
Jóhann Þorvarðarson:
Að endingu klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn eftir að hulunni var að hluta til aflétt af leyndinni, en ekki mátti miklu muna að illa færi.
Óhróður Sjálfstæðismanna í garð Reykjavíkur versnandi fer, dag frá degi. Er nú svo komið að maður er hættur að vorkenna fólkinu sem er í forsvari flokksins. Málatilbúnaðurinn er mjög neikvæður, ýktur eða jafnvel hreinn skáldskapur. Og líkist talsmátinn æ meira tali hins landsþekkta sinubrunakóngs, Eyþórs Arnalds.
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, Hildur Björnsdóttir, hefur nú tekið persónulega forystu um að halda sinubruna Eyþórs gangandi og spýr moðreyk yfir borgarbúa. Yfir fólkið sem greiðir henni laun. Nýjasta útspil hennar kom fram í þættinum Sprengisandi um liðna helgi, en þar fullyrti hún að þegar Einar Þorsteinsson tæki við af Degi B. Eggertssyni að þá yrði hann ekki borgarstjóri heldur skiptastjóri. Sem sagt, Reykjavík er að mati Hildur gjaldþrota þegar staðreyndin er að fjárhagsstaðan er afar sterk til lengri tíma litið.
Þegar horft er á sjóðstreymismyndun borgarinnar þá mun tímabundinn vandi þar vegna kóvít-19 ekki ná því að verða neðanmálsgrein í fjárhagssögu borgarinnar. Hvað eignastöðu borgarinnar varðar þá er hún sterk enda horfa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins löngunaraugum til þess að einkavinavæða mjólkurkýrnar samanber til dæmis REI málið forðum.
Jóhann:
Tvöfeldni getur vart orðið skírari og einkennir því miður ýmsa forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins.
Þá var reynt að spyrða eignir, orðspor, uppfinningar og vörumerki OR við óprúttna óreiðumenn, sem kallaðir eru útrásarvíkingar. REI átti að fá einkaréttarsamning til 20 ára um erlend verkefni OR og frjálsan aðgang að starfsmönnum hennar fyrir lítið sem ekkert endurgjald. Þetta var tilraun til að einkavinavæða hluta veitunnar í skjóli nætur án þess að kalla gjörninginn réttu nafni. Allt var keyrt áfram á leifturhraða og af mikilli leyndarhyggju. Að endingu klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn eftir að hulunni var að hluta til aflétt af leyndinni, en ekki mátti miklu muna að illa færi.
Í dag þá beinist áhugi Hildar Björnsdóttur að einkavæðingu skóla, orku- og vatnsinnviða og ljósleiðara. Koma á síðan tengdum aðilum á leigutekjuspena borgarinnar. Hér er á ferðinni sama taktík og sjálfstæðismaðurinn Halldór Benjamín Þorbergsson notar, en hann hefur ástundað þann ósið að rægja allan opinberan rekstur niður. Samt er staðan hjá honum í dag sú að hann á sína afkomu undir leigugreiðslum frá hinu opinbera enda hefur hann ráðið sig til starfa hjá fasteignafélaginu Reginn. Fyrirtækið væri gjaldþrota án leigugreiðslna frá hinu opinbera. Tvöfeldni getur vart orðið skírari og einkennir því miður ýmsa forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins.