- Advertisement -

Brynjar: „Séra Örn Bárður er heppinn að ég er ekki Biskupinn yfir Íslandi“

Brynjar Níelsson skrifaði á Facebook:

Mig grunar að séra Örn Bárður hafi mjög takmarkaða þekkingu…

Mér finnst stundum gott að fara í kirkju og hlusta á kærleiksboðskap Krists og fallega sálma. Prestum tekst misvel upp með predikanir, eins og gengur. Stundum fjalla þeir um pólitísk álitamál í samfélaginu, sem er alveg sársaukalaust af minni hálfu. Geri samt þá kröfu að þeir hafi kynnt sér málin sæmilega áður en þeir þruma yfir söfnuðinn. Það gerist greinilega ekki alltaf ef marka má nýlegar fréttir af predikun séra Arnar Bárðar Jónssonar, sem ég tel að vísu hinn mætasta mann. Af fréttinni að dæma missir séra Örn Bárður kúlið, eins og unglingarnir segja, og vænir mann og annan um þjófnað á fiskveiðiauðlindinni af almenningi og til að bæta gráu ofan á svart fái makar og börn útgerðarmanna þýfið í arf. Látum nú vera að stjórnmálamenn tali svona í sinni eilífu sýndarmennsku en það er afleitt að góði hirðirinn tali með þessum hætti.

Mig grunar að séra Örn Bárður hafi mjög takmarkaða þekkingu á lögum og reglum um stjórn fiskveiða eða þróun þeirra og enn minni þekkingu á erfðarétti. Ég ætla því að leyfa mér, með hæfilegum hroka, að upplýsa hann um nokkur grunnatriði. Þær fær hann alveg ókeypis og má arfleiða þær hverjum sem hann vill.

En menn í þessari stöðu geta ekki leyft sér að kalla aðra þjófa.

Þegar aflamarkskerfinu var komið á 1983, sem í daglegu tali er kallað kvótakerfið, fengu útgerðir úthlutað kvóta á skip eftir veiðireynslu áranna á undan. Þessi aðferð byggist auðvitað á málefnalegum sjónarmiðum auk þess var hún að ráði færustu stjórnlagafræðinga, sem vísuðu í stjórnarskrána máli sínu til stuðnings. Þegar heimild til framsals aflaheimilda kom á árinu 1991 byggðist hún á hagrænum sjónarmiðum. Offjárfestingar og óhagkvæmni gerði greininni erfitt fyrir og hún var ekki samkeppnishæf, sem kallaði á endalausar gengisfellingar með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir almenning. Allar þessir aðgerðir stjórnmálamanna eða „þjófanna“ eins og séra Örn Bárður kallar þá gerðu það að verkum að í landinu er sjálfbær sjávarútvegur sem hefur verið undirstaðan að mestu velferð sem Íslendingar hafa nokkru sinni upplifað.

Þeir sem stunda útgerð í dag fengu því annað hvort úthlutað aflaheimildum á grundvelli veiðireynslu fyrir árið 1983 eða hafa keypt veiðiheimildir á grundvelli laga og reglna eftir 1991. Rekstur útgerða er alla jafna í hlutafélagsformi, þar sem hlutir ganga kaupum og sölum. Sum eru og hafa verið almenningshlutafélög og væru það sjálfsagt öll ef almenningur og fjárfestar væru tilbúnir að taka þá áhættu sem fylgir útgerð. Um hluti í félögum gilda sömu reglur og um aðrar eignir, þær ganga kaupum og sölum og erfast.

Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga að séra Örn Bárður eða aðrir hafi þá skoðun að fiskveiðikerfið eigi að vera öðruvísi, hvort sem það eru frjálsar veiðar allra, bann við framsali, eða innköllun aflaheimilda og uppboðsleið, sem er að vísu ótæk. En menn í þessari stöðu geta ekki leyft sér að kalla aðra þjófa. Hugtakið þjófnaður hefur nefnilega merkingu og vísar til saknæmrar og refsiverðrar háttsemi.

Séra Örn Bárður er heppinn að ég er ekki Biskupinn yfir Íslandi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: