- Advertisement -

Bíbfylkingin

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Þessi endurtekna yfirtaka heilagleikans í Samfylkingunni var fullreynd fyrir nokkrum árum. Kjósendur eru búnir að hafna dellunni.

Ágúst Ólafur Ágústsson og Dagur B. Egggertsson.

Ekki bara að Samfylkingin sé eins og einkaklúbbur, sem nýtur sífellt minnkandi vinsælda, heldur líka þessi sótthreinsaða nálgun á hlutina. Hvert orð og hvert skref á að vera fullkomið. Engin tilbrigði eða karaktereinkenni. Frambjóðendurnir töluðu í mónótískum stíl og enginn sýndi eldmóð. Ég man ekki eftir þrumandi ræðu eða grein sem var innblásin af ástríðu, kímni, hnittni, blæbrigðum eða óvæntum fróðleik. Bara eitthvað svona „bíííb“ suð eins og þegar hjartalínurit verður flatt.

Þessi endurtekna yfirtaka heilagleikans í Samfylkingunni var fullreynd fyrir nokkrum árum. Kjósendur eru búnir að hafna dellunni. Spáið í vitleysuna þegar mesti húmoristi þingliðs fylkingarinnar, Guðmundur Andri Thorsson, var gert að færa sig í annað sætið fyrir Þórunni Sveinbjarnar. Hún hefur ekki sést brosa á opinberum vettvangi í áraraðir. Nú eða þegar Ágúst Ólafur Ágústsson var stunginn út með ryðgaðri heykvísl vegna þess að hann er breyskur. Hann er hlaðinn eldmóði og hagfræðilegri þekkingu. Samfylkingin var að mælast með 20 prósent fylgi í könnunum á útmánuðum ársins. Nei heilagleikinn er aðalatriðið og út í kulda vandlætaranna hann fór. Staðan í borginni er ekki betri þar sem fylgið minnkar með hverri kosningu. Þar er oddviti sem talar í sama mónótíska „bíííb“ stílnum. Ferlega óspennandi dæmi allt saman. Ég er ansi hræddur um að þorskastríðið hefði ekki unnist með einhverju „bíííbi“. Tímabært er að breyta nafni Samfylkingarinnar í Bíbfylkinguna.      

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: