
Jóhann Þorvarðarson:
Ekki eru þó allir ósáttir við fjármálastefnuna, sem nú er á leið í gegnum pappírstætarann, en það er ritstjórn Morgunblaðsins.

Búið er að reka fjármálaráðherra Bretlands, Kwasi Kwarteng, eftir aðeins um einn mánuð í embætti. Brottreksturinn er örvæntingarfull aðgerð af hálfu Liz Truss, forsætisráðherra, sem reynir nú að bjarga eigin skinni eftir að ríkisstjórnin lagði til glórulaust fjárlagafrumvarp. Hver u-beygjan rekur nú aðra í bresku ríkisstjórninni þannig að gengið er í hringi. Enginn veit sitt rjúkandi ráð. Trúverðugleikinn er gufaður upp enda hefur það aldrei gefist vel að færa tindátum völd.
Óhætt er að segja að fjármálamarkaðurinn í London veiti ríkisstjórninni daglega rassskellingu þar til hagkerfinu verður stjórnað af viti. Svo hræðileg voru forréttindafjárlögin að vextir í Bretlandi eru á himnaleið.
Ringulreiðin getur auðveldlega smitast til annarra landa í ljósi stöðu London, sem helsta fjármálamiðstöð veraldar. Önnur hagkerfi þurfa því að finna leið til að sigla fram hjá breska barðinu.
Ekki eru þó allir ósáttir við fjármálastefnuna, sem nú er á leið í gegnum pappírstætarann, en það er ritstjórn Morgunblaðsins. Hún mærði stefnuna á dögunum og sagði hana þá einu réttu. Enginn er hissa á mati blaðsins enda heldur alveg sérstök sort íslenskra tindáta um pennann á ritstjórn blaðsins.