Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Pyromania er hegðunarröskun þess sem kveikir eld til að framkalla sælutilfinningu eða spennulosun. Sálfræðin telur þetta ekki ólíkt stelsýki (kleptomania) þar sem þjófurinn er ekki á eftir hagnaði heldur þrilli sem á víst að fylgja því að vera ógómaður.
Ólíkt þjófum þá er til sú tegund brennuvargs sem mætir aftur á eldstað í leit að viðurkenningu og hlutverki. Hann hefur sig mikið í frammi við slökkvistörfin í von um að samborgarnir áliti þá hetjur. Þeir ganga jafnvel svo langt að bjóðast til að finna brennuvarginn og skemma rannsókn á eldsupptökum.
Allt á þetta það sameiginlegt að undirliggjandi vandi á rætur að rekja til röskunar viðkomandi. Hann getur verið haldinn áráttuhegðun, óraunsæi, aðdáunarþrá og jafnvel brjálsemi.
Þegar Seðlabanki Íslands var endurskipulagður árið 2019 þá kom það í hlut Katrínar Jakobsdóttur að skipa seðlabankastjóra og aðra lykilstjórnendur innan bankans. Henni farnaðist verkið afar illa úr hendi eins og komið hefur á daginn. Uppsöfnuð verðbólga á Íslandi frá árinu 2019 er miklu hærri á Íslandi en þekkist hjá þróuðum hagkerfum í kringum okkur.
Munurinn er alfarið rakinn til rangra ákvarðana hjá bankanum. Á sama tíma og nágrannar okkar bjuggu við verðstöðnun eða jafnvel verðhjöðnun á faraldstímanum þá var verðbólga á Íslandi á öruggri uppleið. Í dag þá færist munurinn í aukana og spár mínar um að bólgan færi upp úr öllu valdi hafa ræst, því miður.
Eins og brennuvargurinn þá hafa stjórnendur Seðlabankans ekki gengist við ábyrgð sinni á meiri uppsafnaðri verðbólgu á Íslandi. Þeir eru aftur á móti afar uppteknir við að kenna öðrum um. Nýjasta útspilið kom í vikunni og er það jafnframt það aumkunarverðasta hingað til; kenna á láglaunafólki um vandann og fyrstu kaupendum á íbúðarhúsnæði.
Ákvað bankinn því að lækka veðsetningarhlutfallið um 5 prósentustig jafnvel þó enginn lánandi hafi veitt 90% prósent lán um langa hríð. Það þurfti víst að sparka í einhvern utan bankans og ákveðið var að leggjast undir hellurnar í lágkúru. Af sama tilefni þá sagði seðlabankastjóri að framboðsskortur á íbúðarhúsnæði í landinu valdi einnig miklu um uppsafnaða verðbólgu. Hann lét aftur á móti vera að rifja upp að á árinu 2019 var talað um offramboð á íbúðarhúsnæði og bankarnir héldu að sér höndum í lánveitingum.
Rangar aðgerðir Seðlabankans á árinu 2020 beindust að fasteigna- og byggingamarkaðnum án þess að settar væru upp fjárgirðingar. Afleiðingin varð framboðsskortur á íbúðarhúsnæði. Samhliða nauðsynlegum vaxtalækkunum þá gerði bankinn þau hryllilegu mistök að afnema sveiflujöfnunarauka banka með einu pennastriki og auka þar með útlánagetu þeirra um 12%.
Það og óábyrgt tal seðlabankastjóra blessaði boðorð Gordons Gekko um að græðgi sé góð.
Fóru fjárfestingarryksugur landsins á yfirsnúning og hreinsuðu upp fasteignir og hlutabréf. Eignaverð fór lóðrétt upp á við. Það sem hefur raungerst á undanförnum misserum er að hin alvarlegu mistök Katrínar Jakobsdóttur við skipum embættismanna við bankann eru að kosta almenning miklar fjárhagslegar þjáningar. Kaupmáttur buddunnar hefur dregist hratt saman að öllu öðru óbreyttu. Enginn af þeim sem skipaðir voru í lykilembætti hjá bankanum býr yfir nauðsynlegri spáhæfni til að áætla prýðilega fyrir um þróun verðbólgunnar. Viðkomandi aðilar bjuggu aftur á móti yfir góðu tengslaneti, sem fór svo vel í forsætisráðherra.
Það hefur því verið grátlegt að lesa verðbólguspár bankans á undanförnum árum enda hefur ekki ein einasta spá verið nærri marki. Í gær steig síðan formaður bankaráðs Seðlabankans fram og mætti galvaskur í drottningarviðtal í Kastljósi. Hann var einnig á því að bankinn beri enga ábyrgð á umfram verðbólgu landsins. Gekk hann reyndar svo langt að segja að aðgerðir seðlabanka í heiminum eftir fjármálahrunið og í heimsfaraldrinum eigi hér hlut að máli.
Hann rökstuddi aftur á móti ekki mál sitt né benti hann á rannsóknir máli sínu til stuðnings þó hann sé prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands.
Sjálfur er ég á öndverðum meiði við prófessorinn enda frábendingar hans klénar. Sjaldan hefur ríkt eins mikill verðstöðugleiki í heiminum og eftir fjármálahrunið og þar til rofa fór til með heimsfaraldurinn á vesturlöndum. Verðbólga hefur síðan farið úr böndum vegna þriggja áhrifavalda. Sá fyrsti er veðuröfgar, sem leitt hafa til uppskerubrests. Númer tvö er löskuð virðiskeðja heimsins vegna veirufaraldursins og þriðji valdurinn er innrás Rússa í Úkraínu.
Tilraunir bankans að til breiða yfir sjálfan sig og kenna öðrum um verður að linna. Bankinn verður að gangast við eigin mistökum. Umræddir embættismenn bankans og bankaráðsformaður eru eins og brennuvargurinn, sem þráir aðdáun frá samfélaginu. Kenna öðrum um í tilraun til að ríghalda í völd, sviðsljós og meinta virðingu.
Hegðunin er hjákátleg.
Bankinn þarf að endurheimta trúverðugleika sinn og það verður ekki gert með þeim aðilum sem hafa verið í forsvari bankans síðan árið 2019. Sú spurning er síðan afar áleitin hvort forsætisráðherra ætli að axla ábyrgð með brotthvarfi úr forsætisráðuneytinu. Embættisveitingar hennar eru rándýr efnahagslegur skaðvaldur, sem ekki sér fyrir endann á.