- Advertisement -

Déjá vu eða hvað?

Græðgin á að taka stjórnina undir því falska yfirskini að nýta megi bundið eigið fé betur.

Jóhann Þorðvarðarson skrifar:

Nú segir einn vitringur einkavæðingar flokksins, Óli Björn Kárason, að nýta megi söluandvirði Íslandsbanka til uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu. Þetta á að vera sefandi gulrót sem dinglað er framan í múginn svo hann sættist á söluna. Þjóðin hefur aftur á móti ekki gleymt einkavæðingu Símans. Þá var sömu feysknu gulrótinni sveiflað og 60 milljarðar króna fengust fyrir fjarskiptafyrirtækið. Ekkert varð aftur á móti um efndir og ekki hefur verið upplýst í hvað söluandvirðið fór.

Rekstur bankanna í eignartíð þjóðarinnar hefur gengið vel. Eignastofninn er góður, afkoman jákvæð og arðgreiðslur viðunandi. Mikilverðast er þó að stöðugleiki hefur ríkt á fjármálamarkaði, tiltrú almennings er vaxandi. Með þessa stöðu fyrir framan sig þá telur ríkisstjórnin æskilegt að hefja nýja einkavinavæðingu og hleypa græðginni aftur inn í brúnna á tímum mikillar óvissu. Græðgin á að taka stjórnina undir því falska yfirskini að nýta megi bundið eigið fé betur. Einnig er sagt að einkaaðilar séu svo miklu klárari en opinberir stjórnendur, framsýnni. Nýliðin Íslandssaga staðfestir að svo er ekki þegar að bankarekstri kemur innan krónuhagkerfisins. Hugmynd ríkisstjórnarinnar er einnig varhugaverð út frá þeirri staðreynd að ekki er búið að gera fjármálahrunið upp né endurskipuleggja fjármálakerfið. Aðskilja fjárfestingabanka frá hefðbundinni bankastarfsemi.

Ný Víkingaútrás er í pípunum, bíður hinu megin við hornið.

Svo er það hitt að Bjarni Ben fjármálaráðherra er ekki trúverðugur aðili til að leggja mat á söluna né fylgja henni úr hlaði. Saga hans í viðskiptum og ítrekaðar rangfærslur hans um ýmis mál gefur þjóðinni tilefni til að varast hans stefnu. Og alveg sérstaklega þegar kemur að bankamálum. Þetta veit hann mæta vel og beitir hann því Bankasýslunni fyrir vagninn. Látið er líta þannig út að vinirnir hans í sýslunni hafi ekki sérhannað álit sem fellur að vilja fjármálaráðherra.

Ef farið verður í einkavæðingu án uppgjörs og endurskipulagningar þá mun óheilbrigð áhættusækni teinóttra jakkafatamanna vaxa ásmegin og kerfisáhætta taka stefnuna á norðurpólinn. Sóknin í að ná yfirlýstri arðsemiskröfu Íslandsbanka mun herðast og getur henni ekki lokið nema með verri lánskjörum til viðskiptavina og aukinni kerfisáhættu. Grunlausir viðskiptavinir munu borga fyrir partíið. Alveg eins og í fjármálahruninu.

Allskonar afleiðuviðskipti og fjármögnun áhættusamra umbreytingarverka verða fyrirferðameiri, jafnvel yfirgnæfandi. Bæði hér á landi sem og erlendis. Ný Víkingaútrás er í pípunum, bíður hinu megin við hornið. Í þessu samhengi þá er Jón Ásgeir Jóhannesson nú þegar farinn að gera sig áberandi á sviðinu. Kunnuglegar yfirlýsingar heyrast um tækifæri hér og þar og að skrilljónahagnaður bíði bara eftir að vera sóttur og settur í gula Bónuspoka. Fleiri teinóttir karlar bíða örugglega á hliðarlínunni tilbúnir að stökkva á hinn meinta gullvagn. Allir ætla að verða skrilljónamillar. Getur verið að einhverjir í teinóttum jakkafötum hafi mætt í gleðskapinn í Ásmundarsal á Þorláksmessu?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: