- Advertisement -

Annað Íslandsbanka hneyksli í farvatninu

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Að ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum er ávísun á annað Íslandsbanka hneyksli því flokkurinn stendur fyrir þjófræði.

Kjartan Magnússon, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, er haldinn slæmri þráhyggju sem er svo svæsin að hann hikaði ekki við að misnota ræðustól Alþingis á dögunum þegar hann kom þangað inn sem varaþingmaður. Spurði innviðaráðherra hvort ráðuneytið hafi séð tilefni til að skoða fjármál borgarinnar. Með fyrirspurn sinni þá var Kjartan að gefa enn og aftur í skyn að fjármál borgarinnar væru ekki í lagi. Svar er komið og hefur ráðuneytið ekki séð neitt tilefni enda fjárhagsstaða borgarinnar sterk. Og mun sterkari en hjá sveitarfélögum, sem er stjórnað af Sjálfstæðisflokknum, hér á höfuðborgarsvæðinu.

Kjartan lætur ekki segjast og skrifar hraklega grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann segir að fjárhagsstaða borgarinnar sé feigðarflan. Hann færir engin rök fyrir fullyrðingu sinni heldur skellir tómri þvælu fram um leið og hann opinberar ólæsi sitt á ársreikning borgarinnar. Hann segir til dæmis að skuldahlutfall samstæðu borgarinnar hafi aukist um 202% milli áranna 2021 og 2020, samanber mynd með greininni, þegar nýútkomin ársreikningur segir okkur að hlutfallið hafi lækkað í fyrra úr 53,1% í 51,5%.

Síðan segir Kjartan að borgarstjóri grípi til bókhaldsbragðs til að fegra rekstrarreikninginn með því að endurmeta virði eigna Félagsbústaða og færa til tekna. Hér er meiriháttar misskilningur á ferðinni hjá Kjartani enda hefur borgarstjóri ekkert með þetta endurmat að gera. Eins og landsmenn vita þá hefur virði fasteigna í landinu rokið upp á umliðnum misserum og ber löggiltum endurskoðendum borgarinnar að sýna virðisaukann í ársreikningi þegar fyrir liggur að hægt er að mæla hann og góð vissa ríkir um matið. Þetta er í samræmi við viðurkennda og alþjóðlega reikningsskilastaðla. Öðruvísi eru reikningarnir óglöggir og myndast þá dulinn varasjóður, sem lesandi reikninganna getur ekki áttað sig á. Það væri hentugt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem vill einkavæða Félagsbústaði og selja vildarvinum á undirverði eins og gert var með Íslandsbanka.

Ólæsi Kjartans er svo alvarlegt…

Að færa virðisaukninguna í gegnum rekstrarreikning er einnig í samræmi við góða reikningsskilavenju. Borgarstjóri ræður hér heldur engu enda ber löggiltum endurskoðendum að fara eftir viðurkenndum stöðlum ellegar sæta refsiábyrgð víki þeir frá viðurkenndum aðferðum. Kjartan gleymir síðan að segja frá því að virðisbreytingin er ekki færð inn í meginhluta rekstrarreiknings heldur fyrir neðan meginmálið, sem geymir daglegar rekstrartölur. Þannig að hér er óskyldum hlutum ekki ruglað saman.

Ólæsi Kjartans er svo alvarlegt að hann fullyrðir ranglega að án virðismatsins þá væri samstæða borgarinnar rekin með tapi. Hið rétta er að án matsins þá var 8 milljarða króna hagnaður á samstæðu borgarinnar þrátt fyrir að áhrif kóvíd-19 veirunnar hafi verið umtalsverð. Að ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum er ávísun á annað Íslandsbanka hneyksli því flokkurinn stendur fyrir þjófræði. Dulinn varasjóður myndi hjálpa þar til og því er stórlega varasamt að koma flokknum til valda í borginni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: