- Advertisement -

Dómsmálaráðherra vill vítahring

Núverandi efnahagsaðstæður bjóða ekki upp á loftfimleika né endurskipulagningu í opinberum rekstri.  

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á sér ósk um meiri efnahagssamdrátt en orðið hefur. Í nýrri Moggagrein segir hún orðrétt „Fram undan eru miklar áskoranir við að aðlaga útgjöld ríkisins breyttum veruleika.  ….. Aftur á móti mun veikari staða fyrirtækja og heimila veikja fjárhagsstöðu hins opinbera og rýra möguleika þess í að viðhalda öflugu velferðarkerfi, framsæknu menntakerfi, ráðast í innviðauppbyggingu og veita almenningi betri þjónustu“. Sem sagt, ráðherrann boðar niðurskurð í opinberri starfsemi.

Niðurskurður getur ekki þýtt annað en fækkun opinberra starfsmanna enda eru laun þunginn í opinberum útgjöldum. Opinberir starfskraftar eiga ekki auðvelt með að finna ný störf hjá einkageiranum í bráð því sá geiri hefur skroppið saman í veirufaraldrinum. Þannig að hugmyndir ráðherrans framkalla aukið atvinnuleysi sem síðan minnkar eftirspurn hagkerfisins meira en orðið er. Fyrstu fórnarlömb minnkandi eftirspurnar eru minni einkafyrirtæki sem finna má út um allt land. Veltan hjá þeim heldur áfram að dragast saman og á endanum leiðir það til  meiri uppsagna. Þessi hringrás leiðir til enn minni skatttekna hins opinbera og skera þarf enn meira niður samkvæmt hugsanagangi Áslaugar Örnu. Þetta er vítahringur, niðursveiflu-spírallinn fær fellibyl í seglin fái Áslaug Arna að ráða.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á sama tíma boðar Áslaug Arna vítahring kreppu.

Vandamál hagkerfa heimsins er minnkandi erlend eftirspurn (minni útflutningur) og því hafa öll vestræn hagkerfi gripið til aðgerða á eftirspurnarhliðinni til að styrkja innlenda eftirspurn. Í þeim efnum þá hefur spjótunum verið beint sérstaklega að því að bæta lausafjárstöðu atvinnulausra með því að hækka atvinnuleysislaun. Einnig hefur verið forðast að skera niður í opinberum rekstri því opinberir starfsmenn virka sem sveiflujafnarar á eftirspurnarhliðinni. Einkaneysla þeirra dregst almennt ekki saman í niðurdrætti og hún eykst minna í uppdrætti. Það er jákvætt fyrir einkafyrirtæki enda heldur einkaneysla opinberra starfsmanna fyrirtækjunum á floti við núverandi efnahagsaðstæður. Niðurskurður mun trufla þetta samband.

Á Bretlandi er að fara í gang meiriháttar fjárfestingar hins opinbera í innviðum ef marka má orð Borisar Johnson og hækka á atvinnuleysislaunin. Evrópusambandið er að taka 120.000 milljarða lán til að fara út í nýfjárfestingar til hliðar við ráðstafanir aðildarlandanna. Í Bandaríkjunum þá voru atvinnuleysislaun hækkuð um meira en 331 þúsund krónur á mánuði tímabundið með þeim árangri að atvinnuleysi minnkaði strax um 29 prósent. Upptalin hagkerfi grípa til þessarar aðgerða til að efla innlenda eftirspurn. Svona rekur þetta sig áfram og hef ég áður fjallað um lönd eins og Finnland, Möltu og Nýja Sjáland. Á sama tíma boðar Áslaug Arna vítahring kreppu.

Og hvernig fjármagna löndin aðgerðirnar ef skattar eru ekki hækkaðir og enginn er niðurskurðurinn? Seðlabankar viðkomandi hagkerfa prenta nýja peninga, skuldir eru auknar og gengið er tímabundið á varasjóði. Svo þegar hagkerfin komast á eðlilegt ról, atvinnuleysi húrrast niður og skatttekjur taka aftur að vaxa þá er peningaframboð minnkað niður á hæfilegt stig, skuldir eru greiddar upp og byrjað er að safna í varasjóði aftur.

 Einkafyrirtæki þurfa á neyslu opinberra starfsmanna að halda ekki seinna en núna.

Í dag þá eru stýrivextir í stóru vestrænu hagkerfunum núll prósent og traustir opinberir aðilar geta tekið lán á vöxtum sem liggja að núll prósenti. Þannig að vaxtakostnaður er ekki íþyngjandi þáttur. Í hruninu árið 2008 þá gátu sterk ríki tekið lán á neikvæðum vöxtum, þ.e. þeim var borgað fyrir að taka lán. Þegar altæk óvissa nær yfirtökunum eins og var árið 2009 og fjárfestar verða einstaklega óöryggir með sitt fjárfestingarfé þá snýst málið um að fórna jákvæðri ávöxtun fyrir öryggi. Menn vilja sem best þeir geta passa upp á verðgildi höfuðstólsins og eru tilbúnir að borga fjársterkum ríkjum eins og Bandaríkjum fyrir að taka peningana þeirra að láni. Þá er það metið svo að það auki öryggi að lána til dæmis Bandaríska ríkinu á neikvæðum vöxtum. Þetta gerðist til dæmis í mars árið 2009 þegar vextir á eins mánaða ríkisvíxlum voru neikvæðir um 0,0152 prósent. Lánsfé á erlendum fjármálamörkuðum er einstaklega ódýrt nú um stundir eins og endurspeglaðist í maí þegar ríkissjóður tók nýtt evrulán á 0,625 prósent vöxtum. Innlend lánskjör ríkissjóðs eru einnig afar hagstæð. Vaxtaferlar segja mér að vextir á tveggja ára ríkisbréfum sé komið undir 1,4 prósent óverðtryggt og vextir á fimm ára bréfum standa við 1,8 prósent óverðtryggt. Þannig að það eru kjöraðstæður að auka skuldsetninguna til að efla innlenda eftirspurn. Hin leiðin sem Áslaug Arna vill fara ber feigðina í sér.

Núverandi efnahagsaðstæður bjóða ekki upp á loftfimleika né endurskipulagningu í opinberum rekstri.  Einkafyrirtæki þurfa á neyslu opinberra starfsmanna að halda ekki seinna en núna. Koma þarf þjóðarskútunni á aukna siglingu og í var undan fellibyl veirunnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: