- Advertisement -

Alvarleg Moggakrísa

Dauðaþögn er það eina sem Andrés og Mogginn hafa núna til málanna að leggja.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ekkert hefur heyrst frá leigupenna Moggans Andrési Magnússyni varðandi það hvað bólusetning gengur vel. Fyrr ekki löngu þá var hann duglegur að skálda upp óeiningu innan Evrópusambandsins (ES) sem átti víst að standa í vegi fyrir árangri á þessu sviði. Andrés, og þar með Mogginn, vildi að Ísland drægi sig út úr öllu samfloti með ES. Sigli eitt sinn sjó.

Glimrandi gangur er aftur á móti í allri bólusetningu. Nú er svo komið að Ísland skipar sér í allra fremstu röð á heimsvísu hvað hlutfall bólusettra varðar. Þökk sé samstarfinu við ES. Við höfum meira að segja tekið fram úr Bandaríkjunum, sem bæði bönnuðu útflutning á bóluefnum og hömstruðu langt umfram þarfir. Dauðaþögn er það eina sem Andrés og Mogginn hafa núna til málanna að leggja. Annar leigupenni deildi skoðunum með Andrési og Morgunblaðinu. Það er Hörður Ægisson á Fréttablaðinu. Hann skrifaði leiðara á þessum nótum, var með niðurrif. Reyndi að skapa glundroða. Leitt er að aðilarnir geta ekki samglaðst landanum. En það er víst réttur allra að fá að vera fúll á móti, rífa allt niður.

Andrés gefst samt ekki upp á neikvæðninni og niðurrifinu. Hefur fundið nýjan ímyndaðan óvin til að atast í. Nú er það 17 manna hópur alþjóðlegra vísindamanna á vegum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO), sem eiga  víst af vera af verri sortinni. Algjörir kjánar og skussar. Vísindamennirnir fengu það hlutverk að rannsaka hver væri uppruni kóvít-19 veirunnar (Sars-Co V-2). Byggt á vísindalegum rannsóknum, raðgreiningum, viðtölum við sjúklinga og fjölmörgum alþjóðlegum rannsóknum þá gáfu vísindamennirnir út 120 blaðsíðna skýrslu. Niðurstöður hennar eru í fjórum liðum:

  • Smit frá frumbera veirunnar (leðurblökur eða hreisturdýr) yfir í mannfólk mögulegt til líklegt.
  • Smit frá millihýsli til manna líkleg til mjög líkleg.
  • Smit frá kældri matvöru möguleg.
  • Smit vegna óhapps á rannsóknarstofu afar ólíklegt.

…gerir ekki lengur greinarmun á skáldskap og raunveruleika.

Í skýrslunni segir að greinst hafi tilvik, sem komið hafi upp nokkrum vikum áður en fyrsta veirusmitið kom upp í borginni Whuan í Kína. Segir síðan að það útiloki ekki að fyrsta smitið hafi mögulega komið upp utan Kína. Skýrslan endar síðan á að segja að rannsaka þurfi málin nánar. Þannig að hér er um frumniðurstöður að ræða. Rannsóknin var víðfeðm og dvöldu vísindamennirnir til dæmis í 12 daga hver í Kína. Eða samtals 204 daga (12×17 = 204 dagar). 

En hvað hafði Andrés og Morgunblaðið um málið að segja í föstudagsblaðinu: „Þessi 12 daga rannsókn fólst í því að hópurinn sat undir kynningum kínverskra kollega og framkvæmdi nákvæmlega engar rannsóknir sjálfur. Fékk engin gögn að skoða“. Andrés titlar sig blaðamann, en setur hér svartan blett á stéttina. Alvarlegra er þó að Morgunblaðið, sem sækist eftir því að verða ríkisrekið, gerir ekki lengur greinarmun á skáldskap og raunveruleika. Ef Andrés hefði lagt sig eftir því að lesa umrædda skýrslu þá hefði hann mögulega getað sagt rétt frá. Hann er í einhverjum öðrum og óæðri leiðangri.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: