- Advertisement -

Arnar Þór er ógn við hagsæld og frelsi

Arnar Þór er haldinn villutrú að á Íslandi ríki lýðræðiskreppa vegna samningsins sem landið er aðila að af frjálsum og fúsum vilja.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Arnar Þór Jónsson viðrar reglulega ranghugmyndir sínar um alþjóðasamstarf. Tjáning sem gengur gegn almennri skynsemi og velferð Íslands í nútímanum. Hann sér drauga og ræningja í öllum hornum þegar kemur að alþjóða samstarfi. Þar talar hann mest, jafnvel eingöngu, um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Samningur sem fært hefur Ísland einstaka hagsæld á heimsvísu. Arnar Þór er haldinn villutrú að á Íslandi ríki lýðræðiskreppa vegna samningsins sem landið er aðila að af frjálsum og fúsum vilja.

Aðildin hefur fært fólki á öllum aldursskeiðum mýmörg tækifæri til að sækja sér menntun, þroska, afþreyingu og lífsviðurværi hindrunarlaust hjá aðildarlöndum EES. Enginn þarf lengur að eiga neitt undir skömmtunarkerfi sem var við lýði á Íslandi fyrir daga EES. Íslensk fyrirtæki hafa einnig hindrunarlausan aðgang að verðmætasta markaðssvæði veraldar. Nýsköpunarfyrirtækjum hefur síðan vegnað vel að fá rannsóknarfé úr sameiginlegum sjóðum innan EES. Íslenskir neytendur njóta góðs af í formi lægra vöruverðs og fjölbreyttara vöruframboðs. Allt þetta stendur Íslandi til boða vegna þess að landið virkjaði og styrkti fullveldi sitt með því að gerast aðili að EES.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vanþekking Arnars Þórs þvælist samt ekki fyrir honum.

Arnar Þór talar um að hagsmunagæsla Íslands gagnvart EES sé ekki í lagi og að eitthvað óskilgreint ríkisframsal hafi átt sér stað. Þarna talar hann niður til Alþingis og þeirra sem starfa að þeim málum að móta lagafrumvörp sem fara fyrir Evrópuþingið. Með óhaldbærum yfirlýsingum í þessa veru þá stendur hann allsber gagnvart því ferli sem mótar lagafrumvörp sem verða að lögum innan EES. Vanþekking Arnars Þórs þvælist samt ekki fyrir honum. Honum finnst mikilvægt að skella fram þvælu sem ekki getur haft annan tilgang en að skapa glundroða. Ala á óánægju meðal þeirra sem vita minna en hann sjálfur um efnið. 

Ein af vitleysunum sem Arnar er þjakaður af varðar fallvötnin. Hann trúir því að erlendir aðilar geti bara lagt sæstreng um landgrunn eyjunnar og krafist aðgangs að raforkukerfinu. Þar sem Ísland er ekki aðili að orkumarkaði EES ber landinu engin skylda til að tengjast markaðnum með sæstreng. Það sama á við um íslenska fisksala. Þeim ber ekki skylda til að selja fisk til EES landa, en gera það vegna nálægðar og góðra kjara.

Allt landgrunn í landhelgi Íslands fellur utan við EES samninginn. Orkupakkinn breytir þar engu. Nýting á landgrunninu er alfarið á forræði Íslendinga og er hluti af fullveldisrétti þjóðarinnar. Afsal á nýtingu grunnsins að hluta eða öllu er á herðum Alþingis og forseta landsins samkvæmt stjórnarskrá Íslands.

Ég vona að honum muni ganga vel því það mun reyta fylgið af flokknum í næstu Alþingiskosningum.

EES samningurinn og þar með orkupakkinn felur ekki í sér skerðingu á fullveldinu. Alþjóðasamningar sem Íslendingar eiga aðild að styrkja aftur á móti fullveldið. Með alþjóðasamningum þá er verið að beita fullveldisréttinum en ekki skerða réttinn. Þetta hafa alþjóðadómstólar ítrekað staðfest. Fjas um fullveldisskerðingu og ríkisframsal á ekki erindi. Í öllu þessu samhengi þá er ágætt að rifja upp hvað staða smáþjóða er sterk innan EES og Evrópusambandsins. Árið 2019 þá kláraði samninganefnd Evrópusambandsins viðskiptasamning við samtök Suður Ameríku ríkja, Mercosur ríki. Alþingi Austurríkis hafnaði samningnum á grundvelli umhverfissjónarmiða og þar með hefur samningurinn ekki öðlast gildi.

Arnar Þór hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum. Ég vona að honum muni ganga vel því það mun reyta fylgið af flokknum í næstu Alþingiskosningum. Fáir deila skoðunum með Arnari nema nokkrar afturhaldsgöngur sem stunda skylmingar við vindmyllur.     


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: