- Advertisement -

BB um hjúkrunarfræðinga: Getum ekki sprengt forsendur allra kjarasamninga

„… heildarhækkunin sem þeim var boðið upp á var í árlegum skrefum 68.000 kr., sem er minna en við stjórnmálamenn fengum t.d. í einu skrefi.“

Alþingi / „Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir í á annað ár og ekki fengið að semja um kjör sín frá 2014,“ sagði Logi Einarsson á Alþingi í morgun, þegar hann skiptist á skoðunum við Bjarna Benediktsson um stöðuna í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga.

„Ef upp kemur alvarleg staða í heilbrigðiskerfinu eftir 22. júní verður hún að þessu sinni ekki af völdum framandi veirufaraldurs heldur vegna ríkisstjórnar sem hefur ekki nægan vilja til að semja og efna þetta loforð. Ég spyr því: Er ekki kominn tími til að höggva á hnútinn og gefa samninganefnd ríkisins aukið svigrúm til að semja?“

Bjarni brást við með þekktum viðbrögðum: „Hvaða málflutning er háttvirtur þingmaður með varðandi kjarasamninga almennt? Er það skoðun háttvirts þingmanns að alltaf eigi að fallast á allar kröfur, að það eigi bara að bæta í af hálfu ríkisins þegar ekki nást samningar? Skilur háttvirtur þingmaður ekki heildarsamhengi kjarasamninga hins opinbera, loforðið gagnvart lífskjarasamningunum, að menn geta ekki sprengt forsendur allra annarra samninga? Veit háttvirtur þingmaður ekki að við höfum náð niðurstöðu við um 80% viðsemjenda okkar?“

„Kemur til greina að setja lög á hjúkrunarfræðinga náist ekki að semja?“

Logi spurði þá: „Kemur til greina að setja lög á hjúkrunarfræðinga náist ekki að semja?“

Bjarni var samur við sig: „Mér þykir orðið mjög dapurlegt hvernig menn vilja reyna að ná pólitísku höggi á stjórnvöld hverju sinni með því að taka alltaf upp einhliða málstað þess sem er að semja við ríkið. Þetta er orðin lenska hér á þinginu í umræðu um kjaramál og er auðvitað fullkomlega óábyrgur málflutningur frá formanni Samfylkingarinnar sem hefur í raun ekkert annað fram að færa í þessari umræðu en að fallast eigi á allar kröfur hjúkrunarfræðinga til þess að samningar geti tekist og svo megi bara það verða sem verða vill um forsendur allra annarra samninga og áhrifin út á við. Þetta er auðvitað ekki boðlegur málflutningur.“

Fyrr í umræðunni upplýsti Logi að í samningnum, sem hjúkrunarfræðingum stóð til boða, hafi sumt verið gott, annað ekki; „… heildarhækkunin sem þeim var boðið upp á var í árlegum skrefum 68.000 kr., sem er minna en við stjórnmálamenn fengum t.d. í einu skrefi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: