- Advertisement -

Búbblan hennar Svandísar

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Svandís Svavarsdóttir lifir í búbblu sjálfsblekkingar. Telur að tillögur starfshóps, sem er fjölmennari en stærstu kirkjukórar landsins, muni leiða til breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu og álagningu auðlindagjalds. Þetta verður eins og með nýju stjórnarskrána, Sjálfstæðisflokkurinn mun hindra allar breytingar. Og nær flokkurinn þá þeim sérstæða árangri að hafa smánað bæði Svandísi og Katrínu Jak í beinni útsendingu. Vinstri græn munu hverfa af sjónarsviði íslenskra stjórnmála og deila neðanmálsgrein með Besta flokknum. Niðurstöður nefndarhersins enda síðan ofan á öðrum rykföllnum skýrslum um málefnið enda gaf Þorsteinn Már forstjóri Samherja tóninn í nýlegu viðtali. 

Þjóðin er nú þegar búin að tjá hug sinn til efnisins í nýju stjórnarskránni. Besta leiðin er að aflaheimildir verði boðnar upp á markaði. Það mun stuðla að fleiri vinnslustöðvum og fleiri útvegsfyrirtækjum, sem ekki eru allar í eigu örfárra kvótakónga. Það er gott fyrir samkeppnina. Þeir hæfustu munu bjóða hæsta verðið og kemur þá í ljós að sjálfsálit íslenskra kvótakónga um að þeir einir geti rekið útgerðarfyrirtæki er villutrú. Miðað við nýlega útreikninga Indriða H. Þorlákssonar þá fengi þjóðin 60 milljarða í auðlindatekjur árlega, að öllu öðru óbreyttu, í stað örfárra. 

Núverandi fjárgjafir til kvótakónga landsins veldur því að Landsspítalinn er að hruni kominn svo aðeins eitt dæmi sé tekið um vanfjármagnaða innviði. Vanfjármögnunin dregur að endingu samkeppnishæfni landsins niður, stuðlar að brothættu hagkerfi og mun auka á atvinnuleysi. Innviðirnir fljóta sem stendur sofandi að feigðarósi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: