
Jóhann Þorvarðarson:
Það út af fyrir sig kostar mikla peninga, sem að lokum koma úr vösum almennings í formi hærri skatta að öllu öðru óbreyttu.
Landsþekktur ritþjófnaður Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á höfundavörðu efni Dr. Bergsveins Birgissonar varpar saurugu ljósi á djúpríkið Ísland. Í málinu kristallast nefnilega ekki einungis óheiðarlegt eðli seðlabankastjóra heldur einnig hversu lágt aðilar, sem veitt hefur verið tímabundið almannavald, eru tilbúnir að ganga í misnotkun á valdinu. Allt velsæmi hverfur síðan þegar Umboðsmaður Alþingis, sem á að vera réttlætisskjól almennings, er farinn að verja djúpríkið á kostnað almennings.
Lágkúran í málinu byrjar náttúrulega hjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, en hún lét sig það engu máli varða þó maðurinn, sem hún skipaði óverðskuldað sem seðlabankastjóra, hafi dregið tiltrú Seðlabankans í svaðið. Það er engum vafa undirorpið að hegðun seðlabankastjóra og framferði Katrínar rýrir lánshæfi landsins. Það út af fyrir sig kostar mikla peninga, sem að lokum koma úr vösum almennings í formi hærri skatta að öllu öðru óbreyttu.
Þegar yfirhylmingar og lygaburður seðlabankastjóra gekk ekki upp þá ákvað hann að kaupa aflátsbréf fyrir mikinn pening frá söguprófessornum fyrrverandi og vinnufélaga, Helga Þorlákssyni. Sakaruppgjöf Helga var í besta falli kattarþvottur og var engu betri en hlandþvottur Biskups Íslands forðum þegar upp komst um kynferðisglæpi Ólafs Skúlasonar heitins, tengdaföður ríkislögreglustjóra, Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur. Óhrein sakaruppgjöf Helga var eins og hvert annað gatasigti í eldhúsi landsmanna. Það kom samt ekki í veg fyrir að seðlabankastjóri reyndi að finna sér skjól undir sigtinu. Það endaði illa og var Ásgeir á eftir eins og hundur dreginn af sundi.
Þá var skipuð ný þriggja manna siðanefnd og skipar háskólaráð Háskóla Íslands formann hennar eftir tilnefningu rektors.
Þegar sú vörn féll, og Bergsveinn var búinn að kæra þjófnaðinn til Siðanefndar Háskóla Íslands, þá var komið að öðrum fyrrum vinnufélaga Ásgeirs, rektori Háskóla Íslands, Jóni Atli Benediktssyni. Hann gerði sér lítið fyrir og lýsti yfir að Ásgeir Jónsson tilheyrði ekki Háskóla Íslands þar sem hann var í launalausu fríi. Siðanefndin sagði öll af sér vegna fordæmalausra afskipta rektors af málinu.
Þá var skipuð ný þriggja manna siðanefnd og skipar háskólaráð Háskóla Íslands formann hennar eftir tilnefningu rektors. Hinir tveir eru síðan skipaðir af Félagi prófessora og Félagi háskólakennara. Með nefndinni starfar síðan starfsmaður á skrifstofu rektors. Þannig að rektorinn er með sterk ítök í nefndinni. Nýja nefndin fór að vilja rektors og vísaði kæru Bergsveins frá.
Athygli vekur að enginn utan Háskóla Íslands eða háskólasamfélagsins situr í siðanefnd Háskóla Íslands. Þetta er allt innræktað, samansúrrað og vanskapað. Smán Háskóla Íslands er mikil og leggur skugga yfir allt fræðastarf skólans. Enginn getur verið viss um að ritstuldur sé tekinn lengur alvarlega innan skólans. Nærgöngul er því sú spurning hvort hér eigi hið fornkveðna við að lítil þúfa Bergsveins geti hugsanlega velt þungu hlassi Háskóla Íslands, sem ekki þolir dagsljósið. Trúverðugar útskýringar skortir á því af hverju mál Bergsveins þolir ekki hlutlausa og rýnda umfjöllun hjá siðanefndinni.
Málið sýnir að einstaklingurinn á ekki roð í spillt djúpríkið.
Þegar hér er komið við sögu þá stóðu Bergsveini tvö úrræði til boða. Það fyrra er að fara rándýra dómstólaleið, sem ekki er á færi allra. Hin var að leggja fram kvörtun inn til Umboðsmanns Alþingis, sem og hann gerði. Þar á bæ tók innmúraður djúpríkismaður á móti Bergsveini, Helgi I. Jónsson, Hæstaréttardómari þar til nýverið. Þetta er miður því ekki er það í fyrsta sinn sem rótgrónum djúpríkiskarli er plantað inn í hið helga vé, sem Umboðsmanni Alþingis er ætlað að vera. Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari hefur nefnilega verið tíður gestur á skrifstofu Umboðsmanns undanfarin ár. Úrskurðir hans bera með sér að hann er eins og refur í hænsnabúi og ber hiklaust taum djúpríkisins gegn borgurum landsins.
Niðurstaða hæstaréttardómarans fyrrverandi var viðbúin og röksemdin hreint út sagt skammarleg. Í henni stendur orðrétt „Við mat á því hvort ákvörðun siðanefndar 11. apríl sl. um að vísa frá nefndinni erindi Bergsveins hafi samræmst reglunum hefur þýðingu að málsmeðferð fyrir henni leggur á aðila máls skyldur sem eru í eðli sínu íþyngjandi fyrir þann sem borinn er sökum um að hafa brotið gegn siðareglunum.“ Sem sagt, taka ber tilliti til líðan þjófsins á kostnað þolandans. Málið sýnir að einstaklingurinn á ekki roð í spillt djúpríkið.
Ég finn til með Bergsveini, sem stendur óbættur hjá garði á meðan seðlabankastjóri pönkast á íslenskum efnahag með stolnar fjaðrir á brjósti.