- Advertisement -

Breskur fjármálastormur sem stefnt gæti á Ísland

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ástandið hlóðst ofan á hækkandi vaxtaferla vegna vaxtaákvarðana Seðlabanka Bretlands. Í raun er eitraður spírall í gangi nú um stundir, sem nærir sjálfan sig eins og hver annar hvirfilvindur.

Í greininni Bresk inngrip“ segir frá 10 þúsund milljarða króna inngripum Seðlabanka Bretlands á skuldabréfamarkaðinn þar í landi. Aðgerðin hófst 28. september og stendur fram á föstudag að óbreyttu. Hættulegt hökt var á lánamörkuðum vegna áhlaups á lífeyrissjóði þar í landi. Hlaupið ógnaði fjármálastöðugleika landsins. Eitthvað sem auðveldlega getur smitast yfir til annarra landa og á aðra hluta fjármálamarkaða með tilheyrandi skakkaföllum.

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða er mótuð fyrst og fremst af framtíðar skuldbindingum gagnvart sjóðfélögum frekar en hámörkun arðseminnar. Sjóðirnir þurfa að tryggja með sem bestum hætti að framtíðarinnstreymi dugi fyrir framtíðarskuldbindingum. Öðruvísi getur orðið greiðslufall og eldri borgarar fá ekki næg lífeyrislaun.

Fjárfestingarstefna, sem mótuð er út frá skuldbindingum frekar en hámörkun arðseminnar, er kölluð „Liability Driven Investments (LDIs)“ og er þá stórum hluta sparnaðar gjarnan ráðstafað í örugg skuldabréf, eins og ríkisskuldabréf, með fasta vexti. Helsti áhættuþættir fjárfestingarstefnunnar eru hækkandi vextir (hærri ávöxtunarkrafa á markaði) og aukin verðbólga. Fyrri þátturinn lækkar söluandvirði skuldabréfa á meðan verðbólgan lækkar raunávöxtun óverðtryggðra skuldabréfa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það kom samt ekki í veg fyrir að Morgunblaðið dásamaði stefnuna.

Bresk verðbólga er mikil nú um stundir á sama tíma og vextir hafa hækkað með ógnarhraða síðan í byrjun ágúst. Atburðarásin sem fór þá af stað má rekja til formannskosninga í Íhaldsflokknum í Bretlandi. Ríkisfjármálastefnan, sem Liz Truss forsætisráðherra boðaði, fór illa í fjármálamarkaðinn enda glórulaus við núverandi aðstæður. Það kom samt ekki í veg fyrir að Morgunblaðið dásamaði stefnuna.

Boðað var að lækka, ef ekki afnema hátekjuskatt, á efnameiri hópa samfélagsins án þess að búið væri að fjármagna fjárlagagatið, sem af því hlýst. Glóruleysið, sem kennt er við Reaganisma, átti bara að reddast í framtíðinni í gegnum aukinn hagvöxt. Þangað til átti að auka opinberar skuldir. Stefnan, fjárlagagatið og nú þegar miklar opinberar skuldir hrinti af stað atburðarás, sem ekki sér fyrir endann á. Gert var áhlaup á LDI sjóði og lífeyrissjóðum send innköll um auknar tryggingar í handbæru fé til að mæta skuldbindingum LDI sjóða.

Lífeyrissjóðir brugðust við breyttum aðstæðum með því að selja innan úr skuldabréfasöfnum sínum. Við það myndaðist offramboð, sem leiddi til enn meira verðfalls og enn hærri ávöxtunarkröfu. Ástandið hlóðst ofan á hækkandi vaxtaferla vegna vaxtaákvarðana Seðlabanka Bretlands. Í raun er eitraður spírall í gangi nú um stundir, sem nærir sjálfan sig eins og hver annar hvirfilvindur.

Til að stemma stigu við hættuástandinu þá taldi Seðlabanki Bretlands ekki annað í stöðunni en að búa til gervi eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum. Tilkynnt var því um stóran inngripspakka 28. september og á honum að ljúka að óbreyttu á föstudaginn kemur. Með inngripunum þá telur bankinn sig jafnframt verja fjármálastöðugleika landsins.

Myndin sem fylgir sýnir þróun ávöxtunarkröfu á 10 ára ríkisskuldabréfa dagana fyrir og eftir að inngripsferlið hófst. Nota ég það sem nálgun á þróun áhættu og ávöxtunarkröfu í Bretlandi.

Tuttugasta og annan september tilkynnir Seðlabanki Bretlands um hækkun stýrivaxta upp á um 0,5 prósentustig. Af myndinni og fréttum að dæma þá var markaðurinn undirbúinn ákvörðuninni og búinn að hækka ávöxtunarkröfuna til samræmis. Það er eðlilegt enda móta væntingar mikilvægar hagstærðir.

Dagana eftir vaxtahækkunina þá heldur ávöxtunarkrafan áfram upp á við enda farið að spyrjast út að ríkisstjórn Liz Truss myndi leggja fram makalaust fjárlagafrumvarp daginn eftir vaxtahækkunina. Dagana eftir framlagningu frumvarpsins þá æstust leikar enn meira og voru lánamarkaðir nálægt því að stöðvast þegar Seðlabankinn tilkynnti inngripspakkann.

Markaðurinn varpaði öndinni og ríkisstjórn Liz Truss var nauðbeygð til að draga til baka umdeild áform um skattalækkanir hinna efnameiri. U-beygjan og inngripin voru aftur á móti skammgóður vermir og frá og með 5. október hefur ávöxtunarkrafan náð fyrri hæð og gott betur samanber myndin. Þegar þessi orð eru skrifuð þá er krafan komin yfir 4,6 prósent. Og það þrátt fyrir nýja tilkynningu Seðlabankans í fyrradag um enn meiri inngrip en áður. Nú býðst bankinn einnig til að kaupa verðtryggð ríkisskuldabréf, en hafði áður haldið sig við uppkaup á óverðtryggðum 20 ára löngum bréfum.

Staðan í Bretlandi er eitruð. Saman fer ráðalaus ríkisstjórn, blússandi verðbólga, hækkandi ávöxtunarkrafa og vafasöm inngrip Seðlabankans. Að mínu mati þá gera inngripin ekki annað en að tefja hið óumflýjanlega, að ómögulegt sé að handstýra markaðsöflunum. Svona var andrúmsloftið á Íslandi fyrir fjármálahrunið árið 2008 og allt kom fyrir ekki.

Það hefur sjaldnast farið vel þegar seðlabankar reyna að handstýra markaðsöflum. Frægasta dæmið, sem ég man eftir, eru inngrip Seðlabanka Bretlands inn á gjaldeyrismarkaðinn árið 1992. Þá reyndi bankinn að verja gengi breska pundsins á þann hátt að verðgildi þess færi ekki út fyrir tiltekin vikmörk. George Soros braut stefnuna á bak aftur á einum degi ef svo má segja og Seðlabanki Bretlands beið algjört afhroð. Hann var áratugi að tjasla saman orðsporinu, sem hann leikur sér nú að með inngripunum.

Hvernig núverandi inngripum reiðir af verður spennandi að fylgjast með. Sagan frá árinu 1992 gæti endurtekið sig, en með víðfeðmari afleiðingum.

Í dag þá er pundið ekki að styrkjast heldur er það komið á sömu niðurleið og fyrir inngripin. Það út af fyrir sig gæti valdi nýjum upplegg á verðbólguferlinu. Síðan er harla ólíklegt að útflutningur bæti Bretum eitthvað upp þar sem staðan á meginlandi Evrópu og víðar er giska tvísýn.

Og enn síður gengur upp að draga á flot úrelta hagstjórn frá tímum Ronalds Reagans fyrrum Bandaríkjaforseta.

Í gær þá hvöttu hagsmunaaðilar Seðlabankann til að halda inngripum áfram fram til næstu mánaðamóta og jafnvel lengur. Andrew Bailey seðlabankastjóri aftekur með öllu, enn sem komið er, að verða við þeirri ósk. Hann gerir sér líkast til grein fyrir því að ekki er hægt að halda inngripum af þeim skala, sem í gangi eru, lengi áfram. Bankinn hafi ekki burði til þess og hann veit að markaðsöflum verður ekki handstýrt. Eitthvað enn stærra þarf að koma til ef skuldabréfamarkaðurinn sefast ekki.

Rót vandans í Bretlandi er margþættur og margt á sér afar langan aðdraganda. Það sem er samnefnari yfir ástandið er skortur á fyrirhyggju stjórnvalda og nauðsynlegum aga við hagstjórnina. Er nú svo komið að ekki er lengur hægt að varpa vandamálum hagkerfisins yfir á axlir framtíðar kynslóða. Og enn síður gengur upp að draga á flot úrelta hagstjórn frá tímum Ronalds Reagans fyrrum Bandaríkjaforseta. Ef stjórnvöld taka ekki á málum þá mun fjármálamarkaðurinn einfaldlega framkalla aðlögun og leiðréttingu með ægilegum timburmönnum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: