Stjórnmál

Dagvara lækkar hratt

By Miðjan

August 17, 2017

Neytendur Dagvara lækkar nokuð hratt í verði. Mest eftir að Costco opnaði.

Ekki er ljóst hver velta í dagvöruverslun var í júlí síðastliðnum. Verðmæling Hagstofunnar sýnir að verð á dagvöru fer ört lækkandi. Þannig var verð á dagvöru í júlí 4,7% lægra en í sama mánuði í fyrra. Meðfylgjandi skýringarmynd sýnir tólf mánaða verðlækkun á dagvöru í hverjum mánuði frá janúar til júlí sl. Þar sést að verðlækkun hefur aukist í hverjum mánuði.

„Smásöluvísitalan hefur verið birt mánaðarlega frá stofnun Rannsóknaseturs verslunarinnar árið 2004. Frumkvæðið að birtingu smásöluvísitölunnar kom upphaflega frá verslunum í landinu og helsti tilgangurinn hefur allar götur síðan verið að veita verslunum aukið gagnsæi á mánaðarlega þróun í einstökum tegundum verslunar. Þar sem þessar forsendur hafa breyst er birtingunni sjálfhætt. Rannsóknasetrið leitar nú annarra leiða við öflun skammtímaupplýsinga um veltu verslunar eftir vöruflokkum,“segir Rannsóknasetur verslunarinnar.