- Advertisement -

Bjarni Ben og Sigríður Andersen hafna efnahagslegum veruleika

Á sama tíma þá hefur krónan veikst um 107 prósent gagnvart evru.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Seðlabanki Íslands, sem gætir almannahagsmuna, hefur lýst því yfir að orsök mikillar verðbólgu á Íslandi sé fyrst og fremst vegna veikrar krónu. Samt heldur Bjarni Ben fjármálaráðherra og Þorsteinn Víglundsson forstjóri fjárfestingarfélagsins Hornsteins því fram að meint mikil hækkun launa undanfarin misseri valdi verðbólgunni. Þorsteinn hefur einnig sagt að þessir þættir, launahækkanir og verðbólga, valdi annað hvort miklu atvinnuleysi eða leiði til falls krónunnar. Sem sagt, veiking krónunnar stuðlar að atvinnu. Í ljósi andstæðra staðhæfinga er nærtækt að horfa til Danmerkur til að skera úr um málið.

Frá aldamótum þá hefur danska krónan verið bundin með rembihnút við evruna enda á landið mest í viðskiptum við evrusvæðið af öllum efnahagssvæðum veraldar. Frá aldamótum þá hefur danska krónan aðeins hreyfst um 0,67 prósent gagnvart evrunni. Þar á ég við vikmörk milli hæsta og lægsta gildi dönsku krónunnar gagnvart evrunni á öldinni. Þegar þessi orð eru skrifuð þá er danska krónan 0,094 prósent sterkari en hún var í upphafi aldarinnar. Óhætt er því að slá því föstu að fullkominn gengisstöðugleiki hafi ríkt þarna á milli og lagt grunnin að frábærum árangri Dana í efnahagsmálum. Á sama tíma þá hefur krónan veikst um 107 prósent gagnvart evru.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…sægreifar græða meira…

Sambærilega sögu er síðan að segja um gengi evrunnar gagnvart dollar. Í dag þá er gengið þarna á milli jafnt meðalgengi aldarinnar. Gengiskrossinn hafði aðeins breyst um 0,5 prósent frá aldamótum þegar heimsfaraldurinn reið yfir. Íslenska krónan hefur aftur á móti tapað 75 prósent af verðgildi sínu gagnvart dollar á umræddu tímabili og sveiflur hennar verið villtar á köflum.

En hvað hefur þessi gengisfesta fært Dönum? Stutta svarið er hagsæld og efnahagslegan stöðugleika. Að jafnaði þá hefur árleg verðbólga verið 1,57 prósent í Danmörku á öldinni á meðan hún hefur verið 7,19 prósent á Íslandi. Frá árinu 2017, eða þegar mesti slátturinn í hagkerfinu á Íslandi fór að hægja á sér, er uppsöfnuð verðbólga 13,6 prósent borið saman við 3,1 prósent í Danmörku. Atvinnuleysi á Íslandi árið 2017 var 2,2 prósent samanborið við 4 prósent í Danmörku. Í dag þá er almennt atvinnuleysi á Íslandi 11 prósent og 5 prósent í Danmörku. Yfir sama tímabili þá hefur íslenska krónan veikst um 30 prósent gagnvart evru. Það blasir því við að veiking krónunnar hefur ekki fært Íslendingum neinn atvinnulegan ávinning. Veiking krónunnar hefur aftur á móti haft það í för með sér að sægreifar græða meira og illa reknum fyrirtækjum er haldið á floti.

Þau rugla saman orsök og afleiðingu.

Eigin greining á árlegum verðbreytingum og gengi íslensku krónunnar leiðir í ljós að markverð veiking krónunnar kemur á undan verðbólgu. Þetta er í samræmi við yfirlýsingu Seðlabankans. Sterkt samband er þarna á milli á sama tíma og veikt samband er á milli launahækkana og verðbreytinga. Það bendir til þess að launahækkanir hafi verið innan marka sem hagkerfið getur borið. Krónan sem slík er því örlagavaldur, sveifluvaldur, ólíkt því sem Sigríður Andersen hélt fram á Alþingi á dögunum. Og ef ég nota sama tungutak og Þorsteinn í nýlegu viðtali hjá Fréttablaðinu þá áttar hann, Sigríður og Bjarni Ben sig ekki á efnahagslegum veruleika. Þau rugla saman orsök og afleiðingu.

Hér að ofan þá er ekki tekið tillit til óbeinna áhrifa íslensku krónunnar á verðbólgu. Erlendir aðilar heykjast á því að hefja rekstur á Íslandi vegna mikillar gengisáhættu, en samkeppnisskorturinn leiðir til hærra vöruverðs. Það er því mikill ávinningur fólgin í því að taka upp evru í stað íslenskra krónu. Í það minnsta að binda hana við evruna eins og Danir gera. Þeir sem mæla því mót vaða annað hvort villu eða eru að gæta sérhagsmuna.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: