
Stjórnvöld og atvinnulíf vestra eru með allt aðra nálgun á vandamálið en sömu aðilar á Íslandi.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Nýjar mælingar frá Bandaríkjunum um atvinnuleysi sýna að 14,7 prósent vinnuafls er án atvinnu nú um stundir og er talið að allt að 17-20 prósent vinnuafls geti orðið án atvinnu vegna veirunnar. Þetta eru hæstu atvinnuleysistölur síðan í kreppunni miklu árið 1929 samanber myndin hér að neðan, sem er fengin að láni frá CNN.
Stjórnvöld og atvinnulíf vestra eru með allt aðra nálgun á vandamálið en sömu aðilar á Íslandi. Þar er mest af athyglinni sett í að stjaka við innlendri eftirspurn og hafa ákveðnir þjóðfélagshópar fengið eingreiðslu upp á 175 þúsund krónur frá ríkinu. Meira er á leiðinni. Íslensk stjórnvöld tóku þá döpru ákvörðun að moka fé í fyrirtæki, en það eykur ekki innlenda eftirspurn. Aðsteðjandi efnahagsvandi á Íslandi snýst um að efla innlenda eftirspurn, en ekki að bjarga vildarvinum Hagsmunasamtaka atvinnulífsins. Sjálfur hef ég lagt til tímabundin borgaralaun til atvinnulausra til að efla innlenda eftirspurn og mun það ekki valda innlendri verðbólgu. Verðbólga dagsins er innflutt vegna veikingar krónunnar, sem er pólitísk ákvörðun.
