- Advertisement -

Anna Hrefna Ingimundardóttir sturtar úr steypubílnum

Mér er til efs að hún hefði sett sjónarmið sín fram ef hún væri ekki launaður starfsmaður SA.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Anna Hrefna hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins (SA) birti grein á heimasíðu samtakanna sem heitir Varasamur vítahringur. Sama dag þá birtist grein eftir sjálfan mig á Miðjunni sem heitir Ríkisstjórnin getur lært þetta af bandaríska þinginu! Daginn eftir þá var Anna Hrefna mætt í halelúja viðtal í Bítið hjá Bylgjunni. Ég og bandarísk stjórnvöld erum á öndverðum meiði við skoðanir Önnu Hrefnu og SA. Af þessum sökum þá tel ég ástæðu til að leiðrétta rangfærslur hagfræðings SA sem Bylgjan hleypti gagnrýnislaust út í loftið.

Anna Hrefna syngur kunnuglegan barlóm SA og étur skemmda lummu í leiðinni í grein sinni. Segir að það dragi úr hvata til atvinnuleitar ef atvinnuleysislaun eru mannsæmandi og í takt við lægri laun í landinu. Hún telur að það skapi aukið atvinnuleysi og dragi það á langinn. Hér snýr Anna Hrefna öllu á hvolf. Í Bandaríkjunum þá viðurkenna þingmenn að án eftirspurnar þá verða ekki til nein verðmæti. Það fundu hagkerfi heimsins illilega fyrir þegar lönd lokuðust. Bandaríska þingið greip einum rómi til tímabundinnar stórhækkunar atvinnuleysislauna vegna þess að hagkerfið varð fyrir eftirspurnaráfalli. Árangurinn er sá að atvinnuleysi hefur nú þegar lækkað um 29 prósent frá því það mældist mest við upphaf veirufaraldursins. Og það á örskömmum tíma. Áframhald verður á þessum hækkuðu atvinnuleysislaunum þó þær verði trappaðar aðeins niður. Bresk stjórnvöld og fleiri eru að átta sig á þessu og hafa gripið til aðgerða til að örva eftirspurnina með því að bæta lausafjárstöðu atvinnulausra. Þær áhyggjur Önnu Hrefnu að fólk vilji vera atvinnulaust vegna þess að atvinnuleysislaun séu á við laun í neðri kantinum eru óþarfar. Það er stjórnunaráskorun að svo verði ekki. Síðan er það svo að það er í eðli manna að vilja vinna. Annað rústar sjálfsmynd manna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Anna Hrefna ruglar saman orsök og afleiðingu.

Ef ekki er gripið til myndarlegra aðgerða á eftirspurnarhlið hagkerfisins þá mun landsframleiðsla hrapa nokkur ár í röð og atvinnuleysi vera hátt og viðvarandi öfugt við það sem Anna Hrefna heldur fram. Árangurinn í Bandaríkjunum staðfestir þetta! Aðgerðarleysi eða hálfkák á eftirspusnarhliðinni mun viðhalda niðursveifluspíralnum sem getur orðið óviðráðanlegur. Þetta vissu þingmenn bandaríkjaþings og ákveðið var að snúa vörn í sókn með því að bæta lausafjárstöðu atvinnulausra. Þetta er aðgerð sem verður viðhaldið þar til efnahagsástandið fer að líkjast því sem það var fyrir veirufaraldurinn. Ef ekki verður gripið til aðgerða að hætti Bandaríkjamanna þá mun álagið á ríkissjóð og heilbrigðiskerfið verða geipilegt. Það er þekkt staðreynd að langdregið atvinnuleysi dregur heilsu fólks niður.

Anna Hrefna ruglar saman orsök og afleiðingu í þessu öllu enda er hún að halda úti áróðri sem önnur lönd afþakka pent, líka Bandaríkin sem er mekka kapítalískrar hugsunar. Mér er til efs að hún hefði sett sjónarmið sín fram ef hún væri ekki launaður starfsmaður SA. Því miður þá hefur hún gjaldfellt eigin trúverðugleika til að forðast sjálf atvinnumissi.

Anna Hrefna birti súlurit með grein sinni sem á að sýna ráðstöfunartekjur láglaunamanns í dollurum mælt eftir atvinnumissi hér á Íslandi og hjá öðrum löndum OECD. Hún dregur síðan þá ályktun að Ísland standi sig vel og sé í sjötta sæti af þrjátíu og fjórum sætum. Súluritið er fyrir árið 2019, en krónan hefur veikst um 14 prósent gagnvart dollar frá árslokum 2019 þegar þessi orð eru rituð. Lönd sem eru í sætum fyrir neðan Ísland eins og til dæmis Ástralía, Noregur, Bretland, Þýskaland, Finnland, Svíþjóð, Japan, Kanada, Frakkland og Nýja Sjáland eru með gjaldmiðla sem hafa sótt í sig veðrið gagnvart dalnum eða haldið stöðu sinn ágætlega. Ef við leiðréttum fyrir þessu þá situr Ísland undir miðjunni á listanum og er kominn í félagsskap landa sem við viljum ekki bera okkur saman við.  Upplýsingarnar sem Anna Hrefna og SA tala út frá eru úreltar og eiga ekki erindi inn í umræðu dagsins.

Að lokum þá hefur gengi krónunnar ekki verið rétt skráð í mörg ár.

Ef Anna Hrefna og SA vilja gera trúverðugan samanburð á ráðstöfunartekjum láglaunafólks í atvinnuleysi eftir löndum þá verður að skoða stöðuna eins og hún er í dag, en ekki í fortíðinni. Engin lifir á kaupmætti fortíðarinnar á sama hátt og að engin lifir á prósentuhækkunum. Svo er það hitt að þegar OECD umbreytir ráðstöfunartekjum landa yfir í dollara samkvæmt einhverju kaupmáttar jafnvægisgengi þá er það meira til brúks í hinum fræðilega heimi. Almenningur lifir aftur á móti við gengi krónunnar eins og það er hverju sinni. Að lokum þá hefur gengi krónunnar ekki verið rétt skráð í mörg ár sem spilar inn í þetta uppdiktaða kaupmáttar jafnvægisgengi. Krónunni er handstýrt, en sá dagur kemur að erlendir aðilar munu ekki fallast á slíkt og þá mun þetta súlurit sem SA horfir á líta öðruvísi og ver út.

Sérstök áskorun til SA og ASÍ

Ég hvet SA og ASÍ að athuga hvað hægt er að kaupa fyrir laun í atvinnuleysi hér heima og bera saman við innkaupakörfurnar erlendis. Þá fyrst getum við talað um mun á kaupmætti milli landa. Í þeim samanburði skulum við nota gengi krónunnar eins og það er í dag, en ekki í fortíðinni. Sigurjón Egilsson blaðamaður hefur verið duglegur að gera verðsamanburð milli Íslands og Spánar og niðurstaðan er sláandi. Það er nefnilega ekki án ástæðu sem svo margir Íslendingar kjósa að búa á Spáni án veiru!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: