- Advertisement -

Davíð er þá ekki svo gamall

Í Reykjavíkurbréfi morgundagsins rekur Davíð Oddsson aldur áberandi stjórnmálamanna, austan hafs og vestan. Niðurstaðan er sú að Davíð, sem verður 71 árs eftir fáa daga, er ekki svo gamall og gæti því enn átt endurkomu í stjórnmálin, alla vega aldursins vegna.

Davíð byrjar þó hér heima.

„Fróðleiks­menn höfðu flett því upp að Ell­ert væri elsti maður sem setið hefði á Alþingi, en hann varð ný­lega 79 ára. Mörg­um varð hugsað til þess að óvænta frétt­in væri frek­ar sú að eng­inn maður á þess­um aldri eða eldri skyldi hafa setið á þingi þjóðar­inn­ar.“

Evróputúrinn

„Árið 1964 flykkt­ist múgur og marg­menni að þing­hús­inu í London þegar frétt­ist að Winst­on Churchill væri að hætta á þingi. Hann var þá níræður. Sett­ist inn í bíl sinn reykj­andi eðal­vindil og gaf sig­ur­merkið.

Jú, segja menn, en hann var jú al­veg ein­stak­ur sá karl, hvernig sem á hann var litið. Mikið rétt en ekki svo ein­stak­ur í um­rædd­um efn­um.

De Gaulle sagði óvænt af sér sem for­seti Frakk­lands 78 ára gam­all. Vin­ur hans, Kon­ráð Adenau­er lét af kansl­ara­embætti Þjóðverja 84 ára gam­all. Ekki löngu áður hafði hann leitt barna­barn sitt og spurt dreng­inn hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór. „Kansl­ari, afi“ svaraði dreng­ur­inn. „Það er ekki laust“ svaraði af­inn stutt­ur í spuna.

Lát­um vera með menn eins og Franco sem var ein­vald­ur á Spáni þar til að hann lést 83 ára gam­all. Hjá hon­um var kjör­kass­inn einn og án rifu og geymd­ur hjá her­ráðinu.

Berlusconi, sá gamli vin­ur bréf­rit­ara, held­ur 82 ára enn um marga spotta á Ítal­íu og er þá ekki átt við hlýra og bik­ini­bönd.

Eng­inn leiðtogi nýt­ur eins mik­ils trausts í Bretlandi og Elísa­bet drottn­ing sem verður 93 ára 21. apríl nk. og varla er vitað til þess að hún hafi misst dag úr vinnu. En hún þarf auðvitað ekki að horfa með hrolli til kjör­kass­anna.“

Ameríkutúrinn

„En sé horft til Banda­ríkj­anna og síðustu kosn­inga þar þá kem­ur margt fróðlegt í ljós. Di­anne Fein­stein, þingmaður öld­unga­deild­ar frá Kali­forn­íu, fékk mót­fram­boð gegn sér inn­an flokks demó­krata í nóv­em­ber sl. og þurfti því að hafa aðeins meira fyr­ir sæti sínu en venju­lega. Fein­stein verður 86 ára í júní og var kos­in til 6 ára og verður því far­in að halla í 92 árin þegar hún hug­ar að end­ur­kjöri næst.

Mikið hef­ur verið látið með það, að demó­krat­ar hafi náð aft­ur meiri­hluta í full­trúa­deild þings­ins sem þeir misstu í janú­ar 2011, þegar Obama hafði verið for­seti í tvö ár af átta. Nancy Pe­losi, sem var for­seti deild­ar­inn­ar þegar meiri­hlut­inn tapaðist, var end­ur­kjör­in nú. Pe­losi verður 79 ára í mars (jafn­aldra Ell­erts „gamla“) og er kos­in til tveggja ára.

Nú eru demó­krat­ar sem óðast að stilla upp fram­bjóðend­um sín­um fyr­ir næstu for­seta­kosn­ing­ar. Er fjöldi manna á ferðinni. Joe Biden, fyrr­ver­andi vara­for­seti, er sagður heit­ur. Hann verður 78 ára í nóv­em­ber 2020. Ann­ar sem er sagður jafn­vel enn heit­ari en Biden er Michael Bloom­berg, fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri í New York. Hann er nærri ári eldri en Biden og hlýt­ur því að hafa for­skot sam­kvæmt hinu nýja lög­máli. Bloom­berg hef­ur sömu staðfest­una í stjórn­mál­um og Trump. Hann var lengst af demó­krati, en bauð sig fram sem re­públi­kani í borg­ar­stjóra­embættið. Þegar hann leitaði eft­ir end­ur­kjöri, sem hann fékk, var hann orðinn óháður og nú hef­ur hann ný­lega gengið í Demó­krata­flokk­inn aft­ur þar sem Trump og hann voru löng­um flokks­bræður. Bernie Sand­ers, sem náði ótrú­lega góðum ár­angri í próf­kjöri demó­krata síðast og sýndi mik­inn styrk og út­hald, hef­ur sagst vera að íhuga fram­boð. Það hlýt­ur að styrkja Bernie að hann verður orðinn 79 ára á kjör­dag 2020 og slær þar með Biden og Bloom­berg út að því leyti. Vandi þess­ara þriggja gæti verið sá að smá­stelpa, Elísa­bet War­ren, hef­ur boðað for­setafram­boð. Það hlýt­ur þó að há henni veru­lega að hún verður ekki nema 71 árs á kjör­dag í nóv­em­ber 2020 svo að hinir geta bent á að lág­marks­krafa sé að fram­bjóðend­ur hafi slitið barns­skón­um fyr­ir kjör­dag. Þá hef­ur War­ren það í sínu farteski að hafa kríað út sér­staka stöðu í há­skóla forðum tíð út á þá full­yrðingu að hún væri af indján­um kom­in. Hef­ur hún ríg­haldið í þá full­yrðingu og birti fyr­ir fá­ein­um mánuðum DNA-rann­sókn sem átti að sanna ætt­ernið. En sér­fræðing­ar bentu á að nær all­ir Banda­ríkja­menn væru meiri indján­ar en War­ren sam­kvæmt þess­ari mæl­ingu.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: