Fréttir

Bensín og flug draga úr verðbólgunni

By Miðjan

August 19, 2014

Efnahagsmál Greiningardeild Arion banka spáir 0,1% hækkun á vísitölu neysluverðs (VNV) í ágúst en Hagstofa Íslands birtir mælingu á vísitölunni miðvikudaginn 27. ágúst nk. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan lækka úr 2,4% í 2,1% en lækkun árstaktsins má rekja til þess að í ágúst mánuði í fyrra hækkaði VNV um 0,34%. Samkvæmt spánni yrði ársverðbólgan áfram undir verðbólguviðmiði Seðlabankans sjöunda mánuðinn í röð. Í spánni vegur þyngst að útsöluáhrif ganga til baka að hluta til og hafa föt og skór því 0,22% áhrif til hækkunar á VNV. Einnig er áætlað að húsnæðisverð hækki lítillega í mánuðinum og hafi um 0,12% áhrif til hækkunar á vísitöluna. Á móti vegur að bensín og flugfargjöld lækka umtalsvert í mánuðinum og hafa saman um 0,21% áhrif til lækkunar á VNV. Lítil breyting er á öðrum undirliðum vísitölunnar.