- Advertisement -

Dómsmálaráðherra með nýja Völvuspá

Til að taka samanburð þá eru stóru bankarnir þrír með eiginfjár hlutföll sem er undir 20 prósentum.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var með gífuryrði og sleggjudóm um fjármál Reykjavíkurborgar í nýrri Moggagrein. Áslaug sagði fjárhag borgarinnar gott sem að þrotum kominn. Fullyrti síðan að eigið fé borgarinnar væri innan við 20 prósent. Áfram gekk dælan og tók hún samlíkingu um að ef Reykjavíkurborg væri heimilisbókhald þá væri reksturinn í járnum og yfirdrátturinn fullnýttur. Botnaði hún síðan mál sitt og sagði að ekkert benti til að fjárhagur borgarinnar batni á næstu árum. Mikið er gott að hafa aðgang að svona framsýnni Völvu. Hún fattar að Kóvít faraldurinn muni hafa neikvæð áhrif á fjárhaginn. Sjúddirarí rei segi ég nú bara! Nýjasti ársreikningur borgarinnar fjallar reyndar um áhrif faraldursins í sérstökum skýringarlið. En samt, alltaf gaman að heyra spádóm Völvunnar.

Svona sæmilega læs manneskja sem kann að leggja saman og deila er ekki lengi að komast að því við lestur ársreiknings borgarinnar að eiginfjár hlutfall hennar var 50 prósent í árslok 2019. Í árslok 2012 þá stóð hlutfallið í 31 prósenti. Á þennan mælikvarða þá stendur fjárhagur borgarinnar traustum fótum og hefur farið batnandi þrátt fyrir fullyrðingu Áslaugar um annað. Að vera með svona hátt eiginfjárhlutfall er í raun öfundsvert. Til að taka samanburð þá eru stóru bankarnir þrír með eiginfjár hlutföll sem er undir 20 prósentum.

Staðan í árslok 2019 var sú að borgin átti handbært fé upp á 31,8 milljarða króna.

Það sem mælir heilbrigðan rekstur betur en nokkuð annað er yfirlit yfir sjóðsstreymi. Á árinu 2019 þá var handbært fé frá rekstri jákvætt um rúma 36 milljarða króna eða tæplega 20 prósent af árstekjum. Það þykir góður árangur alls staðar í veröldinni. Áslaug taldi ástæðu til að tala um fullnýtingu á yfirdrætti þegar hún var að reyna vera með sniðuga samlíkingu við rekstur heimila. Ástæðan getur ekki verið önnur en sú að hún sjálf sé á fittinu í eigin fjármálum. Samkvæmt nýjasta ársreikningi borgarinnar þá er borgin ekki með neinn yfirdrátt. Staðan í árslok 2019 var sú að borgin átti handbært fé upp á 31,8 milljarða króna.

Söngur Áslaugar endurómar auðvitað falskan söng Eyþórs Arnalds sem fer fyrir Sjálfstæðismönnum í minnihluta borgarstjórnar. Falsettu í þeim kór syngur síðan Vigdís Hauksdóttir sem munar ekki um að andmæla sjálfri sér í einu og sama sjónvarpsviðtalinu. Já, og tala um að „Sumir megi kasta grjóti úr steinhúsi“ og að hún sjálf „Væri engan veginn að stinga höfðinu í steininn“.  

Allir ársreikningar borgarinnar eru unnir af mjög færum löggiltum endurskoðendum, sem gera góða grein fyrir endurskoðunarstörfum sínum. Upplýst er eftir hvaða alþjóðlegu reikningsskila- og endurskoðunarstöðlum er unnið. Niðurstaða þeirra er orðrétt eftirfarandi „Það er álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu sveitarfélagsins 31. desember 2019 og afkomu hennar og breytingu á handbæru fé á árinu 2019, í samræmi við lög um ársreikninga og sveitarstjórnarlög“. Sem sagt, fullt mark er takandi á reikningunum um fjárhagsstöðuna borgarinnar í árslok 2019.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: