
Líta má því á að félagið sé komið í eða er að komast í vanskil með þessa 20 milljarða króna.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Ein af útskýringum forstjóra Icelandair fyrir því að félagið ætlar ekki að freista þess að fá 30 milljarða króna í nýtt hlutafé heldur stefna á 20 milljarða er ótrúverðug. Bogi Nils segir að veðstaða lána hafi verið metin traustari en lánardrottnar héldu í upphafi. Þetta er fegrunartal og ódýr sölumennska hjá forstjóranum. Staða lánardrottna með veð í flugvélum félagsins er óbreytt. Þeir geta eftir sem áður gert veðinnkall og selt flugvélarnar annað komi til gjaldþrots. Ef lánardrottnar hefðu breytt skuldum í hlutafé og Icelandair færi á versta veg þá væri staða lánardrottna verri. Hluthafar sitja nefnilega lögum samkvæmt aftast á merinni varðandi endurheimtur.
Í öllum samningaviðræðum við Icelandair þá hafa lánardrottnar fyrst og fremst varið eigin stöðu. Allar ákvarðanir miðuðu við að lágmarka áhættu og hámarka mögulegar eigin endurheimtur. Frekar en að breyta skuldum í hlutafé þá samþykktu helstu lánardrottnar (fyrir utan Boeing) að fresta afborgunum skulda að fjárhæð 20 milljarðar króna. Fresturinn er á bilinu 12-24 mánuðir. Athygli mína vekur að fjárhæðin er jöfn þeim 20 milljörðum sem Icelandair vonast til að afla í væntanlegu hlutafjárútboði. Líta má því á að félagið sé komið í eða er að komast í vanskil með þessa 20 milljarða króna. Samkvæmt öllu þessu þá er það mat þeirra sem komu að samningunum að félagið, og þá flugbransinn einnig, komist út úr sínum erfiðleikum á næstu 12 -24 mánuðum. Sjálfur tel ég það vera mikla bjartsýni enda hefur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin gefið það út að niðurlög veirunnar náist ekki fyrr en í fyrsta lagi að tveimur árum liðnum. Þá á eftir að sjá hvort ferðavilji fólks verði samur og hann var áður. Þannig að ef Icelandair nær í 20 milljarða króna í nýju hlutafé þá gæti það verið í besta lagi skammgóður vermir.
Kostar ríkisábyrgðin ekkert?
Þessi afstaða lánardrottna að vilja ekki umbreyta skuldum í hlutafé færir okkur þau skilaboð að þeir eru ekki bjartsýnir á framhaldið, annars hefði hluta veðskulda mögulega verið breytt í nýtt hlutafé. Þetta er í samræmi við þá ráðagerð forráðamanna Icelandair að sækjast eftir því að Lands- og Íslandsbanki sölutryggi hlutafjárútboðið. Það þýðir að ríkið ábyrgist og tekur alla áhættu af nýju hlutafé. Málið lítur þannig út fyrir mér þegar þessi orð eru rituð að ónæg eftirspurn er eftir nýju hlutafé í Icelandair!
Við bætist að ríkið ætlar að ábyrgjast 15 milljarða króna lánalínu ef Alþingi samþykkir. Síðan er búist við því að ríkisbankarnir veiti nýtt veðlán að fjárhæð 1,5 milljarðar króna. Samantekið þá gæti ríkið verið að taka á sig 36,5 milljarða króna fjárhagsáhættu í Icelandair. Ég spyr, á ekkert að ræða þessa stöðu fyrir opnum tjöldum eða á forstjóri Icelandair að vera með dagskrárvald og einræðu?
Í fjárfestakynningu félagsins þá kemur ekkert fram hvað Icelandair greiðir fyrir ríkisábyrgðina eða fæst hún endurgjaldslaust?