Fréttir

Brýrnar jafn einbreiðar á morgun

„Í litlum samfélögum eru kjörnir fulltrúar mjög oft ýmist bullandi vanhæfir við hin ýmsu mál vegna skyldleika og tengsla við fólkið sem inn í þau fléttast eða mjög á gráu svæði vegna mikilla tengsla þótt það falli utan lagaramma um vanhæfi.“

By Miðjan

September 25, 2018

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, varaþingmaður Vg og sauðfjárbóndi, tók þátt í þingumræðu um traust og vantraust fólks til stjórnmálanna. Heiða Guðný hefur skoðun á hvað valdi.

„Svo kemur að tengingu sveitarstjórnarfólks og landspólitíkur. Það eru kjördæmavikur og önnur samskipti við þingmenn. Ár eftir ár hittir sama sveitarstjórnarfólkið sömu þingmennina og ber upp sömu óskirnar um sömu áherslumálin. Þingmennirnir eru fullir áhuga, skilnings og góðs vilja og svo gerist bara voða lítið eitt árið enn. Rafmagnslínurnar eru áfram eins fasa, ljósleiðarinn bara fjarlægt ákall froðufellandi sauðfjárbónda þegar léleg nettenging hendir honum út úr Fjárvís í fimmta skipti sama kvöldið og niðri á þjóðvegi verða brýrnar jafn einbreiðar á morgun og þær voru í gær. Þá þverr trú sveitarstjórnarfólks á þingmennina og trú íbúanna á bæði sveitarstjórnarfólk og þingmenn af því að í hraða nútímans höfum við ekki skilning á hægvirkri stjórnsýslu og skorti á fjárveitingum.“

Heiða Guðný hefur reynslu af starfi í sveitarstjórn Hún sagði: „Í litlum samfélögum eru kjörnir fulltrúar mjög oft ýmist bullandi vanhæfir við hin ýmsu mál vegna skyldleika og tengsla við fólkið sem inn í þau fléttast eða mjög á gráu svæði vegna mikilla tengsla þótt það falli utan lagaramma um vanhæfi. Þessi margvíslegu tengsl og mikla nálægð geta bæði skapað aukna hættu á ýmiss konar spillingu og svo það sem er lítið betra, það getur vakið upp tilhæfulausan orðróm um frændhygli og vafasöm vinnubrögð. Þetta fælir fólk frá þátttöku í sveitarstjórnarmálum, engan langar að þurfa að vera með leiðindi við skyldfólk og vini og engan langar heldur að fá á sig ásakanir um mismunun og óheiðarleika.“