- Advertisement -

Annar fékk á lúðurinn á meðan hinn sleppur

Jóhann Þorvarðarson:

Hlutdeild Ásgeirs í ábyrgð á fjármálahruninu liggur fyrir og því hefði forsætisráðherra aldrei átt að skipa hann þó ekki væri nema af siðferðislegum ástæðum.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson fékk á lúðurinn þegar hann var staðinn að textahnupli úr verkum Halldórs Laxness. Fræðasamfélag Háskóla Íslands gekk af göflunum og lýsti vanþóknun á framferðinu. Áður en upp um stuldinn komst þá var Hannes þá þegar litinn hornauga innan skólans, ef marka má fjölmiðla. Hann hefur ætíð verið utangarðs á sínum vinnustað alveg eins og Bergsveinn Birgisson er gagnvart aðlinum við Melavelli. Sumir innan skólans nýttu því tækifærið og börðu á Hannesi þegar upp komst um textastuldinn.

Framganga Hannesar var talin vega að orðspori skólans og trúverðugleika fræðastarfs skólans. Fór svo að Helga Kress var fengin til að fara ofan í saumana á málinu. Málið endaði með áminningu frá skólanum, sem mörgum þótti væg refsing. Erfingjar skáldsins höfðuðu dómsmál gegn Hannesi og vannst auðveldur sigur.  

Öðru máli gegnir nú um gripdeild Ásgeirs Jónssonar. Rektor og fræðasamfélagið grjótheldur kjafti eftir að upp komst um hugverkastuld seðlabankastjóra. Til að bera blak af framferði Ásgeirs þá tók rektor skólans, Jón Atli Benediktsson, á sig stóran krók til að kæfa málið niður. Byrjaði hann á því að kalla eftir lögfræðiáliti, en honum datt ekkert betra í hug en að hringja í samstarfsfélaga innan lögfræðideildar skólans í stað þess að óska eftir hlutlausu áliti frá utanaðkomandi aðila. Það var nefnilega búið að taka fyrir fram gefna ákvörðun um að bjarga Ásgeiri úr snörunni og því mátti ekki taka neina áhættu um að utanaðkomandi aðili kæmist að óþóknanlegri niðurstöðu. Tekið skal fram að hugverkastuldur er mun grófari þjófnaður en textastuldur, eðli málsins samkvæmt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Katrín er aftur á móti þekkt fyrir að færa siðferðisleg viðmið þjóðarinnar til hins verra.   

Lögfræðiálit vinnufélaga rektors var hlaðið fyrirvörum, sem rektor skautaði fram hjá. Í staðinn lýsti hann því yfir við siðanefnd skólans að þar sem Ásgeir væri í fríi frá störfum þá næði landhelgi nefndarinnar ekki yfir seðlabankastjóra. Það skipti engu máli í augum skólans að Ásgeir vann að bókinni þegar hann var á launaskrá hjá háskólanum eins og fram kemur í bók Ásgeirs, Eyjan hans Ingólfs.

Samhliða krókaleiðum rektors þá var bróðir forsætisráðherra, Sverrir Jakobsson, duglegur að verja Ásgeir á opinberum vettvangi og smækka Bergsvein Birgisson. Siðanefndin sagði af sér eftir afskipti rektors og málið féll þá dautt niður. Tvískinnungur fræðasamfélagsins við Melavelli er dapur vitnisburður um að það skiptir máli hver ruplarinn er.

Persónulega þá tel ég að málið sé djúpstæðara því ef siðanefnd hefði fengið að fjalla efnislega um málið þá tel ég næsta víst að Ásgeir hefði tapað málinu. Sú niðurstaða hefði orðið alvarlegur áfellisdómur yfir dómgreind forsætisráðherra, sem skipaði Ásgeir í embætti seðlabankastjóra. Hlutdeild Ásgeirs í ábyrgð á fjármálahruninu liggur fyrir og því hefði forsætisráðherra aldrei átt að skipa hann þó ekki væri nema af siðferðislegum ástæðum. Katrín er aftur á móti þekkt fyrir að færa siðferðisleg viðmið þjóðarinnar til hins verra.   


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: