
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Hér ræður miklu hvort vöruskorturinn leiði til hamsturs neytenda í heiminum og hversu langt Seðlabanki Íslands er tilbúinn að ganga í inngripum á gjaldeyrismarkaði.
Vöruskortur af einhverjum toga fer ekki fram hjá neinum. Sumir kjósa staðkvæmdarvörur í staðinn þar sem því er viðkomið. Þetta kemur til dæmis vel fram þegar reynt er að versla skófatnað á Amazon. Tegundin sem maður ætlar að kaupa er ekki til og sambærilega varan ekki heldur. Sömu sögu er að segja fari maður í verslun hér á landi. Alls staðar fær maður svör um að verslanir eigi í erfiðleikum með að birgja sig upp. Vita ekki hvenær tilteknar vörur eru væntanlegar. Vöntunin er einnig tilfinnanleg á íhlutum og iðnaðarefnum eins og umræðan um sementskort endurspeglar vel. Hér er ekki um séríslenskt ástand að ræða.
Samhliða skortinum þá er vöruverð í heiminum á uppleið. Ef litið er til hrávörumarkaðarins þá græðir Íslands á hækkandi álverði, en ekki á hækkunum annarra vara. Sem dæmi þá hefur verð á hveiti hækkað um 27 prósent síðan í byrjun júlí. Kopar hefur hækkað um 75 prósent frá mars á síðasta ári, en lítil verðlækkun varð vegna faraldursins. Sambærilega sögu er síðan að segja um sojabaunir sem hækkað hafa um 46 prósent frá maí á síðasta ári. Hækkun baunanna náði upp í 94 prósent í vor sem leið. Olía og gas hefur hækkað eins og bifreiðareigendur finna rækilega fyrir eða um 60 prósent frá verðinu eins og það var fyrir faraldurinn. Kaffilepjarar finna síðan einnig fyrir vöruverðshækkunum, en verð á kaffi hefur rokið upp um 124 prósent frá miðju ári 2020. Svona rekur þetta sig áfram og hefur CRB hrávöruverðsvísitalan hækkað um 54 prósent frá ársbyrjun.

Verðþróunin verður ekki einungis rakin til ójafnrar dreifingar bóluefna um heimsbyggðina. Veðuröfgar í vesturhluta Bandaríkjanna hafa til dæmis leitt af sér vatnsskort og uppskerubrest. Snjókoma í klettabeltum vesturhlutans láta á sér standa, en snjór og kaldara hitastig virkar eins og vatnsforðabúr sem skilar af sér vatni á undirlendið þegar snjóa tekur að leysa. Þetta kerfi hefur hikstað ásamt aukinni uppgufun lands. Samkvæmt „Palmer Drought“ þurrkvísitölunni þá er 40 prósent lands í þessum heimshluta að glíma við mikla þurrka samanber litskrúðuga myndin. Í Austur Asíu þá eru vandamálin öndverð og ofsaflóð skemma uppskeru.

Verðhækkanir á kaffi eru að miklu leyti raktar til frosthörku í fjöllum suð-austur Brasilíu um miðjan júlí í sumar. Talið er að allt að 30 prósent uppskerunnar hafi laskast, jafnvel 40 prósent ef eingöngu er litið til „arabic“ kaffibauna. Hörkurnar eru þær mestu síðan árið 1994, en þá hækkaði verð á kaffibaunum um tæplega 340 prósent. Ekki er víst að núverandi verðhækkanir hafi náð toppi sínum og mega kaffiunnendur vænta enn meiri verðhækkana því það getur tekið allt að tvö ár fyrir kaffiplöntuna að ná fyrra jafnvægi. Hækkandi flutningskostnaður vegna gámaskorts og afgreiðslutafa ýtir síðan enn frekar undir verðbólguna. Hrakningarnar enda svo sem ekki hér því verstu þurrkar í suð-austur Brasilíu í hartnær 100 ár hafa herjað á matvælaframleiðendur samanber brúnu dílarnir á seinni myndinni. Sambaþjóðin á virkilega í vök að verjast.
Áætlað er að um 12 prósent af flutningaskipum veraldar lóni úti fyrir höfnum víðs vegar um heiminn vegna kóvít-19 og strands „Ever Given“ í Súesskurði í mars síðastliðnum. Í Bandaríkjunum þá bætist við að erfiðlega gengur að ráða flutningabílstjóra til starfa. Ein af ástæðunum er að stéttin hefur elst og reyndir bílstjórar eru komnir á eftirlaun. Kjósa að snúa ekki aftur nema laun hækki, vilja aukna hlutdeild í hækkandi flutningsverði. Samningsstaða launþegahreyfinga þar vestra hefur styrkst undanfarið vegna skorts á vinnuafli í ýmsum greinum. Þannig að launadeilur bæta dökkgráu ofan á virkilega svarta mynd.
Samanlagt þá veldur þetta miklu álagi á virðis- og dreifikeðjur veraldar. Ástandið gæti auðveldlega varað fram til ársins 2023, jafnvel 2024. Sjálfur óttast ég að verðbólguspá mín um að ársbólgan fari í 5,5 prósent muni rætast. Ef múrinn fellur þá gæti 7 prósent bólga komið í heimsókn, flestum til ama nema bönkunum. Hér ræður miklu hvort vöruskorturinn leiði til hamsturs neytenda í heiminum og hversu langt Seðlabanki Íslands er tilbúinn að ganga í inngripum á gjaldeyrismarkaði. Hvað sem líður öllu þá eru áhugaverðir tímar fram undan hjá hagfræðingum. Framboðs- og eftirspurnarlínur munu skylmast af meiri þrótti en sést hefur um langa hríð enda tímarnir án hliðstæðu.