- Advertisement -

Bjarni Ben fékk bara að fara með bullum bull

Smjaður Þorgerðar Katrínar í garð ríkisstjórnarinnar var vandræðalegt.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Hagfræðingurinn Arthur Okun setti fram hugmyndina um eymdarvísitöluna á síðustu öld, sem er samlagning verðbólgu og atvinnuleysis. Hvoru tveggja stærðir sem hafa áhrif á líf fólks. Við viljum hafa summuna sem lægsta, litla verðbólgu og lítið atvinnuleysi. Á myndinni sem fylgir þá ber ég saman vísitöluna eins og hún var í apríl síðastliðnum á Íslandi og hjá nánustu frændum okkar. Athygli vekur að Færeyjar og Danmörk, sem binda sinn gjaldmiðil með rembihnút við evruna, eru með lægstu gildin. Ísland vermir hið vafasama toppsæti.

Enginn talaði um mikla verðbólgu og hátt atvinnuleysi.

Í hinum furðulega Silfur þætti gærdagsins þá hafði enginn úr stjórnarandstöðunni áhuga á að tala um mislukkaða hagstjórn landsins. Enginn talaði um mikla verðbólgu og hátt atvinnuleysi. Bjarni Ben, með vandræðalegu samþykki Katrínar Jak og Sigurðar Inga, komst meira að segja upp með að segja að verðbólgan sé að hjaðna. Ef bólga síðustu þriggja mánaða er framreiknuð á ársgrundvöll þá stefnir hún í 6,7 prósent. Og ef ég miða við verðbreytingar síðustu 6 mánaða og framreikna þá stefnir hún í 5 prósent. Og ef ég framreikna bólguna síðasta mánuðinn þá er stefnan á 5 prósent verðhækkun yfir næstu 12 mánuði. Það er ekki merki um hjöðnun. Fjármálaráðherrann hangir í meira en hálfsársgömlum verðbreytingum og kemst upp með að þvaðra andmæla laust.

Eins og Silfurþátturinn spilaðist þá kom stjórnarandstaðan illa undirbúin til leiks. Ég er ansi hræddur um að ef Gunnar Smári hefði ekki verið útilokaðar frá þættinum af ómálefnalegum ástæðum að þá hefði efnisleg umræða farið fram um efnahagsmál. Það er mál málanna nú þegar eymdarvísitalan rýkur upp í tíð ríkisstjórnar Vinstri grænna. Slök frammistaða Ingu Sæland í þættinum kom á óvart. Ég átti von á sóknarþunga frá henni eftir hreint furðulega hegðun í nýlegum þætti Gísla Marteins. Hún er heillum horfin blessunin.

Smjaður Þorgerðar Katrínar í garð ríkisstjórnarinnar var vandræðalegt. Í stað þess að tala um alvarleg hagstjórnarmistök þá klappaði kúlulána-drottningin ríkisstjórnina upp slag í slag. Henni langar svo að vera memm. Hin nýbakaða móðir Þórhildur Sunna virkaði úrvinda og kannski af skiljanlegum ástæðum. Hún var samt skást allra í þættinum. Ég held að Samfylkingin hafi gert mistök að senda ekki Kristrúnu Frostadóttur hagfræðing í þáttinn í stað Loga Einarssonar, sem var hreint ósannfærandi. Hafði ekkert óvænt eða nýtt fram að færa. Tækifærin voru svo sannarlega fyrir hendi. Ég upplifi stjórnmálin alveg steingeld sem stendur. Fann enga ástríðu frá neinum.          


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: