
Skoðum báðar staðhæfingar ráðherrans.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Fjármálaráðherra landsins sagði í Silfri Egils um helgina orðrétt í tengslum við kjaraviðræður „En það eru ákveðin lögmál sem er ekki hægt að horfa fram hjá. Það eru stéttir sem eru rétt fyrir ofan þá sem eru á lægstu laununum sem munu alltaf spyrja sig var það þess virði að fara í 5 ára háskólanám?“. Ráðherrann óttast höfrungahlaup og að faglærðir krefjist launahækkana til að viðhalda ákveðnu launabili á við ófaglærða.
Síðan sagði ráðherrann orðrétt „Okkur hefur tekist stórkostlega að bæta lífskjörin á Íslandi og einna best við þá hópa sem helst eru í umræðunni í dag, eldri borgara og þá sem eru neðst í launastiganum“. Skoðum báðar staðhæfingar ráðherrans.
Á línuritinu eru tveir tekjuhópar skoðaðir: barnlausar og einstæðar konur sem búa í leiguhúsnæði og eru á aldrinum 25-64 ára. Tekjuhóparnir eru annars vegar þær konur sem tilheyra efsta launaflokki þjóðarinnar (T10) og hins vegar konur úr næst neðsta flokknum (T2).
Sjá má að munur á ráðstöfunartekjum hópanna vex úr 353.510 krónum árið 2013 og upp í 415.896 krónur árið 2018. Sem sagt, ójöfnuður innan þessa hóps óx um 17,65%. Staðan batnar ekki þegar konur í næst hæsta launaflokknum eru skoðaðar (T9), en munur ráðstöfunartekna jókst um 22% milli T9 og T2 yfir sama árabil samanber línuritið.
Seinni fullyrðing Bjarna Ben dæmist því röng!
Hvað fyrri fullyrðinguna varðar þá sýnir línuritið að það eru ekki láglaunakonur sem eru að toga launin upp og valda höfrungahlaupi. Hlaupið hófst hjá hálauna konum fyrir fáeinum árum. Þannig að fyrri fullyrðing Bjarna Ben dæmist einnig röng!
Heildarmyndin breytist ekki ef hitt kynið er skoðað. Niðurstaðan er að ráðherra fór með fleipur, tvisvar sinnum! Ójöfnuður hefur aukist hjá þessum hóp. Þjóðarkökunni er illa skipt og þar liggur rót vandans. Eitthvað ógeðfellt er við það að krefja láglaunafólk um að axla ábyrgð á stöðugleikanum með fölskum áróðri en hafa sjálfur þegið rúmlega 40% launaleiðréttingu!
