga og hagstjórnaraðgerða sem eru skemmandi. Um leið er forðinn nýttur til að styðja við pólítískar ranghugmyndir að krónan sé besti kosturinn í efnahagslega tilliti.  

Nú ætlar Seðlabankinn, með þöglu samþykki ríkisstjórnar Katrínu Jak, að bæta um betur. Samhliða inngripum á gjaldeyrismarkað þá verður járnhliðinu að hirslum varasjóðsins galopnað og lífeyrissjóðum boðið að kaup 240 milljónir evra fram til áramóta eða 40 milljarða króna. Verið er að búa til einskonar hliðarmarkað við gjaldeyrismarkaðinn. Sem sagt, allt er reynt til að falsa verðgildi krónunnar. Um leið er verið að forðast eina árangursríka úrræðið, sem er að taka krónuna tímabundið af markaði á þessum fordæmalausu tímum. Þetta er rándýr blekkingarleikur um leið og verið er að leika sér með almannavarnir landsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef halda á þessum skollaleik gangandi þá verður erlend seðlaeign Seðlabankans uppurin eftir 16 mánuði eða um áramótin 2021 og 2022.

Sú aðgerð að opna hliðarmarkað fyrir lífeyrissjóðina nemur 25 prósent af erlendri seðlaeign bankans. Úrræðið endurspeglar algjöra afneitun á stöðu mála. Á þeim 6 mánuðum sem lífeyrissjóðir landsins hafa haldið að sér höndum þá hefur byggst upp uppistöðulón af óuppfylltri erlendri fjárfestingarþörf sjóðanna. Hún gæti reynst vera orðin 60 milljarðar króna. Þannig að 40 milljarða innspýting frá Seðlabankanum gæti dugað skammt. Aðalatriðið er þó það að nú á að ganga hratt á varasjóð þjóðarinnar og minnka efnahagslegar almannavarnir. Ef halda á þessum skollaleik gangandi þá verður erlend seðlaeign Seðlabankans uppurin eftir 16 mánuði eða um áramótin 2021 og 2022.

Réttlæting seðlabankastjóra er að um leið og ferðatakmörkunum verður aflétt þá verði allt eins og það var. Svona eins og hendi sé veifað af almættinu. Samkvæmt því sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin segir þá eru litlar líkur á að búið verði að þróa traust og öruggt bóluefni gegn Covid-19 fyrir árslok 2021. Þegar efnahagslegir öryggisventlar eru teknir úr sambandi þá kallar það á aðkomu Alþingis. Það gengur ekki að ólýðræðiskjörinn seðlabankastjóri geti tekið svona mikilsverða ákvörðun einsamall!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: