
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Mótþróaröskun á ekkert erindi hér því fólk sem er haldið þannig mótþróa er óraunsætt. Tekur vitlausar ákvarðanir.

Verðbólga á Íslandi er 4,8 prósent, en hún hefur samt verið nokkuð hófsöm í vexti sínum á árinu. Sama verður ekki sagt um Bandaríkin eða evrusvæðið. Á báðum myntsvæðum þá hefur bólgan tekið mikið stökk undanfarna fáu mánuði og er komin yfir 6 prósent þar vestra. Myndin sem fylgir sýnir til dæmis hvernig verðlag hefur breyst á evrusvæðinu frá upphafi heimsfaraldursins. Framan af þá eru verðbreytingar engar og dansa í kringum núll prósentið. Á þessu ári þá hefur bólgan látið á sér kræla og var komin að markmiði Seðlabanka Evrópu í maí 2021 eða í 2 prósentin. Á haustmánuðum hefur hins vegar dregið til tíðinda og hefur verðbólgan aukist um 1,9 prósentustig á aðeins þremur mánuðum. Stendur hún núna í 4,9 prósentum og hefur aldrei verið hærri á evrusvæðinu þó einstök lönd sýni bæði hærri og lægri gildi. Hún er til dæmis komin í 6,8 prósent í Eistlandi og 8,2 prósent í Litáen. Finnland er síðan með 2,8 prósent bólgu og Malta 1,4 prósent.
Bara í nóvember þá jókst verðlag um 0,8 prósentustig á evrusvæðinu þegar markaðurinn spáði að bólgan myndi lækka frá október mánuði. Þetta endurspeglar hversu lævísar verðbreytingarnar eru nú um stundir, sem rekja má til þess að breytingarnar eru ekki bundnar við einn tiltekinn atburð innan myntsvæða. Síðan er ekki hægt að rekja verðbreytingarnar einungis til kóvít-19. Öfgakennt veðurfar spilar einnig hér inn í. Á sumum stöðum veraldar eru þurrkar vandamál á meðan flóð er vandinn annars staðar. Hvoru tveggja hefur leitt til vöru- og aðfangaskorts í heiminum með tilheyrandi verðhækkunum. Fyrirtæki hafa jafnvel gripið til tímabundinna framleiðslustöðvana vegna afleiddra vandamála. Þetta sést vel á því að erlend eftirspurn eftir íslenskum gúrkum hefur vaxið nýlega vegna framleiðsluhnökra í Danmörku.
Spáðu verðhjöðnun.
Það má nánast slá því föstu að verðbólga á Íslandi brjóti 5 prósent múrinn fyrr en seinna og þá verðum við að horfast í augu við að 7 prósent verðbreyting sé jafnvel næsti áfangastaðurinn á Íslandi. Og ekki hjálpar omíkron afbrigðið til. Fyrir nokkru þá spáði ég hér á Miðjunni að þessi þróun vær í kortunum. Á sama tíma var Seðlabankinn og haggreinendur viðskiptabankanna fljótandi um á vindsæng með sólgleraugu. Spáðu verðhjöðnun. Við hefðum getað verið með lægri upphafspunkt bólgunnar nú þegar holskefla verðhækkana ríður yfir heiminn, en vegna rangra ákvarðana Seðlabankans þá er upphafsstaðan slæm.
Ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur að skipa Ásgeir Jónsson sem Seðlabankastjóra er að reynast landinu dýrkeypt. Fram hjá því er ekki hægt að líta og gildir engu hversu ágæt manneskja Ásgeir kann að vera. Hann þekki ég ekkert. Hann ber ábyrgðina á klúðrinu ásamt Katrínu og eiga bæði að axla ábyrgðina með brotthvarfi. Mótþróaröskun á ekkert erindi hér því fólk sem er haldið þannig mótþróa er óraunsætt. Tekur vitlausar ákvarðanir.