Fréttir

Dásamleg úlfúð innan Sjálfstæðisflokksins

By Miðjan

April 20, 2020

„Ég hef ekki skilið það af hverju sumir, eins og í þessari frétt, eru að tala um að Hannes Hólmsteinn sé einn af hugmyndafræðingum Sjálfstæðisflokksins. Ég hef ekki séð hann koma nálægt flokksstarfinu, hvorki á Landsfundi, í nefndum sem kjörnar hafa verið á Landsfundum flokksins eða á fundum eða annars staðar í húsakynnum flokksins.

Hugmyndafræði hans hljómar oft eins og fornfrjálshyggja sem var boðuð á áttunda og fram á níunda áratug síðustu aldar eins og að fyrirtæki eigi bara að hugsa um það eitt að þjóna eigendum sínum með arðgreiðslum. Ekki megi gagnrýna neitt í fari sjávarútvegsfyrirtækja og bankahrunið á Íslandi hafi bara komið erlendis. Auðvitað falla margar skoðanir Hannesar að skoðunum Sjálfstæðismanna, en það er ekki það sama og vera hugmyndafræðingur.

Að álíta Hannes hugmyndafræðing flokksins nú á tímum mun ekki auka neitt fylgi hans, enda er þetta alltaf sett fram af þeim sem vilja koma höggi á flokkinn.“

Þetta skrifar Þorkell Sigurlaugsson áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins Hannes Hólmsteinn er ekki sáttur við skrifin:

„Þegar ég var talinn hafa áhrif á stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem var tímabilið 1991–2004 (þótt sennilega sé gert of mikið úr þeim áhrifum, því að tíðarandinn ræður mestu), hafði hann eins og Skafti bendir á 35–40% fylgi með þjóðinni og sat samfleytt í ríkisstjórn! En hafi ég haft einhver áhrif þá, er ég stoltur af því.“

Jón  Magnússon, fyrrverandi þingmaður vil bera klæði á  vopnin:

„Alveg er þessi orðræða með ólíkindum. Sjálfstæðisflokkurinn var þjóðarflokkur með um og yfir 40% fylgi þegar mismunandi skoðanir hægra fólks voru allar teknar til greina þ.á.m. skoðanir Hannesar H. sem og annarra sem vildu fara aðrar leiðir. Sjálfstæðisflokkurinn náði mikilvægum málamiðlunum og setti fram stefnu sína skv. því. Sjónarmið okkar Hannesar voru iðulega ólík um margt og við urðum iðulega undir við stefnumótun flokksins. Enginn einn maður getur með sanni talist hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins. Sennilega eru mikilvægustu hugmyndafræðingar flokksins þeir Bjarni Benediktsson eldri, Jóhann Hafstein og Birgir Kjaran. Sjálfstæðisflokkurinn var lengst af frjálslyndur, þjóðlegur hægri flokkur sem hafði lengst af forustu sem stóð framar öllu öðru forustufólki í íslenskum stjórnmálum. Sjálfstæðisflokknum vegnaði best þegar svo var. Nú virðist flokkurinn vera villuráfandi bæði í hægrinu og því þjóðlega. Gæti það verið orsök fylgistapsins?“