
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Vert er að taka fram að Ásgeir er ekki sagnfræðingur og samkvæmt öðrum heimildum þá starfaði enginn sagnfræðingur fyrir nefndina eftir að Árni sagði sig frá verkinu.
Fyrst eftir að sagnfræðingurinn Árni H. Kristjánsson steig fram með ásakanir í garð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að hafa ritstolið efni frá honum vegna vinnu við skýrslu Alþingis um fall Sparisjóðanna reyndi Ásgeir að fela sig að baki Alþingi. Svona eins og að þingið væri skálkaskjól hugverkastuldar. Þessi vörn gekk ekki upp og var hrakin jafn harðan. Ásgeir viðurkenndi þó að hafa fengið í hendurnar efni hjá nefndinni sem hann þykist ekki vita hvaðan hafi komið né spurt um uppruna þeirra. Honum þótti samt eðlilegt að styðjast við efnið í skrifum sínum.
Samkvæmt greinargerð Alþingis, sem er undirrituð af Helga Bernódussyni þáverandi skrifstofustjóra Alþingis þann 27. nóvember 2015, kemur fram að óvilhallir matsmenn, þeir Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði og Páll Sigurðsson prófessor emiritus í lögfræði, hafi komist að þeirri niðurstöðu að enginn vafi væri á að í skýrslunni væri að finna í þaað minnsta 24 tilvik ritstuldar frá Árna H. Kristjánssyni.
Þegar Alþingi hóf athugun á málinu leitaði það til tveggja starfsmanna nefndarinnar, Vífils Karlssonar aðstoðarprófessor og Einars Þorvaldar Eyjólfssonar, og óskaði eftir greinargerð frá þeim varðandi málið. Í greinargerðinni, sem er dagsett 11. Ágúst 2014, kemur fram að Ásgeir Jónsson hafi haft með höndum sagnfræðilega hluta rannsóknarskýrslunnar. Efni sem má finna víða í skýrslunni og er það ekki bundið við tiltekinn efniskafla eða viðauka. Jafnframt, segir Einar Þorvaldur í greinargerðinni að „það hafi ekki verið ásetningur hans að hafa uppi óheiðarleg vinnubrögð heldur hafi hann haft efni í höndunum sem hann taldi sig hafa heimild til að vinna með“. Efnislega þá er þetta sama svar og Ásgeir gaf út í fyrstu eins og sjá má feitletrað hér að ofan.
Orðrétt segir í greinargerð nefndarinnar „Þá má benda á, að sagnfræðingar störfuðu og fyrir nefndina, t.d. starfaði dr. Ásgeir Jónsson, sérfræðingur í alþjóðafjármálum, peningamálafræði og hagsögu, fyrir nefndina við ritun sagnfræðihluta um sögu og bakgrunn sparisjóðanna, bæði á Íslandi og erlendis“.
Vert er að taka fram að Ásgeir er ekki sagnfræðingur og samkvæmt öðrum heimildum þá starfaði enginn sagnfræðingur fyrir nefndina eftir að Árni sagði sig frá verkinu.
Nú er Ásgeir Jónsson búinn að smíða nýtt svar alls ólíkt fyrra svarinu og er það jafnvel verra. Með nýja útspilinu þá reynir Ásgeir að draga athyglina að viðauka A sem heitir „Hagsaga sparisjóðanna“. Segir viðaukann höfundarmerktan tveimur mönnum og hann sé hvorugur þeirra. Þetta útilokar ekki að Ásgeir hafi ekki tekið þátt í ritun viðaukans enda sjaldnast upplýst hver skrifaði hvað í skýrslunni. Hvað sem þessu líður þá er Ásgeiri teflt alveg sérstaklega fram sem manninum sem hafði með höndum ritun sagnfræðilega hluta skýrslunnar. Sagnfræðilegt efni er allt um liggjandi og gengur útspil Ásgeirs því ekki upp. Hann er í raun búinn að króa sjálfan sig af ofan í djúpri holu.
Ásgeir þarf að útskýra fyrir landsmönnum af hverju hann kýs að birta ekki greinargerð Vífils og Einars Þorvalds samhliða greinargerð Alþingis. Má vera að upplýsingar í greinargerðinni, sem ég nú birti, falli ekki að tilraun Ásgeirs að hvítþvo hendur sínar af meintum ritstuldi frá Árna?
Það er óskiljanlegt af hverju Ásgeir velur þá leið að þráast við í stað þess að vera einlægur, heiðarlegur og viðurkenna ófagleg vinnubrögð, sem leiddu til ritstuldar. Eiga síðan frumkvæði að því að hann, aðrir meðhöfundar og Alþingi bæti úr málum gagnvart Árna. Ég fjalla nánar um tilraunir Alþingis í þessum efnum í þessari grein hér „Alþingi bauð þöggunarmútur“.