
Ríkisstjórnin fór á taugum og bugaðist undan þrýstingi hagsmunasamtaka fyrirtækja.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Ríkisstjórnin hefur gripið til ýmissa ráðstafana sem breyta engu um aðstæður ferðaþjónustunnar til lengri tíma litið. Fyrirtækin verða ekki lífvænlegri með aðgerðunum. Á daginn mun koma að aðgerðirnar eru eingöngu gálgafrestur! Til dæmis þetta nýjasta útspil að ríkið borgi uppsagnarlaun er ekkert annað en gjöf til einkafyrirtækja upp á marga milljarða. Bara í gær komu undir 3.000 uppsagnir. Það kostar ríkið um 3 milljarða króna og fer fjárhæðin til fyrirtækja sem sum hver hafa greitt hluthöfum glórulausan arð á undanförnum árum. Þessi fjárhæð á eftir að hækka. Verið er að henda góðum krónum á eftir vondum. Það er hinn ískaldi veruleiki. Ríkisstjórnin fór á taugum og bugaðist undan þrýstingi hagsmunasamtaka fyrirtækja.
Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar munu eingöngu skila tvennu. Í fyrsta lagi, tefja óumflýjanlega endurskipulagningu atvinnulífsins. Í öðru lagi, auðvelda að sömu aðilarnir haldi utan um þjónustu- og framleiðsluþætti hagkerfisins. Það er ekki endilega æskilegt vegna nauðsyn nýliðunar í öllum atvinnugreinum.
Viðbrögðin reyndust tímaeyðsla og eru lýsandi um þá afneitunina sem var í gangi hjá ríkisstjórn landsins og ferðaþjónustunni.
Staðan er þessi og hefur legið fyrir um nokkurt skeið þó tilteknir aðilar þykist ekki kannast við hana. Erlendir ferðamenn eru ekkert að á leiðinni til landsins í því mæli sem æskilegt er, ekki strax. Horfum framan í þá hrímuðu staðreynd og ekki misskilja neitt í þeim efnum. Þetta blasti við þegar ríkisstjórn Bandaríkjanna setti bann á komu ferðamanna frá Kína og síðar frá Evrópu. Síðan lokuðu Danir sínum landamærum. Á þessum tímapunktum loguðu öll möguleg viðvörunarljós. Og hvað gerði ríkisstjórnin fyrst af öllu? Jú, utanríkisráðherra landsins heimtaði fund með Trump til að sýna hvað hann væri mikill garpur. Viðbrögðin reyndust tímaeyðsla og eru lýsandi um þá afneitunina sem var í gangi hjá ríkisstjórn landsins og ferðaþjónustunni.
En hvað er þá til ráða? Ég benti á það strax í upphafi faraldursins í pistlum hér á Miðjunni að lausnirnar eru að ríkið greiði borgaralaun og taki krónuna af markaði. Fyrri aðgerðin eflir innlenda eftirspurn samstundis sem er bráðnauðsynlegt við núverandi aðstæður. Ferðaþjónustan mun njóta góðs af því. Seinni aðgerðin kemur taumhaldi á verðbólguvæntingar og verndar samkeppnishæfni landsins. Verðbólga er það sama og sóun á verðmætum! Margir hagfræðingar sem tjá sig reglulega virðast vera búnir að gleyma þessari staðreynd.
Samantekið þá eru þetta nettó 63 milljarðar yfir árið.
En hvað kostar að taka upp borgaralaun? Minna en margur grunar. Meðallaun í landinu eru 650 þúsund krónur fyrir skatta og ég set borgaralaunin í 450 þúsund krónur í mínum útreikningum. Ég áætla að fjöldi atvinnulausra verði 30.000 og að allir örorkuþegar færist á borgaralaun. Að teknu tillit til tekju- og veltuskatta sem renna til ríkisins þá kostar þessi leið 76 milljarða á ári umfram þann kostnað sem núverandi tvö kerfi kosta (atvinnuleysis- og örorkukerfið). Þau kerfi greiða út borgaralaunin og ekkert annað á meðan borgaralaun eru starfrækt samkvæmt minni hugmynd.
Frá þessum 76 milljörðum þarf síðan að draga aukinn hagnað rekstraraðila vegna meiri umsvifa sem borgaralaun skila af sér miðað að annað sé óbreytt. Og að síðustu þarf að draga frá tölunni haginn sem ávinnst vegna skemmri dvalar fólks á atvinnuleysisskrá en ella sem borgaralaun leiða af sér. Tilgangur borgaralauna er einmitt að stjaka hraustlega við eftirspurnarhlið hagkerfisins og þar með stytta tímann fólks á atvinnuleysiskrá.

Samantekið þá eru þetta nettó 63 milljarðar yfir árið. Til að setja þessa tölu í samhengi þá hefur veiking krónunnar undanfarið lækkað kaupmátt almennings um meira en 200 milljarða.
Svo eru það ómælanlegu hlutirnir sem leiðir af því að fjárfesta í fólki, en ekki steypu. Það skilar sér hratt til baka í auknum skatttekjum. Að geta horft framan í glaðlynt fólk í stað kvíðans í andliti þess atvinnulausa mun draga úr ásókn í heilbrigðiskerfið. Það er sannað að fátækt dregur heilsu fólks hratt niður sem veldur álagi á ýmsar stofnanir samfélagsins. Þarna er dulin sparnaður sem lækkar ofangreinda fjárhæð enn meira. Ekki efast um það! Og ekki gleyma því að fólk á borgaralaunum getur sinnt ýmsum samfélagslega áríðandi verkefnum öllum til góðs. Þetta fólk mun ekki sitja heima og bora í nefið dagana langa. Þarna eru dulin verðmæti sem lækkar töluna enn frekar. Mér segir svo hugur að þetta gæti reynst ein farsælasta fjárfesting ríkisins á þessari öld. Miklu farsælli en einkavæðing bankanna var eða rekstur Seðlabankans fyrir fjármálahrunið.
Þegar upp er staðið þá eru borgaralaun hraðasta og ódýrasta leið hagkerfisins upp úr niðurdrættinum. Borgaralaun og króna í vari stika farsæla leið upp úr skurðinum. Gamaldags hagfræði dugar ekki til úrlausnar við aðsteðjandi vanda. Svo er það mikill misskilningur sem haldið hefur verið fram hjá öfga-hægrinu að einkageirinn standi undir launum opinberra starfsmanna. Þeir sem halda slíku fram varpa skýru ljósi á eigin vankunnáttu og forhertan fordóm! En meira um það síðar.