- Advertisement -

Ásthildur Lóa og Ragnar Þór í ógöngum

Jóhann Þorvarðarson:

Það er ígildi þess að afnema skyldusparnað og það hefur ollið mikilli verðbólgu um veröldina. Hugmyndin tvímenninganna um þvingaðan sparnað er andvana fædd.

Frægt er þegar Flokkur fólksins með Ásthildi Lóu í broddi fylkingar lagði fram glórulaust frumvarp um að afnema húsnæðisliðinn úr verðbólgumælingum. Endaði frumvarpið að lokum í pappírstætara Alþingis. Fengi slík hugmynd brautargengi þá myndi það hafa alvarlegar afleiðingar á hagstjórn landsins, sem er nógu slæm fyrir. Verðbólgumælingar yrðu falskar og verðbólguvandanum sópað undir teppið. Að lokum yrði bungan svo stór að landsmenn myndu hrasa um með skelfilegum afleiðingum.

Nú stígur Ásthildur Lóa Þórsdóttir aftur fram og nú í samstarfi við hinn vængbrotna Ragnar Þór Ingólfsson formann Verslunarmannafélagsins. Bæði vilja taka upp þvingaðan sparnað, sem þau kalla skyldusparnað. Telja þau að það leysi vanda lágt launaðra skuldara á tímum hömlulausrar verðbólgu. Svo yrði alls ekki. Viðbótar lífeyrissparnaður breytti til dæmis engu varðandi hegðun verðbólgunnar þegar hann var tekinn upp.

Láglaunafólk er síst af öllum í aðstöðu til að spara og ef það býr yfir sparnaðarmöguleika þá er farsælast að fólkið finni það hjá sjálfum sér að auka sinn sparnað og þá er hægt að greiða húsnæðislánin hraðar niður. Í því felst aukinn sparnaður. Hugmynd tvímenninganna er ráðstjórnarleg og við vitum hvert slíkt ráðríki leiðir okkur. Einnig er að þegar afnám skyldusparnað tæki við að þá myndi það út af fyrir sig leiða af sér verðbólgusprengju, sjá neðar. Þannig að heilt yfir þá ávinnst ekkert, en óstöðugleiki myndi aukast.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hún er verðbólguvaldur…

Því miður þá forðast tvímenningarnir að ræða rót vandans sem að hluta til er íslenska krónan. Hún er verðbólguvaldur þegar litið er yfir löng tímabil vegna áhættunnar og sveiflunnar sem hún þykir bera í sér. Ávöxtunarkrafa innlendrar fjárfestinga er hærri fyrir vikið og sá kostnaður endar í verðlaginu. Það var því hryggilegt að heyra að þau ræða aldrei að taka upp evruna. Danska krónan er bundin með rembihnút við evruna og þar í landi eru stýrivextir 2,6 prósent á meðan þeir eru 7,5 prósent á Íslandi. Finnar eru innan Evrópusambandsins og með evru. Þar eru stýrivextirnir 3,5 prósent.

Síðan er einkennilegt að lesa tillögu um skyldusparnað út frá því sjónarmiði að stór hluti uppsafnaðrar íslenskrar verðbólgu frá því í ágúst 2019 á rætur sínar að rekja til mistaka peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í mars 2020. Þau mistök leiðréttast ekki með því að taka upp þvingaðan sparnað. Og kostnaðarverðbólga á framboðshlið hagkerfisins á ekki rætur að rekja til vöntunar á íslenskum sparnaði. Nægir þar að nefna afleiðingar öfgaveðurs og nærtækt er að nefna verðhækkun á papriku, sem hefur verið í umræðunni. Þvingaður sparnaður myndi í engu draga úr öfgaveðri. Ekki frekar en að innrás Rússa í Úkraínu myndi snúast við ef tekinn yrði upp þvingaður sparnaður á Íslandi.

Síðan myndi þvingaður sparnaður í engu hafa breytt Kóvít-19. Í því samhengi þá er hægt að segja að landsmenn hafi verið nauðugir í aukinn sparnað því landinn var fastur í sóttkví heima hjá sér. Svo þegar frelsið kom aftur þá rauk eftirspurnin af stað, líka erlendis frá. Það er ígildi þess að afnema skyldusparnað og það hefur ollið mikilli verðbólgu um veröldina. Hugmyndin tvímenninganna um þvingaðan sparnað er andvana fædd.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: