- Advertisement -

Bjarni Ben gegn kennurum og heilbrigðisstarfsfólki

Viðhorf fjármálaráðherra og Óla Björns er hreinlega fjandsamlegt hagsmunum þjóðarinnar og þá eru hagsmunir einkageirans meðtaldir!

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Framganga Bjarna Ben fjármálaráðherra og Óla Björns þingmanns Sjálfstæðisflokksins verður ískyggilegri með degi hverjum. Rangfærslunum fjölgar, áróðurinn versnar og vont viðhorfið verður augljósara. Báðir hafa sagt að í haust verði meiriháttar átök við fjárlagagerðina á Alþingi og innan ríkisstjórnarinnar. Það muni hreinlega reyna á styrk ríkisstjórnarinnar lét Bjarni hafa eftir sér nýlega.

Síðan þá hefur fjármálaráðherra mætt í sjónvarpsviðtal hjá Hringbraut. Þar sagði hann orðrétt „Við höfum ekki efni á þessu þjónustustigi ef að einkageirinn nær ekki við sér.“ Þetta var sett fram í samhenginu „við og þið“ og átt við opinberan rekstur og einkarekstur. Sem sagt, ef einkageirinn tekur ekki við sér þá þurfi að segja upp fólki hjá ríkinu og hagræða á annan hátt. Orð ráðherrans opinbera fyrst og fremst úrelt frjálshyggjuviðhorf og djúpstætt þekkingarleysi á hlutverki ríkisins við núverandi aðstæður.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tal ráðherrans er því að toga í öfuga átt við verkefni dagsins sem er að ýta undir bjartsýnina.

Fyrir það fyrsta þá munu uppsagnir hjá ríkinu dýpka samdráttinn sem „einkageirinn“ svo kallaði gengur í gegnum. Það gleymist nefnilega hjá frjálshyggjumönnum og öðrum hægri öfgahópum að ríkisstarfsmenn eru neytendur og hluti af eftirspurnarhlið hagkerfisins. Fækkun ríkisstarfsmanna eykur atvinnuleysið eins og ástatt er og það dregur úr eftirspurn. Þá eykst samdrátturinn og niðursveiflan eykur hraða sinn. Mögulegar skattalækkanir vegna minni ríkisumsvifa ná ekki að vinna gegn niðurdrættinum nema á mjög löngum tíma ef það tekst þá yfir höfuð. Síðan hefur vaxandi atvinnuleysi mikil áhrif á bjartsýni neytenda. Tal ráðherrans er því að toga í öfuga átt við verkefni dagsins sem er að ýta undir bjartsýnina.

Svo er það ranghugmyndin um að ríkið sé fjármagnað af einkageiranum og eigi allt undir honum. Ríkisstarfsmenn greiða skatta eins og annað launafólk af sínum launum fyrir sitt vinnuframlag, sína verðmætasköpun. Einkageirinn nýtur ekki síður góðs af ríkisstarfsemi eins og ríkið nýtur góðs af einkageiranum. Ríkið er aftur á móti ekki betlandi þiggjandi úr lófa einkageirans eins og tvíeykið talar um. Það er langur vegur þar frá. Ríkið skapar í raun einhver mestu verðmæti sem til verða í hagkerfinu. Verðmætustu starfsmenn Íslands eru nefnilega kennarar, heilbrigðisstarfsfólk og uppalendur.

Kennarar og uppalendur mennta þjóðina og skapa ómælanleg verðmæti fyrir hagkerfið. Einkageirinn nýtur góðs af þegar vel menntað og fært fólk hefur störf hjá einkafyrirtækjum. Frjálshyggjan gleymir alltaf að reikna þetta inn í dæmið þegar þeir gala sinn áróður og jafnvel óhróður um opinberan rekstur. Í þjóðhagsreikningum þá mælast störf kennarar og uppalenda sem verðmætasköpun – hagvöxtur.

Samantekið þá eru hundruð milljarða undir að halda ríkisstarfsmönnum við efnið í núverandi efnahagsástandi.

Svo er það heilbrigðisstéttin sem læknar og hjúkrar. Stétt sem kemur veikum á fætur og til starfa. Í þjóðhagsreikningum þá eru störf heilbrigðisstarfsmanna einnig skráð sem verðmætasköpun – hagvöxtur. Hagurinn af störfum heilbrigðisstétta mælist mikill eins og hjá kennurum og uppalendum og dreifist yfir mörg ár.

Áður en Bjarni mætti í sjónvarpsviðtalið þá hefði hann betur hringt í frænda sinn Benedikt Jóhannesson stofnanda klofnings úr Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn. Frændinn reiknar árlega fyrir Virk-Endurhæfingu þjóðhagslegan hag af því að fólk nái bata eftir veikindi eða slys. Útreikningar Benedikts eru í samræmi við samskonar útreikninga sem ég hef séð frá öðrum löndum. Niðurstaðan fyrir Virk eitt og sér er að þjóðhagslegur sparnaður per endurhæfðan einstakling sé í námunda við 14,5 milljónir króna. Inn í tölunni er ekki sparnaður vegna minna álags á heilbrigðiskerfið þegar fólk kemst út á vinnumarkaðinn og hefur vinnu. Það er nefnilega þekkt staðreynd að aukið atvinnuleysi kallar á meira álag og meiri útgjöld heilbrigðisþjónustu.

Samantekið þá eru hundruð milljarða undir að halda ríkisstarfsmönnum við efnið í núverandi efnahagsástandi. Viðhorf fjármálaráðherra og Óla Björns er hreinlega fjandsamlegt hagsmunum þjóðarinnar og þá eru hagsmunir einkageirans meðtaldir!

Súluritið sýnir stöðuna á myndrænan hátt. Ef einkageirinn stendur sig ekki þá vill Bjarni Ben og Sjálfstæðisflokkurinn ráðast á gulu súluna (opinber rekstur) og lækka hana. Afleiðingin er að dökkbláa súlan mun einnig lækka og á endanum lækkar græna súlan eða framleiðsla landsins. Þetta er spírall sem mun leiða til hörmunga nema kannski í Garðabænum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn á heima!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: