- Advertisement -

Atvinnubann og misbeiting valds

Það er fátt sem kemur á óvart í nýrri bók Ólínar „Spegill fyrir Skuggabaldur – atvinnubann og misbeiting valds“.

Ég vil fullyrða að allir Íslendingar þekki dæmi um atvinnubann og misbeitingu valds, ef ekki persónulega þá frá nánasta umhverfi. Öll dæmin sem Ólína tekur fyrir þekkjum við – við höfum alltaf vitað af þessu. En það er gott að hafa þau öll núna fyrir framan okkur í einni bók. Ég tek ofan fyrir Ólínu – fyrir að þora. Nú er spurningin: hver tekur við keflinu og tekur á þessu grafalvarlega meini í okkar samfélagi, – ef ekki fulltrúar okkar á þingi?

Það er sama úr hvaða fagstétt fólk kemur: Sjómaður, listamaður, arkitekt, blaðamaður, fiskverkamaður, kennari eða fyrrverandi þingmaður,- allir geta lent í hakkavélinni – ef þeir gerast svo kræfir að opinbera skoðanir sínar sem „flokknum“ þóknast ekki.

Ég hef alla tíð vitað þetta og m.a.s. fundið fyrir því á eigin skinni – þótt ég sé bara dóttir stjórnmálamanns, sem „flokknum“ hefur staðið stuggur af. Bara að finna sumarvinnu sem unglingur, velti á velvild atvinnurekenda gagnvart Alþýðuflokknum – eða óvild. Atvinnutækifæri móður minnar veltu líka á því – eins og hún lýsir í nýútkominni bók sinni „Brosað gegnum tárin“.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Rétt eins og hún, var ég sjálf ráðin – og rekin – á þessum sömu forsendum: Ráðin hjá Stöð 2 til að sýna að sú stöð væri ekki of vilhöll “flokknum” en rekin líka til þess að þóknast „flokknum“ þegar þar að kom. Ráðin hjá Rúv til að sýna að sú stöð gætti jafnræðis flokkslega, en rekin á sömu forsendum – eins og kom skýrlega fram í greinum Hannesar Hólmsteins á þessum tíma: hann kvartaði undan því að “of margir kratar” væru á skjánum í „sjónvarpi allra landsmanna“.

Ég gerði mér enga grein fyrir því þá að líf mitt og atvinnutækifæri væru undirorpinn þessum forsendum – svo saklaus var ég þá að ég hélt ég væri einfaldlega hæf til starfsins, ung kona að hafa ofan í mig og á. Það var löngu síðar sem mér var einfaldlega sagt hvaða lögmál hefðu verið á ferðinni.

Af þeim þremur kostum sem Ólina nefnir, fyrir alla þá sem hafa lent

í þessari skelfilegu hakkavél spillingar og flokkadrátta, valdi ég þann augljósa: að flytja af landi brott. Og ég velti fyrir mér nú hversu mikið íslenskt samfélag hefur liðið fyrir brottflutning allra þeirra sem hafa valið þennan sama kost. Það væri efni í rannsókn: hvaða áhrif hefur þetta “braindrain” haft á framför á þessu landi, – sem Skuggabaldrar „flokksins“ eru ábyrgir fyrir. Ætti hann ekki að svara til saka?

Hversu oft hef ég ekki sent mína ferilskrá til Íslands, þegar ég sá auglýst störf sem pössuðu við mína starfsreynslu (ævinlega án svara)? Einu sinni gekk ein ráðningarstofan svo langt að mælast til þess að ég strokaði út þriggja ára starfsreynslu mína hjá Evrópusambandinu. Yfirlýstir Evrópusambandssinnar eins og ég (sem hafði komið fram í mínum blaðaskrifum) kæmu ekki til greina. Þegar ég spurði hvað ég ætti þá að hafa verið að gera þessi þrjú ár, var svarið: Varstu ekki að eiga börn?

Ólína víkur sér ekki undan því að fjalla um ábyrgð fjölmiðla: Eignarhald á fjölmiðlum er hinum almenna lesenda með öllu hulið. Ábyrgð þeirra er gríðarleg, ekki síst þegar kemur að þeim fréttum sem ekki eru birtar. Ég nefni sem dæmi nýútkomna bók móður minnar sem hefur kallað á mikinn fréttaflutning undanfarið, þ.e.a.s hrein og bein afrit blaðamanna af fésbókarfærslum annars deiluaðilans í máli sem er nú á vitorði allrar þjóðarinnar. Aldrei – ekki einu sinni – hafa blaðamenn haft fyrir því að forvitnast um andsvar, áður en „fréttin“ er birt. Það segir allt sem þarf.

Ólína nefnir nokkrar tillögur um hvernig hægt sé að sporna við þessu meini: með kerfisbundnum breytingum. En ég hefði líka viljað sjá hana draga kjósendur til ábyrgðar. Það eru þeir sem hafa kosið þennan flokk yfir sig og gert honum kleift að útskúfa og þagga niður í þeim sem hann hefur vanþóknun á. Hvað hefur það kostað íslenskt samfélag á lýðveldistímanum? Það er sérstakt rannsóknarefni.

P.s.

Og talandi um þöggun. Nú hefur faðir minn setið undir svívirðilegasta mannorðsmorði fjölmiðla sem um getur að undanförnu. Og það liggur beinast við að spyrja: Kemur það eitthvað eignarhaldi fjölmiðla við? Svarið liggur í augum uppi.

Fyrir skömmu las ég leiðara í Fréttablaðinu „Mannorðsmorð“ eftir Björk Eiðsdóttur. Í einhverju brjálæðislegu bjartsýniskasti hélt ég eitt sekúndubrot að hún myndi fjalla um mál föður míns. En nei, hún var að fjalla um mál Ólafs Williams Hand og segir um það eftirfarandi:

„Saklaus maður sem áður var í yfirmannsstöðu hjá stórfyrirtæki en var sagt upp starfi sínu um leið og hann var dæmdur í héraði og málið komst í hámæli í fjölmiðlum. Saklaus maður sem hefur fengið grimma útreið í athugasemdum á veraldarvefnum og þjóðin þekkir nú aðallega fyrir þetta sorglega mál. Það er auðvelt að ímynda sér hversu mikil áhrif það hefur á mannorð manneskju að vera sökuð um jafn svívirðilegan glæp og að leggja hendur á barnsmóður sína fyrir framan ungt barn þeirra. Dómstóll götunnar er fljótur að fella dóm þegar slíkar ásakanir eru uppi“.

Prófum að setja nafn föður míns inn í þessa formúlu. Þá myndi þessi texti hljóma eitthvað á þessa leið: Saklausum manni, þekktum stjórnmálamanni sem alla tíð hefur staðið styrr um, meinað að sinna kennslu við HÍ og almennt sínum skrifum (sem er hans lifibrauð), hefur fengið grimma útreið í athugasemdum á veraldarvefnum ÁN ÞESS AÐ HAFA NOKKURN TÍMANN VERIÐ DÆMDUR nema í þessum sömu fjölmiðlum. T.d. þeim sem Björk Eiðsdóttir vinnur hjá.

Ég vil fá að vita af hverju Björk finnist mannorðsmorðið á Ólafi „ámælisvert“ en ekki mannorðsmorðið á föður mínum? Hún ætti að skrifa leiðara um það. Reyndar svarar Ólína þessari spurningu í sinni merku bók: Það gildir ekki það sama fyrir alla. Það veltur á því hvort þú ert í „flokknum“ eða ekki.

Takk Ólína fyrir að stinga á þetta mein. Nú munu fleiri þora að ganga fram á völlinn, að ég held?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: