
Hvernig gerðist það að verðmæti Lindarvatns fór úr 930 milljónum samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2014 yfir í 3,8 milljarða um haustið 2015.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Eftir að hafa lesið ítarlega greinargerð Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR um fjárfestingar Icelandair í Lindarvanti (Landsímareiturinn) þá tel ég að tvennt standi upp úr og þarfnist nánari útskýringa í deilum ofangreindra aðila. Hjá því verður ekki komist í ljósi þess að um risavaxnar fjárhæðir er að ræða og lítt gengur með verkefnið.
Halldór Benjamín Þorbergsson og Davíð Þorláksson hjá Samtökum atvinnulífsins þurfa að svara því betur og helst með afriti af til dæmis fundargerðum innan úr Icelandair eða yfirlýsingu frá Icelandair um að þeir hafi ekki ekki átt neina aðkomu að fjárfestingarákvörðun Icelandair í Lindarvatni. Án þess að Ragnar þór hafi enn sem komið er lagt fram sönnunargögn um aðkomu tvíeykisins þá eru málavextir og þáverandi staða Halldórs og Davíðs innan Icelandair þannig að erfitt er að trúa að hvorugur hafi ekki átt aðkomu. Halldór Benjamín var yfirmaður viðskiptaþróunar Icelandair og Davíð var yfirlögfræðingur Icelandair þegar Icelandair kaupir helmingshlut í Lindarvatni fyrir 1,9 milljarða. Eftir kaupin í Lindarvatni þá tók Halldór Benjamín sæti í stjórn Lindarvatns og Davíð varð framkvæmdastjóri. Báðir héldu áfram sem yfirmenn innan Icelandair. Í svona tilviki eins og Ragnar Þór bendir réttilega á þá eru mikil líkindi til þess að Icelandair hafi skipað þá menn innan Icelandair í Lindarvatnsverkefnið sem best þekkja til málsins. Innan Icelandair hljóta að vera til gögn eins og fundargerðir og tölvupóstar sem varpa skýru ljósi á málið, nema búið sé að fara í gagnaeyðingu. Þá er spurningin aðkallandi hvort Ragnar Þór búi yfir gögnum sem hann hefur ekki birt til þessa um þetta atriði, en mun birta síðar.
Þetta eru svona hókus pókus útreikningar.
Svo er það stóra málið í þessu öllu. Hvernig gerðist það að verðmæti Lindarvatns fór úr 930 milljónum samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2014 yfir í 3,8 milljarða um haustið 2015. Þetta er virðishækkun upp á tæplega 309 prósentustig. Sjálfur hef ég lesið ársreikninga Icelandair og Lindarvatns. Í þeim er ekki að finna útskýringar á þessari virðishækkun sem segir okkur að reikningarnir eru óglöggir til lestrar þrátt fyrir áritun löggilts endurskoðenda. Þó er að finna þær upplýsingar í samstæðureikningi Icelandair fyrir árið 2015 að um leið og fyrirtækið kaupir helmingshlut í Lindarvatni að þá ritar Icelandair undir leigusamning á væntanlegu hóteli til 25 ára við Lindarvatn. Væntanlegt sjóðsstreymi samningsins hefur síðan verið núvirt út frá tilteknum forsendum og menn reiknað sig niður á virðismatið 3,8 milljarðar. Í kjölfarið er hlutabréfaverð Lindarvatns uppfært í gegnum tilfærslur innan efnahagsreikningsins.
Þetta eru svona hókus pókus útreikningar því það er nógu erfitt að spá 1-3 ár fram í tímann hvað þá heil 25 ár. Þarna hafa menn talið sig búa yfir Nostradamus hæfileikum og sagst geta séð fyrir gang mála næstu 25 árin. Ætli þeir hafi séð fyrir Covid-19 faraldurinn? Þið munið kannski hvernig allskonar viðskiptavild dúkkaði upp í ársreikningum fyrirtækja fyrir hrun og á móti var eigið fé hækkað samsvarandi. Þetta voru loftfimleikar. Síðan var fjárfestingarfé sogað út úr bönkum og lífeyrissjóðum á grundvelli Nostradamusar sjónarinnar.
Virðisauki upp á 309 prósentustig ýtir undir þetta mat mitt.
Það er alls ekki óþekkt að reiknað sé með þessum hætti, en þeir sem ástunda varkár, gáfuleg og hyggileg vinnubrögð nota mjög háa ávöxtunarkröfu fyrir allt sem er umfram 7 ár og fara afar varlega. Það þarf því að svara spurningunni hvernig málum var háttað í tilviki Lindarvatns? Ég tel næsta víst að menn hafi ekki haft kveikt á varúðinni heldur hafi græðgisljósið verið rauðglóandi ásamt góðum skammti af óraunsæi. Virðisauki upp á 309 prósentustig ýtir undir þetta mat mitt. Til að fá umræðuna upp á hærra plan þá þarf Icelandair sem er að miklu leyti í eigu lífeyrissjóða landsmanna að lyfta leyndinni af virðismatinu ásamt þeim forsendum sem lágu til grundvallar. Það stendur líka upp á ríkisbanka og lífeyrissjóðina að óska eftir að útreikningarnir verði opinberaðir. Því þessi aðilar hafa lánað mikið fé af lífeyri landsmanna í þetta verkefni eða fjárfest beint í Icelandair.