- Advertisement -

Björgunarsjóður Íslands

Seðlaeign Seðlabanka Íslands í erlendum gjaldeyri er aðeins 210 milljarðar.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Björgunarsjóður landsins telur 950 milljarða, en var 820 milljarðar um síðustu áramót, og er hann í vörslu Seðlabanka Íslands. Eignaaukningin stafar einkum af veikingu krónunnar, sem áætla má að hafi verið tæplega 16 prósent. Þetta er forðinn sem stjórnvöld vísa til þegar umræða um veikingu krónunnar tekur á rás. Hann á að veita þjóðinni einhverja öryggiskennd og segja okkur að fjármögnun milliríkjaviðskipta sé trygg. Hér er nú samt ekki allt sem sýnist!

Varaforðinn er vissulega nýttur í inngrip á gjaldeyrismarkað þegar krónan hreyfist óvænlega, en samt bara að litlu leyti. Þjóðin þarf nefnilega á hverjum tíma að eiga erlendan gjaldeyri til þrautavara burt séð frá óhagstæðum hreyfingum krónunnar til að standa við erlendar skuldbindingar og borga fyrir innflutning.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í neyð gæti því verið þörf á að gefa mikinn afslátt.

Skoðum þennan öryggisventil sem björgunarsjóðurinn á að vera og fáum á tilfinninguna hvað mikið umfang er hér á ferð. Sjóðurinn samanstendur ekki að öllu leyti af erlendum gjaldeyri. Stærsti hluti hans, eða 722 milljarðar, er bundið í erlendum verðbréfum. Bréf sem eru talin vera traust og fá hæfiseinkunn eftir því.  Mótaðilarnir eru að mestu traust ríki og traustir erlendir seðlabankar. Þessi eign er samt opin fyrir breytilegu markaðsástandi eins og önnur verðbréf og ríkir því óvissa um innlausnarvirði eignasafnsins. Ef snúa þyrfti eignasafninu yfir í erlenda seðla án fyrirvara vegna óverjandi aðstæðna á heimavelli þá gerist það yfirleitt þegar markaðsaðstæður eru óhentugar. Í neyð gæti því verið þörf á að gefa mikinn afslátt. Til viðbótar markaðsáhættu er síðan kröfuáhætta sem snýr að því þegar mótaðilinn (skuldarinn) stendur ekki skil á sínu. Í þessum efnum þá þekkist allt á öfgatímum.

Seðlaeign Seðlabanka Íslands í erlendum gjaldeyri er aðeins 210 milljarðar. Það er það sem er fast í hendi við öfgakenndar aðstæður. Gullforðinn mælist síðan tæplega 15 milljarðar. Gull er yfirleitt það síðasta sem er selt út úr eignasafni seðlabanka þegar neyð steðjar að og stundum alls ekki sama hvað bjátar á.

Í sumum ríkjum þá hafa einræðisherrar reynt að stela gullforðanum og í styrjöldum fortíðar þekkist að herdeildum hafi verið fyrirskipað að hirða gullforða óvinarins til að lama mótspyrnuna. Þannig að gulleign getur verið hvikul eign þó hún varpi fögrum bjarma yfir efnahagsreikninga seðlabanka.

Hún dugar í rúmlega tvo mánuði.

Þó bókhald Seðlabanka Íslands segi gjaldeyrisforðann vera 950 milljarða þá er þessi fjárhæð ekki aðgengileg nema við góðar og skilvirkar markaðsaðstæður eins og ég nefndi. Sjálfur tel ég að snöggvirði forðans sé 600 milljarðar, jafnvel minna, ef aðstæður á markaði verða verulega öfgakenndar og lífsnauðsynlegt er að selja í einum hvelli. Sagan geymir mörg dæmi og þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en til fjármálahrunsins til  að sjá að markaðir geta hreinlega lokast, þurrkast upp!

Hvert er þá þetta öryggi sem björgunarsjóðurinn veitir okkur þegar kemur að milliríkjaviðskiptum við öfgakenndar aðstæður? Ef við miðum við umsvif ársins 2019 og núgengi krónunnar þá getur björgunarsjóðurinn tryggt innflutning í níu og hálfan mánuð. Ef við miðum aftur á móti við mitt mat á snöggvirði varasjóðsins þá dugar hann okkur í sex mánuði. Það eina sem er algjörlega öruggt í verulega öfgakenndum aðstæðum er seðlaeignin í erlendri mynt. Hún dugar í rúmlega tvo mánuði. Þessar hugleiðingar mínar eru bjagaðar að því leytinu til að ég tek ekki tillit til útflutningstekna þjóðarinnar enda er ég einungis að reyna að fá á tilfinninguna hversu megnugur eða ómegnugur sjóðurinn er. Sjóðurinn drífur lengra með auknum útflutningstekjum. Tekið saman þá fleytir björgunarsjóðurinn okkur ekki  sérlega langt í erfiðum aðstæðum. Hann er skammgóður vermir.

Mannkynssagan geymir mörg dæmi um öfgakenndar aðstæður sem trufluðu milliríkjaviðskipti, jafnvel stöðvuðu þau alveg. Þannig ástand getur gert út af við krónuna því enginn erlendur aðili mun vilja eiga viðskipti sem grundvallast á krónunni. Í þessu sambandi má til dæmis minnast á Kosta Ríka. Þar í landi eru tvær myntir í gangi, bandaríski dollarinn og Kosta Ríka Colón. Það gæti komið mörgum á óvart hversu víða þessi skipan er. Svo muna margir eftir ástandinu sem ríkti í Austur Evrópu á tímum Sovétríkjanna. Þá skipti dollarinn öllu og heimamyntin vart til heimabrúks. Myndir hafa sést frá löndum flytja peningaseðla með hjólbörum svo verðlítil var örmynt viðkomandi lands. 

Með þetta allt í huga þá er ágætt að hugleiða hvort það sé betri kostur að Ísland tilheyri öflugra og trúverðugra myntsvæði í stað krónunnar. Svari nú hver fyrir sig og ekki blanda fullveldinu inn í málið. Það á ekki við! Eitt er þó öruggt að það myndi snarlega minnka áhættu landsins ef við tækjum upp stóra og trausta mynt eins og til dæmis dollar eða evru.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: