
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
„Það er með ólíkindum að lykilmenn Seðlabankans lifa í afneitun og þekki ekki hlutverk bankans betur en raunin er.“

Gylfi Zoega nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lét hafa eftir sér í dag að það sé ekki hlutverk nefndarinnar að taka afstöðu til þess hvaða áhrif vaxtalækkanir hafi á fasteignaverð og þar með á eignaskiptingu í landinu. Þar með er hann kominn í hóp með seðlabankastjóra sem sakar aðra um að bera ábyrgð á verðbólgunni. Þær ásakanir hafa verið hraktar og fjalla ég um það hér „Baneitraður kokteill“.
Í lögum um Seðlabankann þá stendur orðrétt „Seðlabanki Íslands skal stuðla að stöðugu verðlagi“. Síðan segir bankinn sjálfur á eigin heimasíðu „að peningastefnunefnd taki ákvarðanir um vexti bankans sem hafa áhrif á verðlagsþróun“. Gylfi er kominn í mótsögn við lögbundið hlutverk nefndarinnar. Á myndinni sem fylgir þá má sjá að hækkun fasteignaverðs síðustu fimm mánuði stendur undir meginhluta verðbólgunnar. Er svo illa komið að verðhækkanir í júlí eru nær eingöngu raktar til verðhækkana á fasteignamarkaði.
Verðbólga í dag er 4,3 prósent á sama tíma og markmiðið er 2,5 prósent. Hefur bólgan nú verið yfir 4 prósentum í nokkra mánuði. Það er með ólíkindum að lykilmenn Seðlabankans lifa í afneitun og þekki ekki hlutverk bankans betur en raunin er. Kenna bara öðrum um þegar illa gengur. Forsætisráðherra lifir í sömu afneitun enda nýbúin að lýsa því yfir að peningastjórn landsins sé vel lukkuð. Það er ekki hægt að búa við brest á hæfni sem finna má í efstu lögum stjórnkerfisins. Bresturinn vinnur gegn þjóðarhagsmunum.
Forsætisráðherra lifir í sömu afneitun enda nýbúin að lýsa því yfir að peningastjórn landsins sé vel lukkuð. Það er ekki hægt að búa við brest á hæfni sem finna má í efstu lögum stjórnkerfisins.