- Advertisement -

Blóðpeningar Actavis og dauði 400.000 borgara!

Slá má því föstu að tekjur af sölu oxycodone lyfja séu blóðpeningar.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Árið 1996 hóf Sackler fjölskyldan bandaríska fyrst allra að framleiða og selja hið gróðavænlega og ávanabindandi OxyContin verkjalyf. Auðæfi fjölskyldunnar eru varlega áætlað yfir tvö þúsund milljarðar króna. Þau má að mestu rekja til sölu á þessu eina lyfi. Nú eru komnar fram upplýsingar að þegar lyfið var skráð og markaðssett hafi blekkingum verið beitt. Lyfið átti að vera minna ávanabindandi og árangursríkara en önnur verkjalyf. Annað hefur komið á daginn. Svo margir eru háðir lyfinu og deyja af völdum þess að talað er um ópíóítfaraldur (ópíum). Talið er að 400.000 manns hafi dáið síðan sala á því hófst eingöngu í Bandaríkjunum og milljónir séu háðir daglegri notkun þess og stefni að feigðarósi.

Fjölskyldan vill núna semja um skaðabætur til fórnarlamba lyfsins og opinberra aðila sem glíma við mikinn kostnað vegna tjóns af völdum lyfsins. Tilboðið hljóðar upp á 375 milljarða plús hlutabréf fjölskyldunnar í lyfjafyrirtækinu Purdue Pharma sem framleiðir lyfið. Verðmæti bréfanna er háð markaðsverði, en gróflega má áætla að virði tilboðsins sé ekki undir þúsund milljarðar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Verkjalyfið er þar með orðið eitt af skæðustu drápstækjum mannkynssögunnar.

Þetta tilboð er ekki endilega komið til vegna ábyrgðarkenndar fjölskyldunnar enda hefur hún dregið lappirnar að bæta skaðann í mörg ár. Miklu frekar tengist þetta því að lyfjafyrirtæki eru að tapa dómsmálum þar vestra vegna blekkinganna og umdeildrar markaðssetningar í gegnum lækna. Lyfið var kynnt sem öruggur förunautur verkjasjúklinga í auglýsingum.

Ágætt er að setja skaðsemi lyfsins í viðeigandi samhengi. Í Víetnam stríðinu féllu 1,4 milljónir manna. Eins og ég sagði þá hafa 400.000 dáið af völdum lyfsins bara í Bandaríkjunum. Því er varlegt að áætla að þessi tala sé tvöfalt hærri utan þess lands. Verkjalyfið er þar með orðið eitt af skæðustu drápstækjum mannkynssögunnar. Slá má því föstu að tekjur af sölu oxycodone lyfja séu blóðpeningar.

Þegar sérleyfið til framleiðslu OxyContin rann út árið 2004 með dómsúrskurði stukku önnur lyfjafyrirtæki á vagninn og hófu sölu á samheitalyfjum sem innihélt oxycodone eða hydrocodone efnið af miklum móð. Þar voru þrjú lyfjafyrirtæki stórtækust: Actavis Group, Par Pharmaceutical og SpecGx.

Á sínum tíma var Actavis Group að mestu í eigu Novators, fjárfestingarfyrirtæki Björgólfs Thors, og Róberts Wessmans lyfjamóguls.

Samkvæmt opinberum upplýsingum frá Bandaríkjunum þá voru á árunum 2006-2012 seldar 76 milljarðar oxycodone pillur og voru SpecGx og Actavis stórtækust. Bandaríska lyfjaeftirlitið (DEA) setti sig í samband við forráðamenn Actavis árið 2012 til að fá fyrirtækið til að draga úr sölu á þessu drápstæki. Beiðninni var hafnað. Óhætt er að segja að Actavis hafi verið orðið háð tekjunum af sölu þessa lyfs.

Árið 2012 voru Actavis og SpecGx orðin söluhæstu fyrirtækin á þessu sviði í Bandaríkjunum.

Actavis náði fótfestu með því að kaupa tvö lítil lyfjafyrirtæki árið 2005. Annað þeirra var þá þegar komið með leyfi til framleiðslu og sölu á samheitalyfi sem innihélt oxycodone og hitt með leyfi fyrir lyfi sem innihélt hydrocodone. Samkvæmt tilkynningu frá Actavis áttu þessar fjárfestingar að örva vöxt og tekjustreymi fyrirtækisins. Það gekk eftir.

Árið 2012 voru Actavis og SpecGx orðin söluhæstu fyrirtækin á þessu sviði í Bandaríkjunum. DEA er búið að kortleggja sölu Actavis og beindist kastljósið að Flórída þar sem 11 dauðsföll voru á dag vegna ofneyslu lyfjanna. Árið 2012 voru yfirmenn Actavis færðir til yfirheyrslu. Á 30 mánaða tímabili hafði Actavis selt hvorki meira né minna en 240.000 milljónir pilla til suður Flórída. Þetta var meira magn en Actavis hafði selt til allra annarra fylkja Bandaríkjanna samtals á sama tíma. Lesandinn getur dregið eigin ályktanir hvað hér er í gangi, en ég tel það augljóst!

Í opinberum gögnum segir að Actavis hafi verið komið undir eftirlit hjá Deutsche bank á þessum tíma vegna þess að aðaleigandi Actavis, Novator (Björgólfur Thor), hafi verið kominn í vanskil við bankann.

Bæði Actavis og SpecGX höfðu fengið viðvaranir að vera ekki með nægilega öfluga verkferla sem kæmu auga á óeðlilegar pantanir. Hvorugt fyrirtækið brást við tilmælum um að gera þarna bragarbætur!

Árið 2012 var Actavis Group selt bandaríska lyfjarisanum Watson fyrir 700 milljarða. Stór hluti söluandvirðisins fór til fyrirtækis Björgólfs Thors sem hafði áður keypt Róbert Wessmann út.

Vænta er dómsmála víðs vega um Bandaríkin.

Áhugavert væri að vita hvað sala Actavis á oxycontin verkjalyfinu stóð undir stórum hluta af söluhagnaði Novators við sölu hlutabréfa í Actavis? Það væri einnig ágætt að fá að vita hagnað Róberts Wessmans af sölu hlutabréf í Actavis sem rekja má til þessa blóði drifna lyfs?

Ísraelska lyfjafyrirtækið Teva Pharmaceuticals sem í dag á Actavis Group samþykkti fyrr á þessu ári að greiða háar skaðabætur og þá bara í fylkinu Oklahoma. Vænta er dómsmála víðs vega um Bandaríkin.

Fellur nú illa á glæsimyndir Björgólfs Thors og Róberts Wessmans um borð í snekkjum, þotum og þyrlum í félagsskap frægra eftir þessa opinberun. Það virðast engin takmörk vera fyrir því hvað menn eru tilbúnir að gera fyrir frægðina. Þakka má þó Stuðmönnum að þessir menn eru ekki enn búnir að koma naktir fram. Eiga það kannski inni fyrir ellinna.

Svo í blálokin má geta þess að nýi seðlabankastjórinn hann Ásgeir Jónsson hefur lýst því yfir opinberlega að Actavis sé einn af ljósu punktum íslensku útrásarinnar. Ásgeir er með‘tta!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: