- Advertisement -

Bærinn minn / Ellefu ára „sendiherra“

Magnús R. Einarsson skrifar:

Það var í október 1958 sem fjölskylda mín fluttist frá Reykjavík til Seyðisfjarðar. Ég var á sjötta ári þegar við flugum austur á Egilsstaði og ókum með rútu yfir Fjarðarheiðina. Það var skollið á myrkur þegar við komumst á leiðarenda. Það var stórfurðuleg sýn sem blasti við þegar ég leit út morguninn eftir. Það var eins og við værum lent ofan í risastórri holu því það sést ekki út á haf úr byggðinni fyrir botni fjarðarins. Bærinn var sem umkringdur snarbröttum ókleyfum fjöllum. 

Það var ekki það eina sem var furðulegt og skrítið því þegar maður fór að heyra í fjarðarbúum þá skildi maður varla málið. Seyðfirðingar voru þá upp til hópa flámæltir, þeir ondúleruðu í tali sínu og notuð óskiljanleg orð eins og reka og skjóla í staðinn fyrir skóflu og fötu. Málið var dönskuskotið; fortó, bíslag, altan, bílæti. Allt var þetta óskaplega framandi fyrir ungan dreng. Og auðvitað varð maður fyrir einhvers konar einelti því ég skar mig úr vegna þess að ég talaði öðruvísi, var í öðruvísi gúmmískóm og átti að sjálfsögðu enga vini. Það urðu áflog og þá hljóp maður stundum grenjandi heim með kúlu á hausnum, sprungna vör eða rifnar buxur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svo tók við mikið og dásamlegt ævintýri…

Mamma kyssti á bágtið og fann föt til skiptanna og rak mann svo aftur út. Ekkert elsku mamma þótt veröldin fyrir utan væri lífshættuleg ofan í risaholunni með óskiljanleg hrekkjusvín sem lágu í leyni og réðust á aðkomudrenginn.

Ástandið lagaðist samt fljótlega, maður aðlagaðist og eignaðist vini og félaga. Svo tók við mikið og dásamlegt ævintýri þegar síldin fór að veiðast á Austfjarðamiðum. Fjörðurinn fylltist af fólki. Síldarplön spruttu upp eins og gorkúlur og verksmiðjur risu. Þegar gerði brælu þá lá flotinn inn í firðinum í landlegu og þá gat nú orðið fjör. Bíó alla daga í félagsheimilinu og dansleikir öll kvöld. 

Ég gerðist sendill hjá Símanum þegar ég var ellefu ára. Það var nú heldur betur stuð. Það var með göfgina í sálinni sem ég skrifaði undir plagg hjá Símstöðvarstjóranum þar sem ég hét fullri þagmælsku um allt sem ég yrði áskynja í starfi mínu. Ég hafði tvö reiðhjól, eitt til skiptana ef það skyldi springa á hinu. Auk þess hafði ég jullu til umráða þegar þurfti að róa út í báta sem lágu út á firðinum.

Seyðisfjarðarradíó hafði kallmerkið TFY og það var oft handagangur í öskjunni á þessum árum á Símstöðinni. Sérstaklega í landlegum og í þorskastríðinu, en því var nú lokið þegar ég varð sendiherra Símans á Seyðisfirði. Það starf var mjög annasamt. Það voru aðeins 2 símalínur sem tengdu Seyðisfjörð við aðrar símstöðvar landsins. Þá myndaðist oft biðröð við símaklefana tvo á Símstöðinni. Það var þrefaldur taxti á símtölum á þessum árum. Venjulegur taxti en svo var hægt að panta símtal með hraði sem var tvöfaldur taxti og svo með forgangshraði sem var fjórfaldur taxti. Síminn græddi fúlgur fjár á þessum tíma. 

Fyrst var að finna bátinn.

Sendilstarfið fólst í tvennu, að bera út símskeyti og svo að koma símkvaðningum til skila. Símskeytin voru ekki mikið vandamál, yfirleitt voru það sömu aðilarnir sem fengu símskeyti, síldarspekúlantar, útgerðarmenn og fólk í síldarbransanum. Símkvaðningarnar voru snúnari, sérstaklega í landlegum þegar fleiri tugir, ef ekki hundruð síldarbáta voru inn í firðinum. Þetta gerðist oftast með þeim hætti að eiginkonur og kærustur sjómannanna sendu beiðni um eitt eða tvö viðtalsbil. Viðtalsbilið var 3 mínútur. Þá var prentuð símkvaðning þar sem tiltekið var hvenær símtalið myndi hefjast og í hvaða símklefa. 

Fyrst var að finna bátinn. Hann gat í flestum tilvikum verið aðgengilegur úr landi, en oft voru fimm eða fleiri bátar bundnir hver utan í annan við bryggjurnar og þá þurfti að príla yfir þá til að finna hinn rétta. Þegar báturinn var fundinn þá þurfti að finna viðtakandann og það gat verið mikil þraut því oft kom fyrir að maðurinn var alls ekki um borð. Þá tók við spæjarstarf sem gat endað vandræðalega þegar maðurinn fannst í dyngju hjá einhverri síldarstúlkunni.

Oft lágu bátar úti á firðinum og þá varð maður að róa út í bátinn til að finna viðtakandann. Ég var með fína leðurtösku með látúnsmerki Pósts og Síma og í hana fóru símskeyti og kvaðningar. Ég var sömuleiðis með bók þar sem viðtakendur þurftu að kvitta fyrir móttekningu skeyta og kvaðninga. Þetta voru dýrðartímar.

Þetta gat verið ansi drjúgur peningur.

Sendilstarfið bauð líka upp á mikla aukagetu. Ég gat auðveldlega pantað aukaeintök af dagblöðum þar sem ég vann á Símanum, blöð sem ég svo seldi í lausasölu fyrir utan félagsheimilið. Ef það voru aflatölur og skýrslur í blöðunum þá seldi maður grimmt í landlegum því það var mikil keppni á toppnum yfir aflahæstu skipin. Síðustu eintökin fóru á uppsprengdu verði. Mesti hagnaðurinn var samt í tómum glerflöskum sem maður fékk að hirða upp í borð í bátunum og seldi svo í kaupfélaginu eða sjoppunum. Það heitir núna skilagjald. Þetta gat verið ansi drjúgur peningur. Eftir að síldarárunum lauk 1968 þá glataði ég þessum kapítalísku hæfileikum og hef verið launaþræll síðan.

Já, síldarárunum lauk og aftur varð meiriháttar breyting á lífinu á Seyðisfirði í kjölfarið. Bærinn var nánast í rúst. Æðið í silfur hafsins hafði engu eyrt, hvorki fólki, byggingum, götum og vegum. Bærinn var eins og eitt svað eftir að síldin og síldarfólkið hvarf. Bryggjurnar og braggarnir eyðilögðust, voru rifin eða brennd. Það varð lítið sem ekkert eftir á Seyðisfirði af þeim auð sem sem síldarverkunin hafði skapað. Það fé fór í önnur byggðarlög og í aðra vasa. Það tók Seyðfirðinga nokkurn tíma að rétta úr kútnum og lagfæra það sem hafði skemmst eða undan látið í öllum hamagangi síldaráranna. 

Það vildi Seyðfirðingum til happs að þar hefur löngum verið ótrúlega mikið félags og menningarlíf. Sá grunnur er ein undirstaða hins blómlega lista og menningarlífs sem nú einkennir Seyðisfjörð og Seyðfirðinga. 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: