- Advertisement -

Brunarústir Bjarna Ben

Að tugþúsundir séu án atvinnu virðist ekki koma mikið við fjármálaráðherrann.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það er sama hvert litið er! Slóð eyðingar, sundrungar og niðurrifs eltir Bjarna Ben formann Sjálfstæðisflokksins. Viðskiptasaga hans er landsþekkt. Þar má finna mörg fyrirtæki sem annað hvort urðu gjaldþrota eða voru yfirtekin af lánardrottnum: BNT, N1, Þáttur International, Umtak, Naust, Vafningur og Máttur. Undirliggjandi fjárhæðir hlupu á hundruðum milljarða króna. Svo muna landsmenn auðvitað eftir skattaskjólsfyrirtækinu Falson.

Stjórnmálasaga Bjarna er sama marki brennd. Hann hlaut kosningu til Alþingis árið 2003. Síðan þá hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins haldið áfram að hrynja af flokknum samanber myndin sem fylgir. Flokkurinn hlaut útreið í kosningunum árið 2009 þegar Bjarni leiddi flokkinn í fyrsta skipti. Árangurinn var einstaklega lakur enda Sjálfstæðisflokkurinn ásamt Framsóknarflokknum ábyrgur fyrir þeirri þjóðfélagsumgjörð og græðgi sem leiddi til fjármálahrunsins árið 2008. Eftir útreiðina þá voru bundnar vonir við að áframhaldandi forystu Bjarna myndi vinna fylgið til baka. Það hefur alveg mistekist. Niðurstöður kosninganna árið 2017 voru þær að fylgi flokksins hefur aðeins aukist um 6,7 prósent frá botninum árið 2009. Það er glataður árangur. Með sama framhaldi þá mun það taka flokkinn meira en 40 ár að ná fylginu sem hann hafði þegar Bjarni fór fyrst á þing.

Röð marktækra skoðanakannana frá kosningunum árið 2017 sína að fylgið hefur aldrei farið yfir kosningafylgið. Miklu fremur þá er stefnan áfram niður á við á sama hátt og myndin sýnir. Það er því ekki óvarlegt að álykta að flokkurinn eigi sér ekki viðreisnarvon á meðan Bjarni er í brúnni. Margir spyrja sig af hverju hann er enn formaður þegar flokkurinn er að veslast upp. Á sama tíma þá fagna pólitískir andstæðingar ógöngunum sem flokkurinn er í. Til að gæta allra sanngirni þá á Bjarni sér samverkamenn. Þar fara framarlega þingmenn sem hafa sýnt að þeir eiga ekki málefnalegt erindi inn á Alþingi. Hinir sömu hafa einnig með verkum sínum og hegðun dregið landið í svaðið.

Allt er á tjá og tundri í hinum ósamstæða flokki.

Klofningur Sjálfstæðisflokksins árið 2016 þegar Viðreisn var stofnuð útskýrir ekki þróun mála nema að mjög takmörkuðu leyti. Fylgi hennar var vel undir 7 prósentum í kosningunum árið 2017. Talandi um klofning þá blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn er tvístraður í Reykjavík. Guðlaugur Þór hefur tögl og hagldir í höfuðstaðnum innan Sjálfstæðisflokksins, en hann gengur með formann í maganum að eigin sögn. Til að grafa undan yfirburðastöðu Guðlaugs þá hafa fjórir aðilar nákomnir Bjarna boðið sig fram í yfirstandandi prófkjöri í Reykjavíkinni. Hinir ónefndu eiga framgang sinn innan flokksins að þakka óbilandi þrælslund sinni gagnvart formanninum. Takist formanninum ætlunarverk sitt að veikja stöðu Guðlaugs Þórs þá mun stríðsástand skapast, sem bætist ofan á klofninginn sem ríkir innan borgarstjórnarhluta flokksins. Allt er á tjá og tundri í hinum ósamstæða flokki.

Hvað landsmálin varðar þá tekur ekki betra við hjá Bjarna. Verðbólga í landinu nálgast 5 prósentin og kom hún Bjarna fjármálaráðherra á óvart ef maður tekur mið af orðum hans síðustu 14 mánuði. Að mínu mati þá getur hann búið sig undir enn meiri bólgu því hún gæti slegið í 7 til 10 prósent á næstu mánuðum. Og áfram mun ráðherrann tala óábyrgt um að þetta sé nú engin óðaverðbólga. Ekki tekur betra við þegar litið er til atvinnuleysis, sem er meira á Íslandi en allt í kringum okkur. Að tugþúsundir séu án atvinnu virðist ekki koma mikið við fjármálaráðherrann. Áætlanir ríkisstjórnarinnar gera nefnilega ráð fyrir að það taki allt að 5 ár að ná atvinnuleysinu niður í 6 prósent. Til samanburðar þá tók það Bandarísk stjórnvöld aðeins eitt ár að koma atvinnuleysinu niður í 6 prósent úr 14 prósentum. Getuleysi fjármálaráðherra mun framkalla óeiningu hjá þjóðinni og er það eftir öðru hjá Bjarna.

Það sorglegasta í þessu öllu er að Vinstri græn tryggðu sundrungaraflinu Bjarna völd við ríkisstjórnarborðið þegar aðrir valkostir voru í boði.

Bjarni hefur ekki látið staðar numið í sundrungar-áráttu sinni. Nýjasta útspil hans er að ráðast að launþegahreyfingunni. Segir hana ósamlynd, en sú fullyrðing kemur auðvitað úr hörðustu hátt. Síðan bætir hann við að hækkun launa undanfarin misseri sé það sem valdi ríkjandi verðbólgu. Þetta er með því daprara sem frá ráðherranum hefur komið. Opinber gögn sína og sanna að kjarasamningar undanfarin ár hafa ekki valdið verðbólgu. Hin mikla íslenska verðbólga undanfarna 14 mánuði er sjálfskaparvíti stjórnvalda. Rangar ákvarðanir í hagstjórninni vega þar þyngst. Þar má nefna mistökin að taka krónuna ekki tímabundið af markaði vegna fordæmalausra aðstæðna. Þau mistök bera ábyrgð á um 60 prósent af verðbólgu síðustu missera.

Ofan á bætast lausatök Seðlabankans. Bankinn losaði hressilega um eiginfjár- og lausafjárkröfur banka  án þess að hafa stýringu á því í hvaða farvegi peningunum var beint. Gullæði greip um sig á fasteignamarkaði því bankarnir lánuðu grimmt inn á þann markað. Á sama tíma var lóðarskortur í sveitarfélögum sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrir. Af þessum sökum þá hækkaði verð fasteigna óeðlilega. Óstjórn og sjálfumgleði við stjórn landsins er vandamál. Það sorglegasta í þessu öllu er að Vinstri græn tryggðu sundrungaraflinu Bjarna völd við ríkisstjórnarborðið þegar aðrir valkostir voru í boði. Sá dómgreindarskortur verður seint jafnaður. Það sem lýsir eyðingareðli Bjarna þó betur en nokkuð annað er það þegar hann hindraði nýverið að íslenskur prófessor yrði ráðinn sem ritstjóri virts norræns fagtímarits á svið hagmála. Í stað þess að samfagna yfirvofandi ráðningu með þjóðinni þá lagðist Bjarni í ræsi mannlegs eðlis


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: